25.11.1948
Neðri deild: 22. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (4273)

70. mál, skattaeyðublöð landbúnaðarins

Flm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Till. þessi er fram borin vegna óánægju, bæði bænda yfirleitt og skattanefnda, sem hafa með þessi mál að gera. Eins og tekið er fram í grg., eru þau eyðublöð, sem hér um ræðir og ætluð eru sérstaklega til þess, að bændur færi á þau tekjur sínar og gjöld, þannig, að það verður vart við unað. Vil flm. þessarar till. teljum, að sá hluti eyðublaðsins, sem ætlaður er fyrir tekjurnar, sé ekki athugaverður. Það er hægt að færa tekjurnar nákvæmlega og vel sundurliðaðar, og þar er engu sleppt, sem gæti orðið tekjur í búi eins bónda. Öðru máli gegnir, þegar að gjaldaliðunum kemur. Það er að vísu vel sundurliðað allt, sem snertir kaupgjald, í búi bóndans, en aftur á móti er nálega ekkert rúm ætlað fyrir önnur gjöld. Þetta rúm er svo þröngt skammtað, að skattanefndir yfirleitt kvarta stórlega undan því. Einn yfirskattanefndarmaður sagði á fundi, að þegar búið væri að færa á þessi blöð og reyna að gera það vel sundurliðað og samvizkusamlega, þá væru blöðin þannig, að ómögulegt væri að lesa, hvað þar ætti að vera. Þar er allt útkrassað vegna þess, að ekkert rúm er ætlað fyrir þær upplýsingar, sem þar eiga að vera. Framteljendur verða svo að færa óskyld gjöld saman, svo að þeir, sem endurskoða, geta ekki áttað sig til hlítar á því, hvernig þessu er í raun og veru háttað. Enn fremur höfum við margoft rekið okkur á það, að sleppt er ýmsum gjöldum, sem þar eiga að vera, eingöngu vegna þess, að það er ekkert, sem minnir á, að gjöld þessi á að taka upp á eyðublaðið, og svo er heldur ekkert rúm ætlað fyrir þau. Þetta er þess vegna, í fáum orðum sagt, alveg óviðunandi og hefur verið það lengi. Ástæðan til þessa er, að ég hygg, sú, að þessum hluta eyðublaðsins hefur ekki verið haggað, svo að teljandi sé, síðan 1922, og þarf engan að undra, þó að formið sé orðið úrelt. Það hefur orðið svo margvísleg breyting á búrekstri bænda, margvísleg gjöld komin nú, sem ekki þekktust þá, t. d. vélavinna og ýmislegt annað. Þessi þáltill. er flutt til þess og ætluð til þess að ýta við því að fá yfirlýsingu hv. Nd. Alþ. um, að breytinga sé þörf á þessu og það sem allra fyrst. Við, sem stöndum að þál., erum allir formenn skattanefnda, og ég hygg, að það þurfi ekki að draga í efa, að við höfum þann kunnugleika á þessum málum og þá reynslu til að bera í þessu efni, að það muni í raun og veru vera brýn nauðsyn á þessum breytingum. Ég skal geta þess, að ég hef gert uppkast að þeim breytingum, og borið það undir meðflm. mína, og við teljum, að á þann hátt hafi verið gengið frá þeim, að það sé vel fyrir þessu máli séð. Við erum fúsir til að láta stjórnarvöldunum það í té til athugunar. Við væntum svo stuðnings hv. d. við þessa till., sem við berum hér fram. Ég skal ekki fjölyrða um þetta, en legg ekki til, að þessu máli verði vísað til n. Ég hef ekkert sérstakt við það að athuga, ef hv. þd. óskar þess, en mér sýnist þetta mál svo einfalt, að ekki muni þurfa að fjalla um það í n. En ef hv. d. vildi vísa því til n., þá óska ég, að það yrði helzt landbn