26.11.1948
Efri deild: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í C-deild Alþingistíðinda. (4218)

82. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta mál er nú gamall kunningi, og þarf ég ekki miklu við að bæta það, sem sagt er í grg. fyrir því. Þegar allsherjarlöggjöfin um vátryggingu fiskiskipa var sett fyrir nokkrum árum, þótti hæfilegt að láta elzta vátryggingarfélag landsins, sem orðið er 80 ára gamalt, njóta sérstöðu sinnar, sem Vestmannaeyingar höfðu líka lagt áherzlu á, að það fengi. Síðan hefur löggjöf þessi verið endurskoðuð með takmörkuðu árabili, hvað eftir annað, og nú er enn farið fram á það, en að vísu ekki gert ráð fyrir takmörkuðu árabili nú, heldur aðeins að lögin verði framlengd. Ég ætla ekki að ræða aðstæður útvegsins í Vestmannaeyjum né annars staðar, enda mun þessi framlenging verða veitt nú eins og endranær, en það er brýn þörf að greiða fyrir þessari þýðingarmiklu atvinnugrein. Ég vil mælast til þess, að loknum umræðum, að þessu máli, sem mig minnir að hafi áður verið í sjútvn., verði vísað til 2. umr. og sjútvn.