28.04.1949
Efri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í C-deild Alþingistíðinda. (4250)

197. mál, laun starfsmanna ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hefði nú haft ástæðu til þess að ræða við og svara hv. þm.

Str. öllum þeim rakalausu fullyrðingum og skætingi, sem hann hefur hreytt út úr sér, en bæði er, að ég hef hér aðeins tíma til að gera örstutta athugasemd og mun einnig hafa tækifæri til þess við 2. umr. málsins. Einnig sé ég, að hv. þm. er nú hlaupinn af fundi, eins og hans er vandi eftir slíka ræðu sem þessa, og kemur líklegast ekki aftur fyrr en eftir viku eða hálfan mánuð.

Ég vil taka það fram varðandi það, sem hv. þm. sagði um afstöðu mína til rektors, þá eru það ósannindi, að ég hafi nokkurn tíma ráðizt á hann persónulega. Og vil ég segja þm. Str. það, að þegar sú till. var hér á þingi að taka risnu af flestum opinberum starfsmönnum og búið var að fella að taka risnu af dómurum hæstaréttar, tók ég mína till. um að fella niður risnufé til rektoranna til baka. Ég vildi ekki sýna þeim það óréttlæti, þótt þingfylgi hefði fengizt til að samþ. tillöguna. Hygg ég, að þetta sýni allt annað en óvildarhug í garð rektors.

Mér varð á að segja í fyrri ræðu minni, að rektor skyldi kenna 15 st. á viku, en vil leiðrétta það, því að það eru ekki nema 8 st. samkv. þeim einu l., sem um þetta eru til.

Ég vildi spyrja hv. þm. Str.: Var ekki rektor menntaskólans eitt sinn á þingi, og hafði hann ekki nægan tíma til þess að sinna sínum störfum fyrir því? (HermJ: Hann hætti þingmennsku einmitt vegna þess, að hann hafði ekki tíma til þess.) Mér er nú nær að halda, að til þess hafi legið aðrar orsakir. Ég get nefnt annað dæmi. Einn mætur framsóknarmaður, sem ég þekki, hefur 30 þús. kr. tekjur á einum stað, en 40 þús. kr. á öðrum. Fyrir lægri launin vinnur hann frá 10–12 f. h. og 2–4 e. h., en fyrir þau hærri vinnur hann á kvöldin. Í sambandi við rektor vil ég að lokum taka fram, að ég met hann mjög mikils, miklu meir en hv. þm. Str.

Um orlofslögin, tryggingarnar o. fl. ætla ég að geyma mér að ræða við hv. þm., ef hann verður þá ekki hlaupinn að fullu og öllu. Að síðustu vil ég taka fram, að það eru ósannindi hjá hv. þm. N-M., að Ólafur Thors hafi skipað Gunnar Thoroddsen til að framkvæma þetta umrædda starf. En það fer að venju, að hv. þm. hikar ekki við að fara með ósannindi um Sjálfstfl., þótt þau hafi margoft verið rekin ofan í hann.