02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í C-deild Alþingistíðinda. (4258)

199. mál, orlof

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 594 að bera fram frv. til l. um breyt. á l. um orlof, þannig að 6. málsgr. 8. gr. orðist svo:

„Allt það fé, sem inn kemur fyrir seld orlofsmerki, skal póststjórnin leggja í lok hvers mánaðar í sérstakan sjóð, sem nefnist orlofssjóður. Skal sjóðurinn ávaxtaður að hálfu leyti í Landsbanka Íslands, en að hálfu leyti í Útvegsbanka Íslands h/f. Orlofssjóður greiðir út orlofsfé samkv. fyrirmælum 13. gr. Kostnaður við orlofsfé og orlofsbækur greiðist úr orlofssjóði, að svo miklu leyti sem fé er fyrir hendi til þess í sjóðnum fram yfir lögboðnar greiðslur samkv. 13. gr., annars úr ríkissjóði. Reikningar orlofssjóðs skulu árlega birtir í Stjórnartíðindunum.“

Þessi breyting fer fyrst og fremst fram á það, að allt fé, sem inn kemur fyrir seld orlofsmerki, skuli renna í sérstakan sjóð, orlofssjóð. Það er upplýst, að póststjórnin hefur fengið að láni til rekstrar sérleyfisbifreiða 2.200.000 kr. Samkv. yfirlýsingu frá póststjórninni er talið, að þetta sé fé sem póstsjóður ræður yfir, m. a. orlofsfé. Hæstv. viðskmrh. hefur að vísu neitað þessu þvert ofan í yfirlýsingu póststjórnarinnar, og geta þeir aðilar deilt um það, en ef það er ekki orlofsfé, þá er það annað fé frá einhverri annarri innheimtu, því að póstsjóður á slíkar fjárhæðir, en hvað um það, þá tel ég skylt, að orlofsféð sé ekki tekið til almenns rekstrar ríkisins. Þetta fé á ríkissjóður að innheimta fyrir aðra og má ekki blanda því saman við annað rekstrarfé sitt. Ég vil leyfa mér að benda á og vildi, að ráðh. athugaði, að á fjárl. eru nú á 17. gr. ætlaðar 360 þús. kr. til þess að standast kostnað af prentun orlofsmerkja. Ef þetta frv. yrði samþ., má losna við þessi útgjöld, því að þá gætu vextir orlofssjóðs borið kostnaðinn af prentuninni og það fé, sem kemur inn sem greiðslur, en er aldrei greitt úr ríkissjóði aftur. Það er ekki vitað, hvað það fé er mikið, en það er alltaf mikið fé, sem ekki er sótt í orlofsbækur og á nú að falla til ríkissjóðs, en ef frv. verður samþ., þá í orlofssjóð, sem síðan gæti staðið undir öllum kostnaði við prentun merkjanna. Ég hef lagt til, að sjóðurinn sé að hálfu ávaxtaður hjá Landsbankanum og að hálfu hjá Útvegsbankanum, og tel ég það fríðindi fyrir bankana að fá þetta fé, og þar sem þeir, sem greiða orlofsféð, munu vera að hálfu viðskiptamenn hvors banka, þá þykir þetta réttmætt. Mér þótti og sjálfsagt að taka Útvegsbankann með, því að vitað er, að hann þarf að sækja mikið rekstrarfé með háum vöxtum til Landsbankans. (BSt: Því ekki Búnaðarbankans?) Vitað er, að minnst af þessu fé kemur frá landbúnaðinum, en þó datt mér í hug að hafa Búnaðarbankann með, og kemur það fullkomlega til greina.

Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða þetta öllu meira og vísa til grg. frv., en vænti þess, að málið fái góðar undirtektir í hv. d., og geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. hafi áhuga á, að málið nái fram að ganga, þar sem þá mætti lækka um 360 þús. kr. á fjárl. Ég vil svo óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og til heilb.- og félmn., því að orlofsl. munu einmitt eiga þar heima.