25.11.1948
Efri deild: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

17. mál, kjötmat o.fl.

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Við 2. umr. hreyfði hæstv. landbrh. því, að rétt væri að láta kjötmatsformann gera till. um sláturhús og meðferð á kjöti ásamt yfirdýralækni. Nefndin hefur ekki komið saman til að ræða þetta mál, en einstakir nefndarmenn hafa samþ. þetta í viðræðum að hnýta kjötmatsformanni aftan við 2. gr. Enn fremur benti hæstv. ráðh. á, hvort ekki væri rétt að láta heilbrigðisyfirvöldin koma meira við þessi mál, en ákveðið er í frv. Þetta var ekki athugað í n. í heild, en við athugun kom í ljós, að í minni bæjum er sums staðar engin heilbrigðisnefnd til, og þótti því ekki gerlegt að setja þetta í lög. Ég benti áður á, að engin lög væru til sem heimiluðu, að flokkunin fylgdi kjötinu alla leið á borð neytenda. Ég benti á, að erfitt væri að koma þessu fyrir í lögum, en þó mætti setja í reglugerð ákvæði, sem tryggðu þetta a.m.k. að einhverju leyti. T.d. mætti stimpla skrokkana á 6 stöðum, og má benda á það, að 3. fl. kjöt, sem ætlað er til vinnslu, er stimplað með rúllustimpli, frá hálsi og aftur úr á báðum hliðum skrokksins, svo að það sé ekki selt sem 1. eða 2. fl. kjöt. Ég talaði um þetta við ráðh., og hann lofaði að athuga, hvort setja skyldi ákvæði í reglugerð, sem tryggt gætu, að 3. fl. kjöt væri aldrei selt sem 1. eða 2. fl. kjöt og einnig að minnsta kosti stærri heildin af 1. og 2. fl. kjöti lentu ekki saman. Ég held, að undirtektir ráðh. séu vottur þess, að hér sé vilji til umbóta fyrir hendi. Ég vona því, að þessi brtt. verði samþ. Hún er að ósk ráðh. og a.m.k. meinlaus.