02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (4324)

21. mál, jeppabifreiðar

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Mér datt það ekki í hug, þegar ég drap á nokkur atriði varðandi útflutningsframleiðslu togaranna og landbúnaðarins, að gera það í því skyni, að það ætti að skiljast sem metingur um þessar atvinnugreinar eða þaðan af verra. Það hefur verið talið, að togararnir legðu mjög mikið af mörkum í þjóðarbúið. Eins og ég sagði, þá hef ég ekki rannsakað þetta sérstaklega, heldur fengið það meira af skotspónum. Ég þori þess vegna ekki að ábyrgjast þessar tölur né heldur, hve vítt þær taka til framleiðslunnar, eins og t. d. togaranna. Ég vil ekki, að hv. þm. Barð. temji sér þann sið að vera með getsakir um það, að menn kunni að meina allt annað, en þeir segja. Það er vafalaust á fárra færi að rannsaka hjörtun og nýrun eða annað en það, sem kemur fram, og er þá engan veginn rétt að vera með slíka sleggjudóma. Að hatur eða öfund til sjávarútvegsins hafi sýnt sig í því, sem ég talaði um þetta mál, er mjög fjarri sanni. Hann getur ekki skírskotað til einnar einustu umr. á Alþ., þar sem ég hafi talað öfundaryrði til sjávarútvegsins. Ég skora á hv. þm. að leita að slíkum ummælum í minni þingsögu. Ég hef að vísu, eins og fleiri hv. þm., verið svo óvarkár, að ég hef ekki litið á allar mínar ræður, en finnist nokkurt orð í þá átt í mínum ræðum á því tímabili, er það ekki rétt hermt eftir mér. Ég vona, að ritararnir séu það nákvæmir, að þeir snúi ekki hlutunum þannig við. Þó minnist ég þess, þegar ég leiðrétti ræðu, að þingskrifarinn lét mig halda því fram, sem ég var í algerri andstöðu við. Ég slæ þennan varnagla, en annars vil ég vona, að hv. þm. Barð. hafi misskilið það, sem ég sagði í minni ræðu og gaf honum tilefni til sinna ummæla.

Út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði, þá hygg ég, að álit okkar fari mjög saman í þessu efni. Þó að ég dræpi á þessar tölur, þá var það aðeins til að sýna, hvernig þetta hefði staðið. En viðvíkjandi gjaldeyrisöflun þessara atvinnuvega vil ég taka það fram, sem mér láðist áðan, að þýðing landbúnaðarins er að mínu áliti ekki minni fyrir þjóðarheildina, þó að hann flytji ekki svo sérlega mikið út af sinni vöru. Hann brauðfæðir þjóðina að langmestu leyti. Það munar að vísu nokkuð á framleiðslunni hvað krónuupphæð snertir, en ekki ýkjamiklu, þegar allt er fært til reiknings. Ef flutt væri út allt það, sem framleitt er af landbúnaðarafurðum: mjólk, kjöt, ull o. fl., o. fl., þá mundi það ekki gera litla upphæð. Þess þarf þjóðin og með. Þá má og líka taka það með í reikninginn, hve fólkinu hefur fækkað í sveitum landsins á síðustu tímum. Því má heldur ekki gleyma, að yfir landbúnaðinn hafa gengið fádæma plágur, þar sem eru sauðfjárpestirnar, sem skert hafa bústofn bænda stórkostlega, bæði hvað snertir til að framleiða vörur fyrir þjóðina sjálfa og til útflutnings, móts við það, ef allt hefði verið með felldu um hag bænda. Ég skal svo ekki ofbjóða þolinmæði hæstv. forseta. Ég vona, að hv. þm. Barð. taki þetta til athugunar, að hann hefur hrapallega misskilið mig út af því, sem ég drap á áðan í sambandi við þetta mál.