03.11.1948
Sameinað þing: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (4342)

22. mál, landbúnaðarvélar

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki miklu að bæta við það, sem ég hef áður sagt. Það, sem hæstv. ráðh. sagði um till. mína, var að mestu leyti vinsamlegt, enda var ekki við öðru að búast.

En það er byggt á misskilningi hjá hæstv. ráðh., þegar hann segir, að tiltölulega lítið beri á milli hjá verkfæran. og Búnaðarfélagi Íslands varðandi stórvirku vélarnar, vegna þess að verkfæran. gerir ráð fyrir 94 vélum, en Búnaðarfélagið aðeins 40. Það má vera, að það þurfi ekki nema 40 vélar til ræktunarsambandanna, en við skulum hugsa okkur, að það sé rétt, að það þurfi 94 vélar til að fullnægja ræktunarsamböndunum og búnaðarfélögunum, og ég geri ráð fyrir, að það sé meiningin, og mér hefur heyrzt á hæstv. ráðh., að keppt sé að því, að á næstu árum verði fullnægt þörfinni fyrir stórvirkar vélar hjá búnaðarsamböndum og samtökum, sem hafa á stefnuskrá sinni að auka ræktun í landinu. Það er það, sem þessi till. ætlast til. Nú vitum við ekki, hvort er rétt. Við vitum ekki, hvort er nauðsynlegt að fá 94 stórvirkar vélar til að fullnægja þörfinni. Þess vegna er það, sem ég tel nauðsynlegt, að leitað sé glöggra upplýsinga um það atriði með því að hafa samband við formenn búnaðarfélaganna í landinu, því að þeir hljóta að geta svarað fljótt, hve margar af þessum vélum er þörf á að fá í þeirra búnaðarfélagi. Hæstv. ráðh. segir, að þetta komi í ljós smátt og smátt, og því getum við sætt okkur við þær till., sem liggja fyrir. En við getum ekki látið okkur nægja að sjá það smátt og smátt, ef við ætlum okkur að fullnægja eftirspurninni á næstu árum.

Hann minntist á, að viðskiptan. reiknaði með útsöluverði, en Búnaðarfélagið með gjaldeyrisþörfinni og í því lægi munurinn. Hann mun liggja að nokkru leyti í því, en þó aðallega í hinu, að verkfæran. gerir ráð fyrir fleiri vélum, og þess vegna munar svo miklu á heildartölunni, 3 millj. og 8 millj. kr. Hér er því ekki smávægilegur munur. Hér er svo mikill munur, að fjárhagsráð og ríkisstj. verða að fá nánari upplýsingar, áður en ákvarðanir eru teknar.

Ég get verið að nokkru leyti sammála hæstv. ráðh. um það, að bændur ættu að slá sér saman um stærri tæki, eins og þeir hefðu gert um stærri ræktunarvélar. En það verður þó að benda á, að það er afar erfitt að koma við sameign og sameiginlegri notkun á ýmsum heimilistækjum. Það getur komið sér afar illa, að menn eigi og noti í sameiningu t. d. sömu dráttarvél, því að oft þurfa menn að nota hana á sama tíma, og það er nú einu sinni svo, að menn vilja, ef þess er kostur, helzt eiga einir sér sínar vélar og sín tæki, nema þessar stóru vélar, sem búnaðarfélögin og ræktunarsamböndin eiga.

Að öðru leyti tel ég ekki þörf á að bæta fleiru við það, sem ég hef sagt, nema ég tel, að það verði varla hjá því komizt fyrir hæstv. ríkisstj. og fjárhagsráð að afla betri upplýsinga hjá formönnum búnaðarfélaganna, hvað mikið þurfi af hverri tegund landbúnaðarvéla.