02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í C-deild Alþingistíðinda. (4259)

199. mál, orlof

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að ræða frv. efnislega, en ég vildi gera það að till. minni að vísa því til fjhn. Þetta er hreint og beint fjárhagsmál, hvernig ávaxta skuli fé, er ríkið innheimtir. Jafnframt vildi ég mælast til þess við þá hv. n., sem fær frv. til athugunar, hvort sem það verður nú fjhn. eða heilbr.- og félmn., að hún í fyrsta lagi ræði við hæstv. viðskmrh., því að sú stofnun, sem varðveitir fé þetta, heyrir undir hann, og þar sem deilt hefur verið um það hér, hvernig fé þessu hefur verið ráðstafað, þá er það kurteisisskylda að gefa honum kost á að láta skoðun sína uppi um þetta. Ég hringdi í hann áðan, en hann á, eins og allir vita, heima suður í Hafnarfirði, og taldi hann sig eiga erfitt með að koma, og því beini ég því til n. að hafa um þetta samráð við hann. Í annan stað bendi ég á það, að eðlilegt væri, að hæstv. forsrh. væri einnig tilkvaddur, því að orlofsl. í heild heyra undir hann, og er því rétt að bera allar breyt., sem þetta frv. fer fram á, undir hann. Þessum tilmælum vildi ég beina til n. og tel þetta mál frekar eiga heima í fjhn. Eins og ég sagði í upphafi, skal ég ekki blanda mér efnislega í málið og bíð átekta með afstöðu mína, þar til málið hefur verið athugað betur af n. og í samráði við hæstv. ráðh.