20.12.1948
Sameinað þing: 29. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (4279)

111. mál, frestun á fundum Alþingis

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur nú nýlega fengið samþ. lög um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna hér í hæstv. Alþ. Og við síðari umr. í hv. Ed. um þau lög kom í ljós, sem líka hafði verið haldið fram í hv. Nd., að samþykkt þeirra laga mundi ekki vera trygging fyrir því, að sjávarútvegurinn kæmist af stað eftir nýárið. Og enginn hefur í raun og veru haldið því fram enn, að nein lausn sé fengin á dýrtíðarmálunum með samþykkt þeirra laga. Ég álit þess vegna, að það hefði verið æskilegra, til þess að hægt væri að ræða á Alþ. um lausn þeirra mála eftir nýárið, að Alþ. hefði getað komið saman strax eftir nýárið, þannig að aðeins venjulegt jólaleyfi hefði verið gefið og þingfundum frestað á meðan.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. lagt fram þá till., sem hér liggur fyrir, um að fresta fundum Alþ. lengur, eða til 21. jan., sem þar með gefur ríkisstj. vald til þess að gefa út bráðabirgðalög á þessum tíma, þar til þing kæmi saman aftur samkv. till. Ég er því andvígur fyrir mitt leyti, að hæstv. ríkisstj. fái þessa heimild, sökum þess að ég treysti henni ekki til þess að ráða fram úr þessum málum, sem að mun kalla eftir nýárið að leysa, og ég tel heppilegra, að hæstv. Alþ. gæti þá strax komið saman til þess að fjalla um þau. Þess vegna er ég á móti þessari þáltill.