28.04.1949
Efri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í C-deild Alþingistíðinda. (4241)

197. mál, laun starfsmanna ríkisins

Sigurjón Á. Ólafsson:

Þetta skal ekki verða langt. Ég vil aðeins beina því til fjhn., sem flytur þetta mál, að hún kynni sér vel álit þess aðila, sem þetta snertir sérstaklega, og á ég þar við þá, sem eru á launal. Mér þætti a. m. k. æskilegt, að leitað væri álits hins skipulagsbundna félagsskapar þeirra á því, hvort þeir gætu unað við, að þessi breyt. yrði gerð. Mér er fyllilega ljóst, að það er ekki alveg sama, hvort þrír óvilhallir menn úrskurða um ágreining, sem hér kann að eiga sér stað, eða það er lagt undir einn mann, sem er fjmrh. Hið síðara mundi aldrei verða talið eins óvilhallt.

Hitt atriðið, um laun þessarar n., skiptir miklu minna máli. Ég hygg, að það séu ekki svo margir úrskurðir, sem n. fellir, að það þurfi að kosta mikið fé. Hitt er miklu meira atriði, að n. fái að vera áfram sem öryggi fyrir því, að óvilhallir úrskurðir verði felldir út af ágreiningi, sem rísa kann upp. Ég fyrir mitt leyti er því þess vegna mótfallinn, að þessi breyt. nái fram að ganga.