28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (4286)

21. mál, jeppabifreiðar

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður, en ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 33, sem er brtt. við brtt. á þskj. 26, en sú brtt. fer fram á, að jafnframt því, sem stuðlað verði að því að auka innflutning jeppabifreiða, þá verði þess gætt, að jafnframt verði flutt inn nægilega mikið af varahlutum, til þess að þessir bílar þurfi ekki að stöðvast. Ég er sömu skoðunar og flm. þessarar brtt., að það sé ekki minni nauðsyn, heldur jafnvel meiri að gæta þess, að flutt sé inn nægilega mikið af varahlutum til þess að hægt sé að starfrækja þær bifreiðar af þessu tagi, sem fyrir eru í landinu. Ég er alveg sammála hv. flm. um það, að sú nauðsyn sé ekki minni en að bæta við þær bifreiðar, sem fyrir eru. Þó að mér sé kunnugt um það, að óskir manna um fleiri bifreiðajeppa eru raunar fyrir hendi og þörf manna ótvíræð fyrir því, að þeim óskum verði fullnægt að meira og minna leyti, þá er hitt ekki þýðingarminna atriði, að það sé tryggt, að hægt sé að nota þær bifreiðar, sem fyrir eru í landinu; til sams konar nauðsynja, bæði í þágu einstaklinga og félaga og atvinnu í landinu. En mér fannst, þegar um þetta var rætt, að þá væri ástæðulaust að ganga fram hjá, að það er mjög mikill fjöldi annarra atvinnubifreiða í landinu en jeppabifreiða, sem engu minni nauðsyn er; að hægt sé að starfrækja, og það eru yfirleitt vörubifreiðarnar í landinu og þær fólksbifreiðar, sem notaðar eru í atvinnuskyni, og það er staðreynd með þær bifreiðar, eigi síður en með jeppana, að til þeirra vantar mjög tilfinnanlega varahluti og það svo í mörgum tilfellum, að svo að segja ekkert má út af bera til þess, að viðkomandi bifreiðar stöðvist ekki. Ég geri ráð fyrir, að hv. alþm. sé yfirleitt kunnugt um þann skort, sem er á varahlutum til þessara bifreiða, en ég get þó sérstaklega um þetta vitnað vegna þess, að á s. l. sumri ók ég vörubifreið og rak mig þá tilfinnanlega á þessa hluti. Bifreið sú, sem ég ók, var svo að segja ný, og komu þess vegna ekki fram neinar meiri háttar bilanir, en það geta þó alltaf komið fyrir einhverjar smávegis bilanir, og get ég nefnt sem dæmi, að einu sinni brotnaði fjöður yfir öðru afturhjóli, og leit út fyrir um tíma, að þessi tiltölulega litla og algenga bilun yrði til þess að þessi nýi bíll yrði að stöðvast. Kom í ljós, að í engri þeirra verksmiðja, sem verzla með bifreiðar eða varahluti, hvorki á Akureyri né í Reykjavík, var hægt að fá fjöður, sem passaði í þessa bifreið. Og eftir að hafa eytt heilum degi í það að ganga milli manna, sem áttu vörubifreiðar og ættu kannske þetta stykki, tókst mér að fá fjöður, sem að vísu var ekki alveg eins, en mátti þó nota, eftir að henni hafði verið breytt af högum manni. — Þetta þykir nú kannske ekki sögulegur atburður, en ég nefni þetta sem dæmi, til þess að sýna og sanna, að ástandið í þessum efnum er þannig hjá atvinnubifreiðum í landinu, að örlitlar bilanir geta valdið því, að bifreiðarnar verði óstarfhæfar um lengri eða skemmri tíma, og sjá þá allir, hve illa er komið fyrir þeim mönnum, sem slíkar bifreiðar eiga og hafa af þeim lífsframfærslu. Ég álít þess vegna, þó að þessi þáltill. sé bundin við sérstaka gerð atvinnubifreiða, jeppana, að full ástæða sé til þess að taka einnig til athugunar ráðstafanir til þess að bæta úr þeirri brýnu þörf, sem á því er, að séð sé betur en gert hefur verið fyrir varahlutum til atvinnubifreiða almennt. Ég vil þess vegna vænta þess, að þessi brtt. mæti velvild og skilningi og verði tekin til meðferðar af þeirri n., sem fær aðaltill. til meðferðar.