25.01.1949
Sameinað þing: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (4316)

21. mál, jeppabifreiðar

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. á þskj. 268, sem hér er nú til umr. Þykir mér því ekki að ófyrirsynju, að ég geri grein fyrir afstöðu minni í allshn. og enn fremur skoðun minni á meðferð málsins hér á Alþingi áður. Það er kunnari staðreynd en frá þurfi að skýra, að landbúnaðurinn hefur í þjóðfélagi okkar þrem mikilsverðum hlutverkum að gegna. Í fyrsta lagi framleiðir hann nota- og neyzluvörur í stórum stíl, neyzluvörur, sem þjóðin getur ekki án verið. Í öðru lagi framleiðir hann vörur til útflutnings og þar með gjaldeyrisöflunar, þó að í smærri stíl sé hin síðustu ár, en æskilegt væri, og í þriðja lagi gegnir hann því hlutverki, sem og aðrir atvinnuvegir, að tryggja þeim, sem við hann vinna, sómasamleg lífskjör. Mér er ljóst, að til þess að hann geti annað þessum hlutverkum, verður hann að taka tæknina í sína þjónustu í enn stærri stíl en orðið er, og ég segi það íslenzkum bændum til hróss, að mér virðist sem þeir skilji þetta og vilji mikið á sig leggja, til að svo megi verða, og þeir hafa þegar lagt mikið á sig til þess að taka tæknina í sína þjónustu, svo að atvinnuvegur þeirra geti gegnt þeim þýðingarmiklu hlutverkum, er ég gat um í upphafi máls míns. Mér er enn fremur ljóst, að þau tæki, sem bændur telja sér bezt henta, eru jeppabifreiðarnar, og þótti mér það einsætt, að rétt væri að stuðla að því, að þeir gætu fengið þessi tæki. Ég viðurkenndi og viðurkenni, að taka verður tillit til gjaldeyrisforðans og annarra innflutningsþarfa, en í allshn. taldi ég ekki þurfa að hafa svo miklar áhyggjur af þeim atriðum, þar sem naut við svo gætinna og þaulreyndra stjórnarstuðningsmanna sem þeirra hv. 1. þm. Árn., hv. 1. þm. Skagf., hv. þm. N-Ísf., hv. 2. þm. Rang. og hv. þm. V-Sk. Ég taldi, að þessir gætnu og reyndu menn myndu ekki fara fram á annað, en væri stefna þeirrar stjórnar, sem þeir styðja allir af miklum áhuga. Og þar sem ég gerði mér ljósa þörfina á jeppabifreiðum, hvað átti ég þá annað að gera en styðja þessa ágætu menn að verki?

Ég hef þá gert grein fyrir afstöðu minni í allshn., en ég get ekki látið hjá líða að rifja nokkuð upp meðferð þessa máls hér á Alþingi, því að mér virðist sem hér hafi verið leikið nokkurs konar sjónarspil eða tafl. Það er upphaf þessa máls, að 8. þm. úr hv. Sjálfstæðisflokki flytja þessa till. inn í þingið. Það var því undirstrikað sem frekast mátti, að hér var um flokksmál að ræða. Því er slegið föstu frammi fyrir alþjóð, að Sjálfstfl. hefði nú tekið forustuna um að útvega bændum jeppa, en í raun og veru fannst mér tilgangurinn aðeins einn, og hann var að segja: Skák, góðir bræður í Framsókn — enda var málið þannig tekið þegar við 1. umr. Hv. framsóknarmenn skildu skákina, en þeir eru taflmenn þó nokkrir, og hófust nú hugleiðingar um það, hvernig skákinni skyldi fram halda, og fóru brátt særingar, brýningar og brigzlyrði milli bræðranna í Sjálfstfl. og Framsókn. Endaði þetta svo með því, að málinu var vísað til allshn. Þar var enn teflt. Það var sannað af Búnaðarfélagi Íslands og framsóknarmönnum, að hér væri allt of lág tala, og hvað var þá annað en segja: Fráskák, góðir bræður í Sjálfstæðisflokknum? Hér eru 750. Enn er einn þáttur í sambandi við meðferð þessa máls, sem ég vildi gera að umtalsefni. Sama daginn og útbýtt var nál. á þskj. 268, þá var verið að afgreiða annað mál, jólagjöfina miklu, sem stjórnarflokkarnir gáfu alþýðunni, lögin um dýrtíðarráðstafanir öðru nafni. Þar ákváðu stjórnarflokkarnir að leggja 25% gjaldeyrisskatt á jeppa, svo að verð þeirra hækkaði um 2.000 krónur. Enn fremur ákváðu þeir að leggja 50% skatt á varahluti í jeppa og 25% skatt á slöngur og hjólbarða í sömu bifreiðar. Þetta þýðir, eins og ég sagði, að hver jeppi hækkar um 2.000 krónur og rekstur þeirra verður verulega dýrari. Nú hefur hv. frsm. allshn. lýst yfir því, að landbúnaðurinn væri atvinnuvegur, sem berðist í bökkum og nálega eina leiðin til sigurs í þeirri baráttu væri að veita landbúnaðinum aukinn aðgang að vélum og þá einna helzt jeppum. Það er dálítið einkennilegt samræmi að hækka þá jeppana í verði. Ef bændur berjast í bökkum, er þá ekki nóg að selja þeim jeppana með gamla verðinu? En þetta er eins og ég hef sagt: Meðferð stjórnarflokkanna á þessu máli er sjónarspil eða tafl. Einber auglýsingastarfsemi. Sjálfstfl. ætlaði að auglýsa, að hann hefði forgöngu um að útvega bændunum jeppa. Framsfl. sagði: Ég get betur — og bætti við 150 jeppum. En báðir eru þeir sammála um að gera þessa vöru dýrari en áður, væntanlega það dýra, að bændur, sem berjast í bökkum, eiga þess ekki mikinn kost að eignast slík tæki. Mér finnst gæta þarna ósamræmis í ræðum og framkomu hv. þm., og ég held, að það sé ekki að ófyrirsynju, þó að einhver hv. þm. hafi sagt, að virðing þingsins væri í veði, virðing Alþ. hefur ekki aukizt mikið við slíkt skáktafl eða sjónarspil tveggja stjórnmálaflokka.

Ég mun svo ekki fjölyrða frekar um þessa hlið málsins, en kem þá að ræðu hæstv. viðskmrh. Ég skil hans sjónarmið vel. Hæstv. ráðh. segir, að verið sé að semja innflutningsáætlun samkvæmt lögunum, fjárhagsráð sé að gera það og auðvitað sé sú innflutningsáætlun miðuð við ýtrustu getu og það sé matsatriði þess ráðs, hvernig vörunum sé skipt. Og hæstv. ráðh. segir svo, alveg réttilega, að það sé varla hægt að gera það tvennt í einu, að fela fjárhagsráði þetta starf og svo komi Alþ. á eftir og samþ. að flytja inn hitt og þetta í margfalt stærri stíl, en áætlunin gerir ráð fyrir. Þetta er allt hárrétt hjá hæstv. viðskmrh. og eins það, að verði gerð samþ. um jeppabifreiðar og landbúnaðarvélar, því þá ekki um byggingarefni á eftir, sem okkur vantar sárlega. Í þessu sambandi vildi ég vekja athygli á einu veigamiklu atriði: Hefur ekki Alþ. látið of mikið af valdi úr hendi sinni, þegar það samþ. l. um fjárhagsráð? Hefur það ekki gefið þeirri stofnun óeðlilega mikil völd? Ég vil þá segja frá því, hvernig mér virðist, að á þessum málum ætti að halda. Mér virðist, að á þeim ætti að halda þannig, að fjárhagsráð eða ríkisstj. semdi innflutningsáætlun, ýtarlega og vel undir búna, og síðan væri hún lögð fyrir Alþ. til meðferðar og afgreiðslu eins og Alþ. vildi hafa hana. Þá er tækifæri til þess að leggja áherzlu á þá vöruflokka, sem þm. telja, að öðrum fremur eigi að koma til greina, og þá er að sjálfsögðu líka tækifæri til að draga úr innflutningi þeirra vöruflokka, sem þeir telja, að síður komi til greina. Ég lít þannig á, að meginverkefni Alþ. hafi ætíð verið og eigi að vera að semja fjárl. En á síðari árum hefur þróunin orðið sú, að þjóðarbúskapurinn er ekki afgreiddur með hinum venjulegu fjárl. fyrst og fremst, heldur enn þá meira með innflutningsáætlunum og fjárfestingarleyfum, sem sé, það er orðið miklu víðtækara það svið, sem afskipti löggjafarinnar nær til, en áður var, og þá skilst mér, að auðsætt sé, að sama hátt ætti að hafa á áætlunum um innflutning og fjárfestingu eins og áætluninni um fjárl., að leggja hvort tveggja fyrir Alþ. — og betur undirbúið en síðasta fjárlfrv. — og Alþ. afgreiði það svo endanlega. Á þann hátt er hægt að spara sér svona leiðinlegt skáktafl og hér hefur verið teflt, a. m. k. í því formi, sem hér hefur verið haft. Ég vil beina þessu til hæstv. viðskmrh., þó að mér sé það alveg ljóst, að samkvæmt l. um fjárhagsráð er það fjárhagsráð sjálft og ríkisstj., sem hefur vald til þess að semja innflutningsáætlanir og áætlanir um fjárfestingarleyfi. Þó að mér sé það ljóst, að Alþ. hefur afsalað sér sínu valdi í þessu efni, vildi ég samt beina því til hans, hvort þetta væri ekki ráð út úr þessum deilum, sem hér hafa átt sér stað milli hinna ábyrgu stjórnarflokka, að leggja innflutningsáætlunina og fjárfestingaráætlunina fyrir Alþ. til endanlegrar afgreiðslu. Ég vildi láta þetta koma fram vegna þess, að fyrst og fremst er það sannfæring mín, að knýjandi nauðsyn sé að stuðla að því, að bændur geti tekið þessi tæki í sína þjónustu, og í öðru lagi vildi ég benda á þetta skáktafl, sem hér hefur að ófyrirsynju verið leikið og stjórnarflokkarnir hefðu átt að láta vera að tefla. Í þriðja lagi vildi ég benda á, hvort ekki væri vegur að nota þann hátt, að leggja innflutnings- og fjárfestingaráætlanir fyrir Alþ. til afgreiðslu, svo að það komi að sínum sjónarmiðum varðandi hvaða vöruflokka það vill leggja mesta áherzlu á, á hverjum tíma.