02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í C-deild Alþingistíðinda. (4263)

199. mál, orlof

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Út af fyrir sig sæki ég það ekkert fast, að málið fari til félmn., því að ég vantreysti ekki fjhn., því að hún hefur sýnt, að hún getur afgr. stærri mál en þetta, þótt ekki séu fullsetnir fundir, svo að ég er ekkert hræddur um, að þetta frv. dagi uppi hjá n., og ef það er talið óheppilegt, að flm. eigi sæti í n., þá er mér sama, en það kom enn fram það sama hjá hv. 1. landsk., að hann taldi þetta fé ríkissjóðstekjur, en ég mótmæli því. Þetta eru ekki tekjur ríkissjóðs, þótt póstsjóði sé falið að útbúa merkin. Þetta er fé launþeganna í landinu. Hv. 1. þm. Reykv. taldi frv. því aðeins réttlætanlegt, ef um embættisafglöp væri að ræða í þessu sambandi. Ja, hvað er það nú að ráðstafa í leyfisleysi á þriðju millj. kr. til vafasamra fyrirtækja? Það er vitað, að hæstv. viðskmrh. hefur varið 2.300.000,00 kr. til taprekstrar og til þess að kaupa bíla án heimildar. Þetta er vítaverð meðferð opinbers fjár, og vil ég ekki samþykkja, að orlofsféð sé látið ganga til slíkra hluta, en það er vitanlega þægilegt fyrir hæstv. ráðh. að hafa þennan sjóð til þess að grípa til. Hv. 1. þm. Reykv. verður að viðurkenna, að meginið af þessum 2.300.000.00 kr. var orlofsfé, og þegar á að greiða það út, verður að grípa til annarra sjóða. Það er því full ástæða til þess, að orlofsféð sé í sérstökum sjóði, því að það er ekki tekjur ríkissjóðs, og óska ég efnislegrar afgreiðslu hér í hv. d., hvort það eigi að vera á valdi eins ráðh. að taka þetta fé í eina eða aðra framkvæmd ríkisins.