03.11.1948
Sameinað þing: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (4345)

22. mál, landbúnaðarvélar

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Í sambandi við það, sem hv. 1. þm. N-M. sagði hér um varahlutina, þá er ég honum sammála um það, að nauðsynlegt er að sjá svo um, að varahlutir séu til. En ég held, að það hafi nú ekki undanfarið staðið á umboðsmönnunum að hafa þá til, heldur hafi staðið á því, að þeir fengju innflutningsleyfi. Það er ekki rétt, að þeir, sem verzla með vélar, hagnist mest á því að flytja vélarnar sjálfar inn, heldur hagnast þeir mest á því að selja varahlutina, þar sem þeir mega leggja á þá 30%, en ekki nema 5% á vélarnar. Það gagnar ekki, þó við segjum: Þú, góði maður, ert skyldugur að hafa varahluti. — Við verðum líka að fara til þess mikla ráðs, sem sagt er, að ráði yfir okkar sölu, og segja: Þú ert skyldugur að veita innflutningsleyfi fyrir varahlutum, svo að vélarnar geti fengizt. — Að sjálfsögðu verður þetta áfram eins og verið hefur, en það verður aldrei of mikið gert úr nauðsyn þess, að varahlutir séu fyrir hendi. Það má vera, að hv. þm., sem talaði hér áðan, þekki einhverja slóða, sem hafa innflutningsleyfi fyrir varahlutum og nota þau ekki. En það eru þá einstakir slóðar, sem nota ekki innflutningsleyfi, sem þeir hafa í höndum fyrir varahlutum, sem þeir geta selt með 30% álagningu, en leggja kapp á að flytja inn vélar, sem þeir geta ekki selt nema með 5% álagningu. Ég þekki ekki svona slóða, sem fást við verzlun. En við skulum ekki gleyma því, hve nauðsynlegt það er að hafa á hverjum tíma varahluti, og skil, að það sé nauðsynlegt að brýna þetta fyrir þeim, sem veita leyfin, engu síður en fyrir þeim, sem flytja þá inn.

Í sambandi við það, sem hv. þm. V-Húnv. sagði hér áðan, vil ég taka fram, að þegar hann talar um að breyta till., til þess að hún verki sem örvun á innflutning landbúnaðarvéla, þar sem hún nú aftur á móti verki sem hemill, ef hún verði samþ. óbreytt, þá er þetta, að ég hygg, byggt á miklum misskilningi hjá hv. þm. Ef hann hefur lesið till., ætti hann að minnsta kosti að sjá, að eins og hún er nú, fer hún fram á gríðarmikinn innflutning alls konar landbúnaðarvéla, þar á meðal 500 minni dráttarvélar. Flm. yrðu því fegnastir, ef þessar vélar gætu orðið fleiri. En ef farið væri eftir till. að öðru leyti, held ég, að það þætti nóg að flytja inn 500 dráttarvélar á næsta ári, því að eins og till. er nú, fer hún fram á tugi milljóna í öðrum vélum, sem við flm. teljum nauðsynlegt að leggja kapp á að fá á næsta ári, og þá aðallega hinar stórvirku ræktunarvélar, en að því loknu má vissulega koma með hinar minni dráttarvélar, sem eru ódýrari og eiga að koma á eftir ræktuninni. Og ef þessi till. verður samþ. óbreytt, skilst mér, að hún fari fram á 20 millj. kr. innflutning landbúnaðarvéla í erlendum gjaldeyri, og það er þess vegna reginmisskilningur hjá hv. þm. V-Húnv., ef hann telur, að slík till. verki sem hemill á innflutning landbúnaðartækja á næstu árum.

Ég tel óþarft að fjölyrða meira um þetta að svo stöddu. Ég þakka fyrir góðar undirtektir um till. og vona, að hún verði samþ. annaðhvort óbreytt eða með einhverjum þeim breyt., sem samkomulag verður um.