02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (4320)

21. mál, jeppabifreiðar

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég hafði skrifað hjá mér nokkrar athugasemdir frá fyrri meðferð málsins, en sé nú ekki ástæðu til að fara mikið út í það.

Því hefur mjög verið haldið á lofti í þessum umr., að bændur yrðu að sætta sig við sama hlut og aðrir og að sparnaður yrði að ganga yfir þá sem aðra. Mótmæli ég þessu ekki, en vil, að tillit sé tekið til þess, hvernig ástatt er um atriði, sem miklu skipta fyrir atvinnuvegi landsmanna, og að því lúta till. um innflutning jeppa og landbúnaðarvéla. Meginþorri þeirra bifreiða, sem undanfarin ár hafa verið fluttar til landsins, hefur fallið í skaut öðrum en bændum. Það mun að jafnaði ekki mikið yfir 2 bifreiðar á hrepp í sveitum landsins, og af 1.200 jeppum, sem inn hafa verið fluttir að undanförnu, hafa tæp 500 farið út í sveitirnar og hæpið, að allir þeir jeppar hafi ílenzt þar, en það er ekki sök þeirra, sem úthlutuðu. Hér í Reykjavík eru bifreiðar talsvert á 7. þúsund, og hér er fjöldi jeppa, til lítilla nytsemda fyrir framleiðslu landsmanna flestir hverjir. Að því var vikið — ég hygg það hafi verið hæstv. ráðh., að það væri ekki óeðlilegt í sambandi við þetta mál að líta á það, að landbúnaðurinn léti ekki mikið af mörkum í gjaldeyri, en þyrfti hins vegar vélar og rekstrarvörur, sem kostuðu mikinn gjaldeyri, og er þetta rétt, meðan við erum að breyta um búnaðarhætti og þurfum að afla okkur mikils vélakosts, sem til þess þarf, en það, sem landbúnaðurinn lætur af mörkum borið saman við aðrar atvinnugreinar, er hreint ekki lítilvægt. Árið 1947 var það gjaldeyrisverðmæti, sem kom inn fyrir landbúnaðarafurðir, 26 milljónir króna, og mér er tjáð, að nettógjaldeyristekjur af togurunum hafi sama ár numið 34 milljónum króna, svo að munurinn er ekki ýkja mikill. Ég tek þessi dæmi vegna þess, að mikið orð er á því gert, hvað togaraútgerðin afli mikils gjaldeyris, og það gerir hún vissulega, en nettógjaldeyristekjurnar eru þó minni en manni kann að virðast við fyrstu sýn. Ég ætla, að tölur þær, sem ég nefndi, séu réttar, því að þær hef ég úr upplýsingum frá þeim mönnum, sem sérstaklega eiga að athuga þessi mál. Það hefur verið drepið á að aðrar nauðsynjar yrði að spara, ef innflutningur landbúnaðartækja væri aukinn, og er það að vísu rétt, en þó ég viðurkenni, að t. d. heimilisvélar hafi sína þýðingu og séu gagnlegar, þá vil ég gera mun á þeim og slíku sem því, sem beint lýtur að framleiðslunni, því að það á að ganga fyrir.

Við fyrri meðferð málsins urðu hér nokkrar greinir út af úthlutun jeppanna, og skal ég ekki fara nákvæmlega út í það, en n. fannst sér skylt að afla sér um þetta allra fáanlegra gagna, ef slíkar umr. yrðu aftur, og skrifaði því n. Búnaðarfélagi Íslands og fjárhagsráði, sem hefur gögn nýbyggingarráðs undir höndum, og óskaði eftir skýrslum um úthlutun þessara aðila. Búnaðarfélagið sendi sína skýrslu þegar, en frá fjárhagsráði, sem geymir plögg nýbyggingarráðs, eða frá skrifstofustjóra þess bárust þau svör, að skýrsla þessa efnis væri ekki til og þyrfti að semja hana, en virtist mjög erfitt. Ég margendurtók ósk mína um að fá skýrsluna, og þegar það var þrásinnis sagt, að ekki væri búið að taka hana saman, þá bað ég að láta frumdrögin af hendi við n. Dugði þá ekki gamla viðbáran, að ekki væri búið að semja skýrsluna, og var nú sagt, að bera þyrfti málið undir fjárhagsráð. Þetta er alveg fáheyrt, og er rétt, að þetta komi fram. Síðan hef ég ekki haft hirðu á að ganga enn frekar eftir skýrslunni, svo að ég get ekki nú sagt neitt frekar um úthlutunina. En ef hér á að fara að taka upp þann nýja sið, að opinberar stofnanir neiti Alþ. um plögg sín, þá mun ég lýsa eftir þessum plöggum á öðrum vettvangi og láta reyna á, hvort menn fái að skyggnast inn í helgidóminn. Hv. frsm. hefur gefið skýrslu n. um viðræður n. við hæstv. viðskmrh. Það er vitanlega ekki hægt að ganga lengra en gjaldeyrisgetan leyfir, en ég vænti þess, að stjórnarvöldin, er um þetta ráða, sjái svo um, að hið gagnlegasta verði látið sitja fyrir innflutningi og þá sérstaklega það, sem getur aukið öflun verðmæta í starfi þjóðarinnar.