01.11.1948
Sameinað þing: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (4303)

21. mál, jeppabifreiðar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af ásökunum hv. 1. þm. Skagf. vil ég benda á eftirfarandi: Í fyrsta lagi það, að hann afsakaði úthlutun Búnaðarfél. með því, að það hefði verið á ábyrgð hreppafélaganna að ráðstafa þeirri tölu, sem hvert hreppabúnaðarfélag fékk, en það afsakar ekki þá röngu ákvörðun Búnaðarfél., að úthluta jafnri tölu í hvern hrepp. Síðan upplýsti hann, að eitt búnaðarfélag í Barðastrandarsýslu hafi aðeins úthlutað 3 jeppum, og á eftir heldur hann því fram, að ég svívirði meginhlutann af bændum í Barðastrandarsýslu fyrir úthlutun jeppanna. — Hann þarf ekki að tala um belging, því að sjálfur hopar hann úr hverju vígi og svarar ekki einni einustu ásökun, sem fram kemur á hann og hans störf, en talar um, að ég svívirði bændur í Barðastrandarsýslu. Ég þekki nú vel orð og eiða þeirra framsóknarmanna í minn garð og veit, hvernig blóðið brennur þeim í æðum út af því, að þeir skuli ekki hafa fengið kjósendur mína í Barðastrandarsýslu til þess að trúa svívirðingum um mig. En ég get sagt honum, að þótt þeir færu þangað á öllum þeim jeppum, sem Búnaðarfél. hefur úthlutað, mundi þeim ekki verða trúað. Og ég ber kinnroða fyrir það, að nokkur Barðstrendingur skuli hafa lánað honum atkvæði, þar sem hann sýnir slíka ósvífni sem hann hefur gert hér á Alþ. nú.