19.11.1948
Efri deild: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

17. mál, kjötmat o.fl.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Ég viðurkenni, að till. horfa víða til bóta, og yfirleitt get ég sætt mig við þær. Ég sé, að n. hefur farið mjög að ráðum Dýralæknafélagsins, og er ekki nema gott um það að segja. Ég held þó samt, að það mætti athuga viðvíkjandi 1. brtt., hvort ekki væri rétt, að fleiri menn, en yfirdýralæknir kæmu þar til, t.d. yfirkjötmatsmaður. — Sama er að segja um b-liðinn í 7. brtt. Ég held líka, að rétt væri að athuga milli umræðna, í sambandi við almennar heilbrigðisreglur, að ætla læknum eða heilbrigðisyfirvöldunum athugun á þessu og athuga, hvort ekki sé í lögum skipun um heilbrigðiseftirlit með meðferð matvæla. — Um brtt. við 7. gr. skal ég taka fram, að ég er ekki á móti henni, en í frv., eins og segir í seinni hlutanum, er kjöt ekki ætlað til útflutnings, svo að skyndiskoðuninni, sem þar er gert ráð fyrir, er ekki ætlað að ná til útflutts kjöts. — Ég get yfirleitt fallizt á brtt., en vil ræða málið milli umræðna við kjötskoðunarmenn og þá, sem sömdu frv.