01.11.1948
Sameinað þing: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (4298)

21. mál, jeppabifreiðar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Á síðasta fundi hér í Sþ. bar hæstv. menntmrh. á mig svo þungar sakir, að ég er til neyddur að svara þeim hér, áður en umr. um þetta mál lýkur. Vil ég biðja hæstv. forseta að koma boðum til hæstv. menntmrh., ef hann mætti heyra mál mitt. (Forseti: Ég vil upplýsa hv. þm. Barð. um það, að allir hæstv. ráðh. eru nú á fundi og geta því ekki verið á þingfundi hér nú. En umr. um þetta mál munu verða síðar hér í þinginu, þó að þessum fundi ljúki.) Þá vil ég geyma að svara hæstv. menntmrh., þar til umr. halda áfram síðar um málið. — Sný ég mér þá að hv. 1. þm. Skagf. Þegar hann byrjaði ræðu sína hér á síðasta fundi, er þetta mál var til umr., þá lýsti hann yfir mjög drengilega, að hann væri að flytja hér þunga ásökun á fyrrv. form. nýbyggingarráðs. Það út af fyrir sig gaf hæstv. forseta Sþ. tilefni til að láta fyrrv. form. þess ráðs, hæstv. fjmrh., vita um þá ásökun. Og þess vegna féllu mín orð þannig, að hann hefði brugðizt sinni forsetaskyldu. — En hv. 1. þm. Skagf. hefur borið þá ásökun á mig, að ég hafi með minni ræðu verið með persónulegar ásakanir á 800 bændur í landinu. Nú vil ég biðja hv. 1. þm. Skagf. í ró og næði að athuga, hvaða ummæli ég hafði um það mál hér á síðasta fundi í Sþ. Ég hélt því m. a. þá fram, að úthlutunarvaldið yfir jeppabifreiðunum hafi verið veitt af nýbyggingarráði. Og það er viðurkennt, að það hafi haft heimild til að veita það vald. En þá hafði ráðið einnig sama vald til þess að taka úthlutunarvaldið aftur af sama aðila, sem það hafði veitt valdið til. — Ég hélt því líka fram, að nýbyggingarráð hefði ekki gert þetta, að taka aftur þetta vald eða umboð, nema vegna þess, að tilefni hefði verið til þess. Og nú hefur af hæstv. ráðh. það verið upplýst, að fullkomin ástæða var til þess að taka þetta úthlutunarvald yfir jeppabifreiðum af Búnaðarfélagi Íslands og hv. 1. þm. Skagf., því að hæstv. ráðh. hélt því fram hér, að það hefði ekki verið gert, fyrr en komnar hefðu verið fjölmargar kærur frá sveitabændum út af því, að ranglæti í þessari úthlutun hefði átt sér stað. (StgrSt: Ætli hreppabúnaðarfélögin hafi kært sjálf sig?) Þannig er það að segja, að ég hafi verið að ásaka einhverja átta hundruð bændur í þessum efnum, ekkert annað en tilraun hv. 1. þm. Skagf. til að hlaupa burt frá kjarna þessa máls og reyna að drepa því á dreif. — Ég minntist á í minni ræðu hér fyrr, — og getur vel verið, að hv. 1. þm. Skagf. telji það ásökun á bændur, — að það hefði ekki verið réttilega úthlutað jeppabifreiðum til héraðanna. En það má segja, að það sé ásökun beint á Búnaðarfélag Íslands eða stjórnendur þar. Og ég held þessu fram enn og að það hefði átt að ráða mestu um úthlutun þessara bifreiða, hver þörf er fyrir þær á hverjum stað. Nú eru það sjálfsagt mismunandi sjónarmið í sambandi við þessa úthlutun, sem ég hef annars vegar og stjórn Búnaðarfél. Ísl. hins vegar. Og hv. 1. þm. Skagf. ætti að þekkja, hvernig Barðastrandarsýsla er, og nauðsynina á að fá jeppabifreiðar þangað — a. m. k. þar til hann með sínu atkv. á Alþ. er búinn að stuðla að því, að veitt verði svo mikið fé til vegagerða þar, að hægt sé að nota þar önnur og þægilegri farartæki. En þrátt fyrir kunnugleika sinn á þessum landshluta, gekk hann á móti hagsmunum þessara manna viðkomandi úthlutun jeppanna. Hann hélt því fram, að það hefði verið einungis í þeim tilfellum, þar sem ekki hefði verið hægt vegna vegaleysis að koma jeppabifreiðum inn í hreppana. En hér er farið rangt með, því að löngu áður en hv. 1. þm. Skagf. fékk vald til að úthluta jeppabifreiðum til bænda, hefur verið farið á jeppa alla leið úr Reykjavík, yfir Geiradalshrepp, vestur alla Austur-Barðastrandarsýslu og vestur alla Vestur-Barðastrandarsýslu og alla leið til Bíldudals, m. ö. o., að farið hefur verið um flesta hreppa beggja Barðastrandarsýslna á slíku farartæki. Það getur því ekki verið af því, að ekki hafi verið hægt að koma jeppabifreiðum inn í hreppana, að jeppum var ekki úthlutað í suma hreppa þar. Það hefði verið hægt að koma þeim einhvern veginn þar inn. Ástæðunnar til þessa hlýtur því að vera að leita í einhverju öðru. Þessi hv. þm. sagði, að ekki hefðu komið umsóknir nema frá þremur hreppabúnaðarfélögum þarna. (StgrSt: Innan fyrsta frestsins.) En hvað komu margar umsóknir frá öðrum aðilum í Barðastrandarsýslu? Ég get lagt fram gögn því til sönnunar, að umsóknir hafa komið um jeppabifreiðar frá öðrum í Barðastrandarsýslu en hreppabúnaðarfélögunum. Og hvernig var farið með þá? Ég vil benda hv. þm. á eitt dæmi um það, hvernig með þessi mál var yfirleitt farið. Vestur í Barðastrandarsýslu er einn hreppur, þar sem hreppabúnaðarfélag er, og eru meðlimir þess aðeins fimm. Þrír þeirra eiga kálgarða, einn þeirra á grasblett kringum húsið sitt, sem getur fóðrað eina eða hálfa aðra kú, og sá fimmti leigir grasblett í öðrum hreppi. Fleiri meðlimir eru ekki til í félaginu. En þetta búnaðarfélag fékk loforð fyrir einum jeppa frá Búnaðarfélagi Ísl. og fékk hann. Og af því að ekki var hægt að skipta þessum jeppa í fimm hluta, þá komu þessir menn, sem eru framsóknarbændur, sér saman um að selja jeppann og skipta andvirði hans í fimm jafna hluta á milli sín. Var svo haldið uppboð á jeppanum. En sá maður í Barðastrandarsýslu, sem öllum öðrum þar fremur þurfti að fá jeppa til þess að nota hann, var héraðslæknirinn. En hann gat ekki fengið jeppa. Á það var ekki litið af Búnaðarfél. Ísl., og heldur ekki búnaðarfélögunum heima fyrir. (StgrSt: En hví ekki að fá hann hjá nýbyggingarráði?) Nýbyggingarráð bjargaði þessu máli síðar. Og það var kannske mikið vegna þess, að kröfur komu frá slíkum aðilum til nýbyggingarráðs, að augu ráðsins opnuðust fyrir því, hver frámunaleg sérhagsmunastefna var ríkjandi hjá stjórn Búnaðarfélags Ísl. um úthlutun jeppabifreiða. Og það var þá, sem form. nýbyggingarráðs tók a. m. k. að einhverju leyti, ef ekki öllu, úthlutunarvaldið yfir jeppabifreiðunum af stjórn Búnaðarfél. Ísl. til þess að miðla réttlátlegar þessum farartækjum og jafna metin vegna þess, hve ranglátlega hafði verið úthlutað þessum farartækjum af hendi Búnaðarfélagsins. (StgrS:: Hvaða róman er þetta?) Fyrir það var þessu máli bjargað, og héraðslæknirinn, sem ég gat um, fékk sinn jeppabíl til þess að geta stundað sitt hérað og bjargað mörgum bændum, sem sjúkir voru í héraðinu. Það er kannske tilviljun í þessu héraði, Barðastrandarsýslum, að hver einasti jeppi, sem þangað var úthlutað af Búnaðarfél. Ísl., fór til framsóknarmanna, og ekki aðeins það, heldur þeirra framsóknarmanna, sem sérstaklega eyddu tíma og fé til þess að agitera í sýslunni fyrir Framsfl. gegn hagsmunum landsins og hagsmunum héraðsins. En ég held, að ef þessi mál væru athuguð, þá mundi slík hlutdrægni í jeppaúthlutuninni koma víðar fram. Og geri ég ráð fyrir, að hv. 1. þm. Skagf. geti ekki breitt yfir það, þótt breiður sé, að úthlutunin á jeppunum frá Búnaðarfélaginu var til smánar. (StgrSt: Hver hefur framið þá smán?) M. a. þeir, sem ráðið hafa mestu í búnaðarfélögunum. Og þar var komið við kaun hæstv. menntmrh., þegar minnzt var á, hvernig þessi mál hafa gengið hjá Búnaðarfél. Ísl., því að hann er ekki vanur að þjóta hér upp og kalla fram í ræður þm. og segja það haugalygi, sem við erum að segja.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða meir við hv. 1. þm. Skagf. um þessi mál. Hann fékk fulla skýrslu hjá hæstv. fjmrh. um þá frámunalegu partísku, sem hefði skeð í þessari úthlutun, meðan hv. 1. þm. Skagf. fór með þessi mál. Og af því, að það lá fyrir, var þessi úthlutun tekin af Búnaðarfél. Ísl. Og sú ræða hefur ekki verið hrakin af hv. 1. þm. Skagf. Og hæstv. fjmrh. lýsti því yfir, að hann ætlaðist til þess, að þau 80 leyfi, sem hafa verið veitt, en eru ónotuð, yrðu látin ganga fyrir, þegar innflutningur yrði veittur til landsins næst á þessum farartækjum. Ég hefði gjarna viljað heyra þá yfirlýsingu frá ríkisstj. almennt, að þessi skilningur hæstv. fjmrh. væri viðurkenndur af allri ríkisstj., og þá m. a. af viðskmrh., því að ef svo væri, að þessi regla væri viðurkennd gagnvart innflutningi og úthlutun jeppa, sem ég hef ekki á móti, þá á sama regla að gilda um önnur innflutningsleyfi, sem menn hafa fengið, en eru ónotuð, ef þær vörur, sem þau eru um, eru fluttar til landsins. Ég vildi gjarna fá að heyra frá hæstv. ríkisstj., hvort hún hugsar sér að láta þessa reglu gilda almennt eða hvort þetta á aðeins að gilda í sambandi við innflutning jeppabifreiða.

Ég vil taka fram út af kröfu hv. 3. landsk. þm., sem hann gerði í sambandi við eignatöku, að orð hans gátu ekki verið byggð á þeim orðum, sem ég sagði í síðustu ræðu minni hér um þetta mál. Mín orð féllu á allt annan veg en hann túlkaði nú. En hann hefur haft þau orð frá einhverjum öðrum en mér.