01.11.1948
Sameinað þing: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (4295)

21. mál, jeppabifreiðar

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þm. og hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, fyrir góðar undirtektir, sem þetta mál hefur fengið. — Mér skilst, að þótt eitt tiltölulega lítt skylt atriði hafi borið á góma í þessum umr., þá hafi ekki komið fram raddir gegn þáltill. málefnislega. Það virðast allir vera sammála um, að nauðsyn beri til þess, að fluttir verði inn þessir vagnar, sem þarna er um að ræða. Við flm. fögnum þessum undirtektum og skilningi á sjálfu efni málsins og fyrir okkur er það algert aðalatriði, að sú till., sem hér liggur fyrir, hefur fengið yfirlýst fylgi, og eru þess vegna miklar líkur fyrir því, að hún nái fram að ganga.

Ég vil samt fara nokkrum orðum um þau atriði, sem hér hafa komið fram. Vil ég fyrst minna á það, að fyrir okkur flm. þáltill. vakir að sjálfsögðu ekki það, þótt varahlutir séu ekki nefndir, að þeir yrðu ekki jafnframt fluttir inn, bæði til þessara nýju tækja og hinna, sem fyrir eru, heldur lítum við svo á, að innflutningur nægjanlegra varahluta leiddi af sjálfu sér, og þess vegna tókum við þetta ekki upp í þáltill. Nú, hins vegar þegar flutt hefur verið brtt. um það að taka af skarið með þetta, munum við að sjálfsögðu taka því og væntanlega sú n., sem fær málið til athugunar, og leggja til, að sú brtt. verði samþ., því að við getum tekið undir það, að það er til lítils að vera að flytja inn fjölda bifreiða, án þess að séð verði fyrir nægjanlegum varahlutum til þeirra. Við vitum, að nú er svo komið, að vegna skorts á varahlutum er fjöldi bifreiða í ónothæfu ástandi, og það eru ekki sérstaklega jeppabifreiðar, sem svo er ástatt um, heldur eru það fólksflutningabifreiðar, bæði einstaklinga og atvinnubifreiðar, og einnig vöruflutningabifreiðar. Þó að þetta megi teljast mál út af fyrir sig, þá munum við mæla með því, að brtt. hv. 8. landsk. á þskj. 33 verði samþ.

Hv. 1. þm. Skagf. sagðist fagna því, að þessi þáltill. væri fram komin, og trúi ég því vel, því að hann vill bændum landsins vel. En ég vil taka það fram, að mér finnst það ákaflega einkennilegt, hvernig hv. þm. og hans flokksbræður láta fögnuð sinn í ljós yfir því, að bændur fái þessi tæki, með því að ráðast heiftuglega á stofnanir eins og t. d. nýbyggingarráð og einnig á fyrrv. hæstv. ríkisstj. fyrir það að flytja inn þessi tæki. Maður hlýtur að fyllast undrun yfir slíkri málsmeðferð, og ég vil segja, að mér finnst miður, að hv. 1. þm. Skagf., sem er einnig búnaðarmálastjóri, skuli gera það að aðalatriði í umr, um þessa þáltill. að deila á þá aðila, sem af framsýni og skilningi á þörfum bænda í þessum efnum beittu sér fyrir því, að hafinn væri hér innflutningur á jeppum. Það er svo fjarri því, að þessi ummæli hv. 1. þm. Skagf. hafi nokkuð við rök að styðjast, að þessi þáltill. sé flutt sem eins konar vantraust á nýbyggingarráð og fyrrv. hæstv. ríkisstj., heldur má þvert á móti telja hana sem viðurkenningu á þeirri stefnu, sem bæði nýbyggingarráð og fyrrv. ríkisstj. mörkuðu, þar sem með þessari þáltill. er einmitt lagt til, að þeirri stefnu sé haldið áfram.

Hitt er svo annað mál, sem ég hygg, að flestir séu sammála um, að bæði úthlutun nýbyggingarráðs og Búnaðarfélags Íslands á þessum tækjum sætti nokkurri gagnrýni. Og það er mín skoðun, að hvorugur þessi aðili hafi framkvæmt hana eins og æskilegt hefði verið. En sannleikurinn er sá, og það minntist hæstv. fjmrh. á, að það er ákaflega erfitt um vik að úthluta slíkum tækjum, án þess að einhverjum mislíki, ég veit ekki, hvaða stofnun það er í landinu, sem hefði hlotið óskipt lof fyrir það. Ég vildi, að hv. 1. þm. Skagf. vildi segja mér, hvaða stofnun hann héldi, að það væri. Eins og hæstv. fjmrh. minntist á, eru þessi tæki mjög eftirsótt, en meðan gjaldeyrisörðugleikarnir eru eins og þeir eru nú, eru ekki líkur til þess, að eftirspurn eftir þessum vögnum verði fullnægt, og alltaf verður einhver, sem finnst hann hafa orðið út undan og aðrir fengið of mikið.

Það var eitt atriði í ræðu hv. þm. Skagf., sem ég var undrandi yfir. Hann sagði, að Búnaðarfélagið hefði hætt við að setja þau skilyrði, sem upphaflega voru sett, þegar það fékk inn þessa jeppa, vegna þess að nýbyggingarráð hefði úthlutað sínum vögnum án þess að setja nokkur skilyrði. Mér finnst þetta ekki vera sterk rök hjá hv. þm. Ég held, að sjónarmið Búnaðarfélagsins hefði átt að vera það að bjarga því, sem bjargað yrði, og reyna þannig að sjá um, að þeir 450 vagnar, sem Búnaðarfélag Íslands hafði til umráða, færu ekki til Reykjavíkur, og hv. 1. þm. Skagf., sem einnig er búnaðarmálastjóri, hefði átt að reyna að tryggja það, að þeir héldust allir í sveitinni. En mér finnst hitt alveg undravert, að halda því fram, að það hafi verið sjálfsagt af Búnaðarfélagi Íslands að gefa þetta alveg frjálst, vegna þess að nýbyggingarráð hefði ekki sett neinar reglur þar um, mér finnst einmitt enn þá brýnni nauðsyn hjá Búnaðarfélaginu að reyna að sjá til þess, að þessi 1/3 hluti jeppanna héldist í sveitinni, þegar aðrir aðilar gerðu það ekki.

Hæstv. fjmrh. upplýsti það hér, að af þeim bifreiðum, sem nýbyggingarráð hefði úthlutað, hefði 166 verið úthlutað til Reykjavíkur. Það er að mínu áliti allt of mikið. En ég ætla bara að spyrja hv. þm. að því, hvort þeir trúi því, að það séu ekki nema 166 jeppabifreiðar hér í Reykjavík. Ég held, að þeir séu fleiri og það miklu fleiri, en þeir 166 vagnar, sem nýbyggingarráð úthlutaði hingað, ég veit, að þeir eru fleiri, hvað sem aðstandendur Búnaðarfélags Íslands segja. Búnaðarfélagið hefur orðið fyrir harðri gagnrýni viðvíkjandi þessari bifreiðaúthlutun (StgrSt: Í hverju var hún fólgin?) Hún var fólgin í því, hvernig bifreiðunum var skipt milli búnaðarfélaga, og auk þess má minna á, að strax í upphafi fór töluvert af þessum bifreiðum ekki út í sveitirnar, heldur beint til Reykjavíkur og meira að segja til starfsmanna Búnaðarfélags Íslands (StgrSt: Var það ekki leyfilegt?) Ég segi ekkert um það, en þeir jeppar fóru ekki í sveitirnar. Ég er heldur ekki að segja, að það sé neitt óeðlilegt, að starfsmenn Búnaðarfélagsins fengju þessi tæki, en það sýnir það aðeins, að landbúnaðarjepparnir, sem Búnaðarfélagið úthlutaði, eru ekki allir í sveitinni, heldur líka í Reykjavík.

Ég hef aðeins orðið svona margorður um þetta atriði, enda þótt það sé algert aukaatriði hvað þetta mál snertir, af því að tilefni gafst til þess. Aðalatriðið er, að þessi tæki verði flutt inn í landið áfram, og þeirri stefnu fylgt, sem fyrrv. ríkisstj. og nýbyggingarráð mörkuðu, og að þeim verði úthlutað handa bændum landsins og verði settar reglur þar um. Hitt er annað mál, að mörg rök mæla með því, að fólk í þorpum og jafnvel í kaupstöðum, sem stundar landbúnaðarstörf, fái eitthvað af jeppum. Í mörgum stærri þorpum lifir fjöldi manns á búskap, og hefði slíkt fólk mikil not fyrir þessi tæki. Það mætti segja, að það væri æskilegt, að sem flestir ættu bifreið, en við vitum, að þjóðfélagið hefur ekki gjaldeyri til þess, það kostar um 30 millj. kr. að reka bifreiðar Íslendinga nú, ef séð er fyrir nægilegu brennsluefni og varahlutum til þeirra.

Þá vil ég styðja þá skoðun hæstv. fjmrh., að ég álít sanngjarnt, að þeir 80–100 menn, sem innflutningsleyfi hafa nú fyrir jeppabifreiðum, verði látnir ganga fyrir, þegar byrjað verður á því að flytja inn þessi tæki á ný.

Ég veit ekki, hvort ég á að svara hv. 3. landsk., ég þekki það frá umr. við hann á öðrum vettvangi, að hann tekur aldrei málefnislega afstöðu til nokkurs máls, fyrir honum er slíkt algert aukaatriði, heldur reynir hann að koma af stað úlfúð og leiðindum. En ég vil nú samt sem áður, af því að hann hefur, eins og svo oft áður, misskilið mín ummæli, benda honum á það, að hann túlkaði þau algerlega ranglega, þar sem hann sagði, að ég hefði kvartað yfir því, að einn vagn hefði verið seldur úr Reykjavík vestur á land í bifreiðalaust þorp. Ég benti á í sambandi við stöðvun á innflutningi hinna 80–100 jeppabíla, sem leyfi höfðu verið veitt fyrir, að mér fyndist lítið samræmi í því, að þegar hundruð lúxusbíla kæmu til Reykjavíkur, væri stöðvaður innflutningur þessara nauðsynlegu tækja. Ég veit ekki, hvernig þessi mikli fjöldi bifreiða er hingað kominn, þeir munu sennilega vera komnir inn sumir fyrir utan gjaldeyrisleyfi, og fyrir aðra var búið að taka gjaldeyri. En hvað sem því líður, þá er ekki furða þó að menn séu dálítið gramir yfir því, að stöðvaður sé innflutningur á landbúnaðartækjum, eins og t. d. jeppum, og fá ekkert út á þau leyfi, en á sama tíma sé verið að flytja inn hundruð gljáfægðra vagna, sem renna hér um götur höfuðborgarinnar. Ég býst við, að þetta liggi ljóst fyrir hv. þm., hvaða samræmi er í þessu. Þá er vert að geta þess, að jeppabílarnir eru tiltölulega miklu ódýrari, en stærri bílar, sem fluttir hafa verið inn á þessu ári og verið er að flytja inn. — Það er svo fjarri því, að ég kvarti yfir, þó að einhver bifreið sé flutt úr Reykjavík út á land, ég fagna því, ef bíllausir staðir geta náð sér í slík nauðsynjatæki. Þetta er svo lítið atriði, sem ekki er þess vert, að fjölyrt sé um, en það sýnir þó, hver er meining þessa hv. þm., að sniðganga sannleikann, og þegar hann svo bætti því við, að ég hefði á sama tíma sem þessi 80 leyfi voru stöðvuð, þá hafi ég fengið eina gljáfægða bifreið flutta inn. Sannleikurinn er sá, að ég fékk innflutningsleyfi fyrir bifreið löngu áður en búið var að taka ákvörðun um það að banna innflutning þeirra 80–100 jeppabifreiða.

Ég vildi svo endurtaka þakkir mínar til hv. þm., sem hér hafa talað og lýst sig fylgjandi þessari þáltill., og vænti ég þess, að hún nái fram að ganga, og ég vona, að hún muni hafa áhrif í þá átt að tryggja það, að bændur fái þessi tæki. Og síðan verði að því snúið, þegar innflutningurinn er tryggður, að settar verði reglur um það, eins og þáltill. gerir ráð fyrir, að þær bifreiðar haldist í sveitum landsins. Við flm. væntum þess, að Búnaðarfélag Íslands og aðrir aðilar, sem þar koma við, verði sammála um að setja þau skilyrði, sem nauðsynleg eru, og gangi þannig frá úthlutun og sölu þeirra, að þetta höfuðatriði verði tryggt.