02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (4330)

21. mál, jeppabifreiðar

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það má nú segja sem mælt er: Fár bregður hinu betra, ef hann veit hið verra. Hv. þm. finnur enga aðra skýringu á málinu en þá, að menn vilji skjóta undan ólöglegum gjaldeyri og kaupa fyrir hann bifreiðar. En peninga geta menn aflað sér á eðlilegan hátt, t. d. þegar menn, sem búsettir hafa verið erlendis, flytjast heim til Íslands, eða á annan veg. Ég man t. d. eftir kennara, er fluttist heim frá Ameríku. Mátti hann flytja allt með sér nema bílinn? Ég hygg þó, að fáar vörur hafi verið hægt að kaupa fyrir andvirði bílsins, þótt manninum hefði verið neitað um að fá hann fluttan inn. Þá fá sjómenn í siglingum frjálsan erlendan gjaldeyri handa milli. Sumir kaupa bíla. Má þá veita þeim mönnum innflutningsleyfi fyrir þeim? Ef ekki, væri vita tilgangslaust að láta þá yfirleitt fá erlendan gjaldeyri. Ýmsar fleiri ástæður geta legið til þess, að sumir fara fram á leyfi til þessara hluta, án þess að um neinn feluleik sé að ræða með erlendan gjaldeyri.