28.04.1949
Efri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í C-deild Alþingistíðinda. (4248)

197. mál, laun starfsmanna ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hvað er nú það, sem almennt er kallaður rógur? Ég á að hafa farið með róg um formann Sjálfstfl., Ólaf Thors, að sögn hv. þm. Barð. Ég held, að rógur sé að dreifa út ósönnum söguburði um flokka eða menn þeim til ófrægingar. En hvað sagði ég svo? Jú, ég sagði, að hv. þm. G-K. og hv. þm. Snæf. hefðu hamazt við að afnema úr l. ákvæði um vinnutíma opinberra starfsmanna, en hefðu lofað löggjöf um réttindi og skyldur embættismanna. Enn fremur, að þáverandi forsrh., Ólafur Thors, hefði skipað þm. Snæf. (GTh) til að framkvæma þetta. Þótt þetta sé að öllu leyti rétt, þá kallar hv. þm. Barð. þetta róg, því að hann finnur, að þetta er niðrandi, en eru þó blákaldar staðreyndir. Hvað sagði ég meira? Jú, ég sagði, að þegar menn allt í einu sneru frá villu síns vegar, t. d. þegar vantrúaður gerðist allt í einu trúaður, þá væri slátrað alikálfi og haldin veizla. Líkt hefði farið fyrir Sjálfstfl., þegar fyrsti bæjarútgerðartogarinn kom til landsins, þá hefðu þeir haldið veizlu til. þess að fagna því. Er það ekki satt, að Sjálfstfl. hafi barizt á móti bæjarútgerð í Hafnarfirði bæði í ræðu og riti, en snúizt hugur, þegar fyrsti togarinn kom hingað, og haldið veizlu til þess að fagna honum? Það er þetta, sem hv. þm. Barð. kallar róg, og sé það rógur í hans augum, þá er það af því, að samvizkan slær hann. Í sambandi við þetta mál hef ég ekki sagt annað en stendur í þingtíðindum og blöðum Sjálfstfl., og vísa ég því öllu tali um róg heim til föðurhúsanna.

Ég hygg, að nokkurs misskilnings hafi gætt hjá hv. þm. Str. í sambandi við n., sem hér er lagt til, að lögð verði niður. Hún varð ekki til með launalögunum, heldur á undan þeim. Með þessu frv. er lagt til, að hún verði lögð niður, en vald og verksvið hennar lagt í hendur fjmrn. Form. n. er skrifstofustjóri í fjmrn., svo að segja má, að lítil breyting verði þar á, því að hún hefur aldrei haldið fund. Sé ég því ekki ástæðu til þess að halda henni.

Mér þykir ekki trúlegt, að brtt. við málið nái fram að ganga, nema orðið hafi stefnubreyting hjá Sjálfstfl., og má þá fara að halda veizlu. Sem sagt, ef stefnubreyt. Sjálfstfl. er fyrir að fara, nær málið fram að ganga, en trauðla ella.