01.11.1948
Sameinað þing: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (4297)

21. mál, jeppabifreiðar

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þær umr., sem fallið hafa, síðan ég talaði í þessu máli fyrir nokkrum dögum. — Ég vil leyfa mér að segja fyrst örfá orð út af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði síðast. Ég skil aðstöðu hans vel. Mér þykir ekki undarlegt, þó að hæstv. ráðh. sjái, að það er að sumu leyti ekki heppilegt að koma svona með einangraðar till. um innflutning, fyrst verið er að gera heildaráætlanir á því sviði. Hæstv. ráðh. sagði í sambandi við það, að Búnaðarfélag Íslands hefði í áætlun sinni gert ráð fyrir 1.500 jeppa innflutningi, en verkfæranefnd nokkru meira. Hins vegar lögðum við áherzlu á að fá meira en fjórða hlutann á fyrsta ári, þannig að ég álít, að það þurfi ekki að koma í bága við heildarinnflutninginn fyrsta árið, þó að þá sé flutt inn meira af þessum tækjum, því að það lögðum við sérstaka áherzlu á, þegar rætt var um búvélainnflutning, að viss innflutningur kæmi fyrr en annar. Við nefndum sérstaklega tæki varðandi ræktunarsamböndin. Var lögð aðaláherzla á, að þau yrðu að koma fyrst, af því að við vissum, að vissir landshlutar standa þar með tvær hendur tómar.

Þá vil ég minna á, að ég veit ekki betur en að farið sé að framleiða jeppa í Bretlandi, svipaða amerísku jeppunum. Við höfum stutt að því, að Búnaðarfélagið fengi leyfi fyrir 3–4 slíkum jeppum til að athuga, hvort þeir hentuðu okkur ekki eins vel og amerísku jepparnir. Ég vil benda á það í sambandi við orð hæstv. viðskmrh. um dollaraskortinn, að ég álít sjálfsagt að fá úr því skorið, hvort brezku jepparnir séu ekki eins góðir. Verðið virðist nokkuð hátt, en þar sem þeir eru miklu betur yfirbyggðir en þeir amerísku, þá gæti ég hugsað, að þeir væru samkeppnisfærir um verð. Ég vil benda á þetta, og ég álít, að það hefði átt að leyfa þennan lítilfjörlega innflutning til að vita, hvort tækin reyndust ekki vel.

Ég sé, að hæstv. fjmrh. er ekki viðstaddur í d. Mér leiðist að tala um ræðu hans, ef hann er fjarverandi, en verð þó að gera það. Ég sé, að það hefur orðið að góðu gagni, að ég hreyfði þessu máli frá upphafi, því að við höfum fengið ýtarlega skýrslu frá hæstv. fjmrh. um þetta mál. Hæstv. fjmrh. gaf hana sem formaður nýbyggingarráðs, og átti það vel við. Ég vil geta þess út af allsterkum ummælum hv. þm. Barð., þar sem hann ávítaði mig og hæstv. forseta fyrir að hreyfa þessu máli að hæstv. fjmrh. fjarverandi, að mig undrar, að hv. þm. skyldi orða slíka hluti. Hér var ekki verið að ræða um stjórnarathafnir hæstv. fjmrh. á einn eða neinn hátt. Það fer að verða erfitt að lifa og tala hér á þingi, ef aldrei má minnast á neitt mál, sem einhver þm. hefur verið við riðinn, ef hann er ekki viðstaddur. Þetta snerti ekki hæstv. fjmrh. sem slíkan, það snerti hann sem formann nýbyggingarráðs. Það fer að verða erfitt að lifa, ef ekki má nefna neitt að fjarverandi manni, sem að því hefur starfað í opinberri n. fyrir löngu síðan. Ég hefði ekki farið að ræða stjórnarathafnir hæstv. fjmrh., síðan hann tók við ráðherrastörfum, öðruvísi en að honum viðstöddum, enda voru ekki ávítur af minni hálfu í garð hæstv. núverandi fjmrh. Það, sem ég sagði, er það, að þær till., sem hér liggja fyrir og allmargir hv. þm. bera fram, eru ávítur á störf nýbyggingarráðs varðandi úthlutun jeppa, og frá þessu ætla ég ekki að hvika, því að þau tvö meginatriði, sem hv. flm. leggja megináherzlu á, er það, sem nýbyggingarráð hvarf frá, þegar það hætti að láta Búnaðarfélagið hafa úthlutunina á hendi. Og þótt hv. 1. flm., þm. N-Ísf., reyndi af veikum mætti að afsaka það í sinni ræðu og tæki fram, að hann væri alls ekki með neinar ávítur í garð nýbyggingarráðs, þá var þetta svo máttlaust hjá honum, að ásakanirnar lágu í orðum hans, því að hann fann, að hann gat ekki við það losnað, að eins og till. er byggð upp, er þar um að ræða ávítur á það úthlutunarkerfi, sem nýbyggingarráð tók upp, þegar það hætti að láta Búnaðarfélagið hafa afhendinguna á hendi. Ég tala nú ekki um hina lítilfjörlegu tilraun, sem hv. þm. Barð. gerði, því að hún var ekki neitt. En það, sem mér þótti vænt um, var að fá yfirlýsingu hæstv. fjmrh., að nýbyggingarráð hefði úthlutað 166 jeppum til Reykjavíkur og 582 út um land. Þetta er raunar ófullkomin skýrsla, því að eftir er að vita um sundurliðun á þeim bílum, sem fóru út um land, hvað mikið hefur farið í sveitirnar og hvað mikið í kaupstaði og stór kauptún. Um þetta liggur ekkert fyrir enn, en mjög var gott að fá þessu slegið föstu af hæstv. fjmrh., hvernig þetta hefur gengið fyrir sig.

Hæstv. fjmrh. tók fram, að hann teldi, að engar ásakanir hefðu verið á Búnaðarfélag Íslands hvað snertir þess starf. Ég er honum að vísu þakklátur fyrir þá viðurkenningu, enda gat varla um annað verið að ræða, því að það voru aldrei neinar ásakanir á Búnaðarfélag Íslands fyrir úthlutunina af hendi nýbyggingarráðs, og var þess vegna vitanlegt, að hæstv. ráðh. mundi staðfesta það í sinni ræðu. Hins vegar var hv. þm. Barð. að leitast við í sinni ræðu um daginn að sanna, að um misbeitingu hefði verið að ræða í úthlutuninni af hálfu Búnaðarfélags Íslands. En það er þá ekki stjórn Búnaðarfélags Íslands, sem hefur brugðizt sinni skyldu, heldur eru það stjórnir hreppabúnaðarfélaganna, en í þeim eru 7–8 hundruð bændur víðs vegar um land, sennilega heldur betri hlutinn, sem er kosinn í þá stöðu. Það er þessi hópur bænda, sem hv. þm. Barð. ásakar um hlutdrægni og misbeitingu á því valdi, sem þeir hafi fengið um úthlutun bíla. Ég tel þetta ekkert karlmannlegt hjá hv. þm. Ég hefði kunnað því betur, að hann hefði skammað mig og Búnaðarfélag Íslands fyrir frammistöðuna. Það var karlmannlegt að gera það, þó að rökin væru lítil. En að veitast að bændum úti um allar sveitir, sem tóku að sér þetta hlutverk, það þykir mér ekki karlmannlegt, auk þess sem það er ómaklegt að öllu leyti. Að vísu gat hæstv. fjmrh. um það í skýrslu sinni, að það hefðu komið fram miklar umkvartanir frá ýmsum bændum til nýbyggingarráðs, að þeir fengju ekki jeppa. En það er aldrei við öðru að búast en einhverjir verði óánægðir, þegar ekki er hægt að verða við óskum allra. En það ætla ég að segja hæstv. fjmrh., að ég er undrandi, að þeir skyldu ekki beina þessum miklu mótmælum til okkar í Búnaðarfélagi Íslands, en það gerði nýbyggingarráð ekki. Það hefði verið eðlilegt að senda slíkar umkvartanir til okkar, svo að við hefðum fylgzt með því, sem nýbyggingarráði barst í hendur á þennan hátt. Ég hygg því, að hér sé farið eins langt í að finna átyllu til aðfinnslu og mögulegt er. Vitanlega er ómögulegt að úthluta öðruvísi, en að margir verði óánægðir, en ég er viss um, að bændur úti um sveitir hafa farið eins vel með vald sitt og þeir frekast hafa getað, en vitanlega er það alltaf matsatriði, hverjir eigi að fá bílana, þegar ekki er hægt að verða við óskum nærri því allra. Hv. þm. Barð. nefndi í því sambandi, að einn bíll, sem Búnaðarfélag Íslands hefði úthlutað, hefði aldrei farið úr Reykjavík. Þetta getur vel verið satt, og ég held meira að segja, að ég viti, hvað hann á við. Ég held, að hann eigi við það, að bíl var úthlutað í lítið búnaðarfélag í Barðastrandarsýslu, en bíllinn fór aldrei þangað. Og af hverju? Af því að það var ófært á bíl inn í hreppinn. Það má segja, að það hafi verið fljótfærni af okkur í Búnaðarfélaginu að láta bíl í þessa afskekktu sveit. En við hv. þm. Barð. fórum einu sinni mikla ferð um Barðastrandarsýslu. Ég var þar mótkandídat hans 1942. Okkur kom vel saman, þó að við skömmuðumst á fundum. Þá ætlaði hv. þm. að vera búinn að koma vegamálum sýslunnar í það horf eftir tvö ár, að bílfært væri í hvern hrepp. Ég hef það þá mér til afsökunar, að ég var þess fullvíss, að hv. þm. Barð. mundi standa við loforð sitt, svo a. m. k. jeppi kæmist í alla hreppa. Nú kemur í ljós, að þessi jeppi hefur lent í Reykjavík, eftir því sem þessi hv. þm. segir. Það má þá helzt segja, að það beri að ásaka bændurna sjálfa þar heima fyrir, að þeir hafi ekki tekið nógu fast á þessum hlut. Hins vegar er gert allt of mikið úr því, að þeir bílar, sem Búnaðarfélagið úthlutaði, hafi farið úr sveitunum til Reykjavíkur. Það er örlítið brot, sem úr sveitunum hefur farið. Búnaðarfélagið úthlutaði 450 jeppum, og þar af fóru 10 ekki í sveitirnar, en hvað mikið af úthlutun nýbyggingarráðs fór í sveitirnar, er erfitt að vita, en það liggur í hlutarins eðli, að samkvæmt þeim tölum, sem fyrir liggja, þá er meginhlutinn af þeim, sem fóru í sveitirnar á vegum Búnaðarfélagsins, í þeim enn, hitt eru einstök tilfelli. Það er aðeins tilraun til að verja gerðir nýbyggingarráðs, að menn gera svo mikið úr þessu atriði, að réttmætt hafi verið að taka úthlutunina af Búnaðarfélaginu, vegna þess að það hafi sýnt sig, að það hafi ekki getað séð um, að jepparnir héldust í sveitunum. Það sýnir greinilega fyrsta úthlutun Búnaðarfélagsins, sem fór fram 25. febr. 1946. Bílarnir komu í apríl og fóru þá að ganga til eigendanna úti um land. Önnur úthlutun okkar var 23. apríl. Þá erum við búnir að úthluta 170 bílum og það á þeim grundvelli, að við höfðum látið einn bíl í hvert búnaðarfélag. Jafnara var ekki hægt að úthluta, og sú skuldbinding fylgdi þeim, að hreppabúnaðarfélögin ættu að sjá um, að þeir væru ekki fluttir úr sveitunum. En þegar nýbyggingarráð fer að úthluta sínum leyfum í apríl og maí 1946, þá var ekki komið í ljós, hvernig úthlutun hreppabúnaðarfélaganna mundi takast. Það er því mesta blekking, sem hægt er að færa fram í málinu, þegar sagt er, að úthlutunin hafi verið tekin af hreppabúnaðarfélögunum, vegna þess að úthlutun búnaðarfélaganna hafi gefizt illa, því að nýbyggingarráð tók úthlutunina í sínar hendur, þegar fyrstu bílarnir voru að koma til landsins. Það er því sýnt, að Búnaðarfélagið gerði sér far um að skipta eins jafnt og mögulegt var, og það er því algert ranghermi, þegar hv. þm. Barð. er að halda því fram, að vissir landshlutar hafi orðið út undan, því að við skiptum svo ótrúlega jafnt, að það mætti fremur telja okkur það til áfellis, þegar við úthlutuðum jafnvel einum bíl, sem var ekki hægt að koma inn í sveitina fyrir vegaleysi. Ég hygg, að hv. þm. hafi í huga, að Barðastrandarsýsla hafi orðið út undan. Við skrifuðum öllum hreppabúnaðarfélögum síðast í nóv. 1945 og óskuðum eftir umsóknum fyrir janúarmánaðarlok 1946. En þegar við gerðum þetta upp, — listinn er frá 8. jan. 1946, — þá eru það ein þrjú búnaðarfélög í Barðastrandarsýslu, sem óska eftir jeppum, tvö þeirra eftir sínum jeppanum hvort og eitt eftir tveimur. Þrátt fyrir það létum við tvö af þessum félögum fá jeppa við fyrstu úthlutun, af því að við vildum skipta svo jafnt sem mögulegt var, en þó að ýmsir aðrir sæktu um 20 jeppa, fengu þeir ekki nema einn. Hitt er rétt, að Barðstrendingar vöknuðu síðar og báðu um marga jeppa, og var reynt að koma til móts við óskir þeirra eins og unnt var, eins og allra annarra í strjálbýlinu. Þetta vil ég taka fram út af hinu mikla skrafi hv. þm. Barð., að við höfum misbeitt valdi okkar á þennan hátt og látið afskekkta landshluta verða út undan. Fyrir það held ég, að sízt af öllu sé hægt að ámæla Búnaðarfélagi Íslands.

Ég skal ekki lengja þessar umr. miklu meir. Þær hafa sannað það, sem ég hélt fram í fyrri ræðu minni, að þessi till., eins og hún liggur fyrir, er ádeila á úthlutunarfyrirkomulag, sem ríkti hjá nýbyggingarráði. Sú ádeila er áreiðanlega réttmæt, enda mundi hún ekki koma frá þeim aðila, ef svo væri ekki. Það kom glöggt í ljós hjá hv. 1. flm. Hæstv. fjmrh. benti á það í sinni skýrslu, að nýbyggingarráð hefði komizt að þeirri niðurstöðu við framkvæmd þessa máls, að rétt væri að veita fleiri, en bændum, eitthvað af jeppum. Það getur út af fyrir sig verið rétt, en það á þá ekki að skrifast á reikning landbúnaðarins, sem úthlutað er til annarra. Nýbyggingarráð gat vel tekið þessa afstöðu til málsins, og hæstv. ráðh. kannast drengilega við, að nýbyggingarráð hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki væri fært að neita iðnaðarmönnum eða starfsmönnum ríkisstofnana um jeppa og þeir hafi þess vegna orðið að grípa inn í. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig. Hv. 1. flm. segist taka undir það með hæstv. ráðh., að nauðsynlegt sé, að fleiri en bændur fái jeppa, en þó einskorðar hann till. sína við sveitirnar, og strangar reglur eru settar um, að ekki megi flytja jeppana úr sveitunum, og það er ekki aðeins tekið fram í till., heldur áréttað í grg. En það er ekki bæði hægt að halda og sleppa. Annaðhvort verða sveitirnar að fá þessa bíla eða ganga inn á sjónarmið hæstv. ráðh., að rétt sé að gefa fleiri kost á þeim.

Ég skal svo láta þessu máli mínu lokið. Ég tók fram um daginn, að það þyrfti að breyta þessari till., svo að hún væri boðleg til afgreiðslu. Það þyrfti að taka fram um varahluti. Er ég þar samþ. hæstv. fjmrh., að varahlutaspursmálið er eins stórt og innflutningsspursmálið. Og þá er það talan á þessum bílum, hve mikils á að krefjast. Ég álít, að það væri sterkara, að till. væri sett í það horf, að hún væri stuðningur við þá áætlun, sem gerð hefur verið um heildarþörf landbúnaðarins fyrir vélar á næstu fjórum árum. En þetta kemur til athugunar í n., sem fær þessa till. til meðferðar.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég hef ástæðu til að taka fram, og skal láta máli mínu lokið.