25.11.1948
Efri deild: 20. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í C-deild Alþingistíðinda. (4211)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vildi bara benda hv. flm. á tvö atriði varðandi samvinnufélögin. Í fyrsta lagi er það rétt hjá honum, að eðli hlutafélaganna er misjafnt. Sums staðar er um áhætturekstur að ræða, t. d. við sjávarútveg, og þess vegna þurfa þau félög að fá sérstöðu í skattalögum. Önnur félög þurfa þess hins vegar ekki. Það er engin áhætta í sambandi við að selja bjór, Coca-Cola eða Sírius, og þar er engin þörf á því að leggja skattfrjálsan ágóða til hliðar til þess að tryggja reksturinn. Um kaupfélögin gegnir allt öðru máli. Það er misskilningur að tala um skattafríðindi, eins og hv. þm. Barð. gerði, þótt þau borgi ágóðann aftur til viðskiptamanna. sinna og fái þar af leiðandi lægri útsvör. Það gæti komið til mála að lofa „Agli“ að úthluta arði til viðskiptamanna sinna af hverri bjórflösku og minnka þannig sinn eiginágóða, en ég veit ekki, hvort hann kærir sig um það. Ég veit heldur ekki, hvort þeir, sem eiga „Coca-Cola“, mundu kæra sig um þetta fyrirkomulag, en þeir, sem þurfa þessar vörur, mundu kæra sig um það. Samvinnufélögin borga út meiri hlutann af ágóða sínum til félagsmanna sinna. Þess vegna hafa þau lægri tekjur og þar af leiðandi lægri tekjuskatt og útsvar. — Svo er annað. Samvinnufélag, sem starfar á einhverjum stað, safnar eignum og sjóðum af ágóða sínum, sem er eign almennings, en kaupmaður, sem fengið hefur heimild til þess að láta varasjóði sína vaxa, á þá sjálfur, eða þá hlutafélag. Og hvað verður svo um sjóði samvinnufélaganna? Þeir ganga í arf frá kynslóð til kynslóðar. En þegar kaupmenn eldast, þá er allt selt og þeir flytja til Reykjavíkur með fé sitt, hafi þeir búið úti á landsbyggðinni, án tillits til þess, hvað þarflegt sé og gagnlegt fyrir héraðið. Og hafi þeir búið í Reykjavík, reyna þeir að setjast að í útlandinu með arð sinn þegar þeir hætta að okra á almenningi. Þetta er annar stóri eðlismunurinn á rekstri samvinnufélaga og rekstri einstaklinga. Það er heildin, sem á samvinnufélögin og ákveður, á hvern hátt fé þeirra skuli notað, en um hlutafélög getur farið eins og togara, sem bundinn er við hafnarbakkann, af því að ágóðinn er ekki talinn nægilega mikill. Þótt það sé nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið og viðkomandi hérað, að atvinnureksturinn haldi áfram, er honum hætt og hann fluttur burt. Það er því mín skoðun, að samvinnufélögin ættu að njóta miklu meiri fríðinda en þau gera nú, því satt að segja eru þau engin.