02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í C-deild Alþingistíðinda. (4260)

199. mál, orlof

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins benda hv. þdm. á, að það er viðurkennt nú af hv. 1. landsk., að orlofsl. heyri undir hæstv. félmrh., og þegar svo er, þá finnst mér skakkt að vísa frv. til fjhn., enda þótt ég beri fullkomið traust til þeirrar hv. n. En það er annað, sem ég vildi vekja athygli á. Þessi till. hv. 1. landsk. um að vísa málinu til fjhn., sem fjallar um fjárhagsmál ríkisins, sýnir það, að hv. þm. álítur, að orlofsféð sé ríkissjóðsfé, og um það er deilan.

Ég tel þetta ekki ríkissjóðsfé, því að þetta er fé, sem launþegarnir í landinu eiga og ríkissjóður hefur enga heimild til að ráðstafa. Þess vegna ber að hafa það í sérstökum sjóði, þar sem ekki er leyfilegt að taka það sem rekstrarfé ríkisins, og þess vegna á frv. ekkert erindi í fjhn. Hitt er ég sammála um, að það ber að hafa fullt samráð við hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh., sem hefur þó tekið þetta fé til rekstrar samgöngumála, eins og upplýst hefur verið af póststjórninni, og greitt með því ýmsar greiðslur, en ekki haft það sérstakt eins og fé, sem ríkissjóður ekki á, sem honum þó bæri fullkomlega.