02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (4261)

199. mál, orlof

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Enda þótt ekkert nýtt kæmi fram hjá hv. flm., þá þykir mér rétt að svara honum að nokkru. Hann heldur því fram, að þetta sé ekki ríkisfé. Um það má deila. Innheimtan er hjá ríkissjóði skv. l., og hann felur svo ákveðinni stofnun að innheimta féð og greiða það út, og frá því að það er innheimt og þar til það er greitt út, myndast sjóður, og þetta er eins og hvert annað fé, sem gengur út og inn. Bankamálin fara hér alltaf í fjhn., og bankarnir lána og innheimta, og svipað er um þetta, og þetta fé hefur ríkissjóður ábyrgzt, og aldrei hefur orðið misbrestur á því, að menn fengju það. Því tel ég frv. eiga heima í fjhn., enda þótt ég beri auðvitað jafnt traust til beggja n., en hv. flm. á sæti í annarri og það gerir gæfumuninn frá hans sjónarmiði, en ég tel það engan galla frá sjónarmiði flm., að málið fari í n., þar sem hann á ekki sæti. Það er þvert á móti ávinningur, ef aðrir taka vel í frv., meiri ávinningur en ef flm. ætlaði sér að beita sérstökum áhrifum um afgreiðslu málsins. Ég mótmæli því og tel það algerlega ofmælt, að hæstv. viðskmrh. hafi tekið orlofsféð og notað það. Þetta er allt of mikil fullyrðing, sem ég mótmæli, þótt hins vegar sé vitað, að póstsjóður hafi notað þetta fé sem annað í sinni vörzlu til þess að greiða það, sem honum er gert að greiða samkv. l., og er ekkert athugavert við það, en ég mótmæli því, að hæstv. ráðh. hafi gert nokkuð, sem stríðir á móti l., og því, að hann hafi ekki gætt heiðarleiks í meðferð opinbers fjár.