01.11.1948
Sameinað þing: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (4293)

21. mál, jeppabifreiðar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég býst við því, að flestir, sem til landbúnaðar þekkja, séu sammála um það, að mikil þörf sé á að landbúnaðarvélar fáist út í sveitir landsins og þá ekki sízt jeppabifreiðar, sem till. þessi fjallar um. Mér sýnist nú þessi till., sem gerir ráð fyrir áð flytja inn 600 jeppa á næsta ári, sé heldur seint fram komin, því að það hefur sem sé verið upplýst hér, að fyrir mörgum vikum eða jafnvel mánuðum hafi Verkfærakaupanefnd ríkisins lagt til, að fluttir yrðu inn 2.000 jeppar á næstu þrem árum. Ég held því, að þessi till. hafi lítið gildi, þótt samþ. yrði, því að henni eru þrengri takmörk sett en áður fram komnum till. um þetta efni. Ef reiknað er með innflutningi 2.000 jeppa á næstu 3 árum, þá er eðlilegt að gera ráð fyrir, að fyrsta árið verði flutt meira en 1/3 hluti þeirra jeppa inn, eða ca. 7–8 hundruð, því að enginn jeppi hefur fengizt inn í landið í nær því tvö ár. Það virðist því augljóst, að þessi till. gengur skemur en till. verkfærakaupanefndar. Hæstv. atvmrh. upplýsti þá vansæmandi staðreynd, að hér séu um 80 manns með lögleg leyfi til að kaupa jeppa upp á vasann, leyfi frá nýbyggingarráði, sem hlutaðeigandi menn hefðu enga vitneskju um, hvenær yrðu innleyst. Þetta er hreint og beint hneyksli, Þegar opinberar stofnanir gefa þannig út leyfi, sem ekki er staðið við, en það, sem er enn þá verra, er það, að sumir þessara manna hafa verið látnir borga meiri hlutann af verði þeirra jeppa, sem þeir aldrei hafa fengið, til þess heildsala, sem flytja átti jeppana inn. Manni verður á að spyrja, hvort tilætlunin með þessu sé að láta bændur landsins leggja heildsölunum hér í Reykjavík til rekstrarfé, og ég get ekki búizt við, að svo sé. En þar sem vitað er, að það hefur verið knúið fram, að þau verzlunarfyrirtæki, sem gátu sannað, að þau ættu bíla erlendis og þeir væru borgaðir, hafa fengið bílana, — og það eru einmitt slíkir bílar, sem fluttir hafa verið inn að undanförnu —, þá ættu bændur jafnframt að fá þá jeppa, sem þeir hafa bæði fengið leyfi fyrir og borgað. Það er siðferðileg skylda hins opinbera að sjá svo um, og ég trúi því ekki, að gjaldeyrisástandið sé svo slæmt, að það verði ekki hægt.

Það hefur hér verið rætt um bæði úthlutun Búnaðarfélags Íslands og nýbyggingarráðs á þeim jeppum, sem áður hafa verið fluttir inn, og ég tek undir ummæli hv. 1. þm. Skagf., að ég held, að það sé rétt, að úthlutun Búnaðarfélagsins hafi verið þannig, að þá jeppa, sem félagið úthlutaði, hafi eingöngu bændur fengið svo og þeir, sem vinna í þágu landbúnaðarins. Aftur á móti fullyrti hv. þm. Barð., að nýbyggingarráði hefði verið fengin úthlutunin í hendur af því, að hún hefði öll farið í handaskolum hjá Búnaðarfélaginu, og virðist nýbyggingarráð hafa ætlað að kippa þessu í lag og láta þá bændur eingöngu fá jeppana og það með því skilyrði, að þeim yrði ekki svindlað til kaupstaðanna. Ef þetta hefur verið tilgangurinn, eins og næst liggur að halda, þá er spurningin, hvort breytingin hafi náð tilgangi sínum, hvort úthlutunin hafi verið betur af hendi leyst og fleiri jeppar lent í sveitunum, eftir að nýbyggingarráð tók við. Og reynslan sýnir, að allt fór öfugt við hinn góða tilgang, því að þá fyrst fóru jepparnir að streyma til kaupstaðanna, eftir að nýbyggingarráð fór að úthluta þeim. Ég held, að það sé rétt haft eftir hæstv. menntmrh., að hann hafi sagt hér við umr., að úthlutun nýbyggingarráðs hafi verið hneyksli, og ég held, að þessi ummæli hæstv. ráðh. séu rétt. Mér er tjáð, að fundargerðir nýbyggingarráðs, sem ættu í þessu efni að vera fyrstu handar sönnunargagn, séu til, og þá sennilega nú í vörzlu fjárhagsráðs. Nú má kanna þessa frumheimild og sjá, hvort öðrum en bændum hafi verið úthlutað, og gá að því, hvort skilyrði hafa verið sett um það, að menn mættu ekki selja jeppana án vitundar ráðsins, sem gæti þá látið bændur hafa þá aftur. Ég tel rétt að láta athuga þetta, þegar rifizt er um þessa úthlutun hér á Alþingi. Það vill svo vel til, að bifreiðar eru númeraðar og skrásettar á nafn, svo að auðvelt ætti að vera að rekja eigendaskipti jeppanna. Það er ekkert á móti því, að það verði bætt úr vanrækslu hins opinbera gagnvart þeim mönnum, sem leyfi hafa fengið, en engan jeppa út á þau, með því, að þeir bílar, sem ekki hafa lent í sveitunum eða hefur verið svindlað þaðan, verði blátt áfram teknir eignarnámi og seldir bændum, sem leyfi hafa, fyrir sanngjarnt verð, ef það er rétt, að nýbyggingarráð haf sett ófrávíkjanleg skilyrði fyrir því, að bílarnir skyldu vera í eigu bænda. Sé hægt að sanna, að þessum skilyrðum hafi ekki verið fullnægt, þá á að taka bílana af þeim, sem orðið hafa eigendur þeirra með því að brjóta þessi skilyrði. Það er sanngirniskrafa að fá að vita, hve margir af þeim 800 jeppum, sem nýbyggingarráð úthlutaði, hafi verið látnir með því skilyrði, að þeir yrðu í sveitunum. Það er auðvelt að fá þetta fram í dagsljósíð með fundargerðarbækur nýbyggingarráðs sem vitni.

Ég heyrði, að hv. 1. flm. þessarar till., hv. þm. N-Ísf., fór mörgum orðum um ranglæti í úthlutun bíla. Nefndi hann þar til, að til væru allstór kauptún úti á landi alveg bílalaus, og er það hverju orði sannara, og tek ég undir þetta, að ég undrast þessa skiptingu, þegar upplýst er, að landslýðurinn eigi nú um 11.000 bíla. En einmitt af því, hve ég var honum sammála um þetta, þá þótti mér það æði mótsagnakennt, er hann í sinni ræðu talar um það sem brot á reglum um innflutning bifreiða, að veitt var innflutningsleyfi fyrir bíl, svo að eitt hinna bíllausu kauptúna fengi þannig sína fyrstu bifreið. Þessi afstaða hv. þm. er því furðulegri, sem bifreiðin fór einmitt í þorp í hans eigin kjördæmi. Hv. þm. N-Ísf. var einnig hneykslaður á þeim fjölda lúxusbíla, sem hann sagði, að rynnu hér um göturnar til þess eins að brenna benzíni, þ. e. a. s. eyða gjaldeyri. Ég tek það fram, að ég hneykslast eins og hann á þessu, og svo mun um fleiri, en nú vildi svo til, að bíllinn, sem útvegaður var í bíllausa þorpið, var einu sinni gljáfægður lúxusbíll, sem rann hér um göturnar og brenndi benzíni, og það, sem gert var, var það eitt, að bíllinn fluttist úr Reykjavík út í kjördæmi hv. þm. N-Ísf. og er nú notaður þar til almenningsflutninga á fjölfarinni leið. Það mundi sæma sér betur fyrir þennan hv. þm. að greiða fyrir því, að lúxusbílar úr Reykjavík yrðu gerðir að almenningsvögnum í bifreiðalausum kauptúnum vestur á landi. Í viðbót datt mér svo í hug, er ég hlustaði á þennan sama hv. þm. úthella hneykslun sinni yfir lúxusbílunum hér í höfuðborginni, að þeir þyrftu að vera einurðargóðir, sem myndu ekki eftir því, að sjálfir væru þeir eigendur slíkra bíla, þegar þeir töluðu um mistök í úthlutun bifreiða. Mér er nefnilega sagt, og ég held, að það sé rétt, að hv. þm. N-Ísf. eigi einmitt einn slíkan gljáfægðan lúxusbíl, sem rennur um göturnar og brennir benzíni, og hann fékk þennan bíl ekki fyrr en hætt var að flytja inn jeppa handa bændunum. Okkur er sagt, að jeppainnflutningurinn hafi stöðvazt vegna gjaldeyrisskorts, og hefði þá verið hægt að fá til landsins 2–3 jeppa með því að spara lúxusbíl hv. þm.

Ég hef þá drepið á þau tvö atriði, sem mér þótti miður fara í ræðu hv. þm. N-Ísf., og gat ég ekki stillt mig um að gera þau bæði að umtalsefni. Ég óska þess að lokum, að hægt verði að flytja inn 2.000 jeppa á næstu 3 árum, og ég óska þess enn fremur, að betur verði séð um það en áður, að ekki verði braskað með þá og að þeim verði ekki úthlutað af tveim aðilum, þar sem hvorugur veit af öðrum. Ég vona enn fremur, að innflutningur á jeppum verði ekki látinn sitja á hakanum fyrir innflutningi lúxusbíla handa mönnum, sem ekkert hafa að flytja nema sinn eigin skrokk.