01.11.1948
Sameinað þing: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (4296)

21. mál, jeppabifreiðar

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vil ekki, að þessari umr. lúki, án þess að ég segi nokkur orð um þessa þáltill. — Ég vil fyrst benda á það, hvernig gjaldeyrisástandið hefur verið hjá okkur á síðasta ári og sérstaklega á þessu sumri, og þá alveg sérstaklega með þann gjaldeyri, sem hér er um að ræða, dollaragjaldeyrinn. Það ástand hefur verið svo, að það hefur ekki verið hægt að greiða eina einustu af þessum bifreiðum, og það hefur ekki verið hægt að kaupa nema mjög lítið af varahlutum, og það hefur heldur ekki verið hægt að kaupa nema lítið eitt af nauðsynjavörum og miklum mun minna en nauðsynlegt var, þannig að síðari hluta sumarsins hefur gengið gersamlega á dollaraeignina. Þetta kemur ekki af því, að ríkisstj. eða neinir aðilar, sem með þessi mál fara, hafi haft á móti þessum innflutningi. Við hefðum ekki óskað annars fremur en að greiða fyrir honum. En það hefur verið vegna þess, að ekki eru nú til dollarar til þess að inna af hendi þær greiðslur, sem þurft hefði í þessu skyni. Þess vegna hefur allt þetta ár verið bann við veitingu gjaldeyrisleyfa, bæði til þessara bifreiðakaupa og annars. Í beinu framhaldi af þessu ástandi og með sérstöku tilliti til Marshallaðstoðarinnar, sem okkur hefur verið gefinn kostur á að taka þátt í, var svo samin innflutningsáætlun fyrir næstu 4 ár, það er að segja, að tekin var upp sérstök áætlun um greiðslujöfnuðinn og hvernig varið skyldi því fé, sem gert er ráð fyrir, að kæmi vegna þeirrar aðstoðar, og gert er ráð fyrir að greiða frá þessari stofnun, sem kennd er við Marshall. Niðurstaðan af þessum bollaleggingum var sú, að ríkisstj. leitaði til umboðsmanna bænda í landbn. og hjá Búnaðarfélagi Íslands um það, hvað ætla mætti að þyrfti af þessum tækjum til bænda á næstu 4 árum, og fékk ríkisstj. uppgefnar allt aðrar tölur en þær, sem í þessari þáltill. eru nefndar, því að tala jeppabíla er þar 375 í stað 600, sem nú er lagt til. Nú veit ég ekki einu sinni, hvort hægt verður að framkvæma þessa fjögurra ára áætlun eins og hún hefur verið sett upp. Það hefur frá ýmsum orðið vart við ótta við það, að þessi áætlun væri kannske samin með heldur mikilli bjartsýni og að það mundi valda nokkrum erfiðleikum að framkvæma hana, þó að við hins vegar vonum í lengstu lög, að það verði hægt að framkvæma hana. En ef einstakir liðir hennar, eins og t. d. þessi, eru teknir út úr og næstum því tvöfaldaðir, þá langar mig til að spyrja, — á það að verða á kostnað einhverra hinna liðanna, sem felast í þessari áætlun? Á þetta skilyrðislaust að ganga fyrir öðru, og hvað á þá að taka út úr áætluninni í staðinn? Það er alveg víst, að ef þessi þáltill., eins og hún er nú, verður samþ. og framkvæmd, þá verður það að ganga út yfir einhverja aðra hluti, nema þá að taka t. d. sérstakt lán, og það er hugsanlegt. Mig langar vegna þess til þess að vita, hvort það er meining hv. flm. að taka út einhverja aðra liði þessarar áætlunar og þá hverja, eða hvaða ráðstafanir sé hugsað að gera sérstaklega til þess að fá þennan umframinnflutning, sem hér er um að ræða. En í þessu sambandi vil ég sérstaklega benda á, að það eru engar dollarainneignir, sem ríkissjóður á, því að þær eru fyrir löngu þrotnar.

Ég skal viðurkenna, að það er ákaflega þakklátt verk að taka upp og flytja á Alþ. þáltill. um það að flytja inn svo og svo mikið af einhverjum nauðsynjavörum, sem bændur varðar og hafa mikinn áhuga fyrir að eignast, en það verður þá að hafa það hugfast um leið, að ekki sé verið með því að setja fótinn fyrir annan innflutning, sem kannske getur verið enn þá nauðsynlegri. Til þess eru áætlanir settar upp, að farið sé eftir þeim eins og mögulegt er. Ef svo ætti að halda áfram á þessari braut og t. d. flytja inn vörubíla og fjölda marga aðra hluti nauðsynlega fram yfir það, sem gert er ráð fyrir, þá gæti það orðið skrýtin summa, sem kæmi út úr þeim þáltill. öllum.

Ég er alls ekki með þessu að reyna að setja fótinn fyrir það, að greitt verði fyrir innflutningi á þessum tækjum eins og frekast er unnt og dollaragjaldeyririnn leyfir, en ég vildi mega óska þess, að bæði við athugun og afgreiðslu þessarar till. og annarra þáltill., sem kunna að koma fram, þá verði fullt tillit tekið til annarra vara, sem flytja þarf inn í landið. Ég vil, að till. fái athugun í n., svo að það verði hægt að bera hana saman við þá möguleika, sem fyrir hendi eru til innflutnings, og leggja fram rök fyrir því, hvers vegna þessi tala, 600, hefur verið valin, en ekki látið sitja við þá tölu, sem sett er upp í 4 ára áætluninni, 375. Ég vil láta þetta koma fram, af því að mér er kannske ljósara en mörgum öðrum, hversu geysilegur er dollaraskorturinn, og hve tæpt hefur staðið með að fá allra brýnustu nauðsynjar til landsins. Það er ekki af því, að við vildum ekki ýta undir þennan innflutning, heldur vegna þess, að möguleikar voru ekki fyrir hendi.

Í sambandi við þá sölusamninga, sem átt hafa sér stað á hraðfrystum fiski fyrir dollara, hefur verið athugað, hvað mikil dollaraleyfi væru úti ógreidd. Það mun nálgast, að þetta sé nokkurn veginn jafnmikið, leyfin og þessi upphæð, svo að það verði jafndollaralaust, þegar þessir peningar koma inn og leyfin hafa verið innleyst, eins og áður var.