26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (4357)

22. mál, landbúnaðarvélar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér kom dálítið á óvart, hvernig hv. 2. þm. Rang. tók minni ræðu. Hann virtist vera að reyna að leggja mikið upp úr því, að það væri að mínu áliti þýðingarlítið að samþykkja þáltill. í sameinuðu þingi. Það, sem ég var að tala um, var það, að það væri betra, að Alþ. tæki sjálft ákvarðanir og hefði vald til að ráða yfir hlutunum, heldur en að samþykkja till. um að óska eftir, að þetta og þetta yrði gert. Ég veit ekki, hvort hv. 2. þm. Rang. kallaði það góða afgreiðslu á vegamálum Rangárvallasýslu að samþykkja ályktun um það, að það ætti að gera vegi í Rangárvallasýslu eftir því, sem þörf krefði, og síðan ætti að treysta ríkisstj. og vegamálastjórninni til að sjá um, að það yrði gert. Ég býst við, að hv. 2. þm. Rang. þætti betra að hafa í fjárl. ákveðinn póst um þennan veg og ákveðinn póst um hinn veginn. Það var þetta, sem ég var að bera saman, og mér finnst það undarlegur hlutur hjá hv. þm., að geta ekki fallizt á, að það væri heppilegra; að Alþ. sjálft tæki ákvörðun um þessa hluti og hefði vald til þess, heldur en að samþ. þessa þáltill. Hv. 8. þm. Rang. komst svo að orði, að þegar væri verið að tala um ýmsa liði innflutningsáætlunarinnar, þá yrði að meta, hvað nauðsynlegt væri. Hvernig vill hann láta meta þetta? Vill hann láta Alþ. meta það, eins og það gerir t. d. viðvíkjandi vegaframkvæmdum, eða vill hann láta fjárhagsráð og ríkisstj. meta það? Ég skil það svo, að hv. 2. þm. Rang. vilji láta sér nægja þessa samþykkt, sem hér er til umr., og dreg ég ekki úr gildi hennar almennt, en hitt er annað mál, að lagaákvörðun frá Alþ. hefur meira gildi. Ef hann vill láta sér nægja að gera svona ályktun, þá þýðir það þar með, að hann vill fela ríkisstj. og fjárhagsráði allan veg og vanda og lætur allt sitt traust til þeirra í þessum efnum, og þá er það hann, sem frammi fyrir sínum kjósendum ber ábyrgð á því, að þetta er afgreitt svona og hvernig ríkisstj. afgreiðir þetta, því að honum stendur til boða, að Alþ. sjálft ákveði, hvað mikið verður flutt inn af landbúnaðarvélum. Hv. þm. verður að velja á milli þess að ákveða, hvað þetta á að vera mikið á ári, og hins, að óska eftir með þál., að ríkisstj. geri það, sem þörf krefur. Við skulum taka dæmi. Það er nú upplýst af hæstv. atvmrh., að í fjárhagsráði sé ekki einu sinni samkomulag um afgreiðslu á þessum lið, þ. e. a. s. um landbúnaðarvélar. Fjárhagsráð er klofið. Meiri hlutinn vill hafa þetta 10 millj., en minni hlutinn að líkindum eitthvað meira. Lýsir þá hv. 2. þm. Rang. því hér með yfir, að hann felli sig við það, sem meiri hl. fjárhagsráðs ákveður í þessu máli, og sé ánægður með það? Það virðist mér hann gera, þegar hann álítur nóg að samþ. þessa þáltill. og leggur þar með allt sitt traust á ríkisstj. og fjárhagsráð. Ég álít þess vegna, að því fari fjarri, að það sé rétt af hv. 2. þm. Rang. að vera að tala á móti því, sem ég minntist á, ég held þvert á móti, að hann ætti að taka undir það. Ég vil í því sambandi benda honum á raunhæft atriði, sem þarna liggur fyrir. Við skulum segja, að það séu till. frá meiri hl. fjárhagsráðs um að flytja inn landbúnaðarvélar fyrir 10 millj. kr. á þessu ári, enn fremur að það sé till. frá fjárhagsráði um að flytja inn bíla fyrir 8 millj. kr., og nú skulum við segja, að það væri sagt við hv. 2. þm. Rang. sem þm., sem hefði vald í þessu máli: Ef þú vilt fá meira af landbúnaðarvélum en fyrir 10 millj., þá verður þú að ganga inn á að skera niður eitthvað af bílainnflutningnum. Ég gæti þá hugsað mér, að hv. 2. þm. Rang., sem ber alveg sérstaklega hag landbúnaðarins fyrir brjósti, hvað stórar landbúnaðarvélar snertir, mundi segja, að ef búnaðarfélögin hefðu þörf fyrir vélar fyrir 16 millj., þá vildi hann heldur, að bílarnir yrðu skornir niður sem því svarar. En þetta gæti hann, sem og aðrir þm., tekið ákvörðun um, ef innflutningsáætlunin væri lögð fyrir Alþ., og það er sannarlega þýðingarmeira fyrir okkur að greiða atkv. um það, hvort eigi að flytja inn landbúnaðarvélar fyrir 10–15 millj., heldur en að við greiðum atkv. um veg fyrir 15–20 þús. kr. á þessu ári. Ég held þess vegna, að það fari fjarri því, að það sé rétt af hv. 2. þm. Rang. að vera að fjandskapast út af því, sem ég sagði, — ég held þvert á móti, að hann ætti að endurskoða afstöðu sína og taka afstöðu með því, sem ég sagði um þetta. Við 2. umr. fjárl. í fyrra benti ég á það, og undirstrikaði það, að ég áliti alveg óhjákvæmilegt, að innflutningsáætlunin lægi fyrir um leið og fjárl. og þingið tæki ákvörðun um hana um leið og fjárl. Ég hef aldrei sagt, að það væru engin vinnubrögð að samþ. þáltill., en ég hef sagt, að Alþ. ætti að hafa vald til þess að ákveða innflutningsáætlunina sjálft. Viljayfirlýsing frá Alþ. er ágæt, en l., sem ákveða valdið, eru betri.

Hv. þm. Ísaf. minntist á það í sinni ræðu, að það mundu vera vissir erfiðleikar í sambandi við afgreiðslu innflutnings- og útflutningsáætlunar eða þjóðarbúskaparáætlunar. Ég efast um, að það mundu vera svo miklir erfiðleikar á slíkri afgreiðslu. Ég held, að okkar vinnutíma hér á Alþ. væri ekki illa varið, þó að við ynnum að því að ganga frá slíkri áætlun eins og fjárl. Ég veit ekki betur en að í norska Stórþinginu sé afgreidd slík þjóðarbúskaparáætlun samtímis fjárl., fjmrh. leggur þjóðarbúskaparáætlunina fyrir þingið um leið og ríkisfjárl., og þingið getur gert sínar brtt., enda er komið svo hjá flestum þjóðum, að þessar ákvarðanir, um innflutning og útflutning, eru eins þýðingarmiklar eða þýðingarmeiri en fjárl., og það fer svo saman, að ógerlegt er að afgreiða þetta hvort út af fyrir sig, það mundu ella verða svo margir árekstrar þarna á milli.

Ég sé ekki annað, en að með þeim tekjuöflunum, sem ríkisstj. fór inn á á síðasta ári, sé óbeint ýtt undir að flytja inn ýmsa hluti til landsins vegna þess, að það gefur hátt gjald í ríkissjóð, þó að þeir kosti mikinn gjaldeyri og séu ekki í samræmi við aðra hagsmuni ríkissjóðs. Þar rekast á hagsmunir þjóðarbúskaparins og hagsmunir ríkissjóðs. Þegar gera á upp, hvernig gjaldeyrinum skuli varið, þá er eðlilegt, að Alþ. taki endanlega ákvörðun um þetta sem heild, en ekki aðeins tekjuöflunarl. og fjárl. Þess vegna álít ég, að vinnubrögðin væru bezt með því, að þetta sé sameiginlega afgreitt. Hins vegar benti hv. þm. Ísaf. á, að það væru þeir erfiðleikar, að innflutningsáætlunin þyrfti að vera teygjanleg, og það er rétt. Nú vitum við, að fjárl. undanfarin ár hafa þótt furðanlega teygjanleg. Ég man ekki betur, en að meiri hl. Alþ. hafi gert þá samþykkt í sambandi við fjárlög á síðustu árum, að heimila fjmrh. að skera niður allt að 35% vissa liði, ef sérstaklega stæði á, og það er litlum efa bundið, að Alþ. mundi í sambandi við slíkar innflutnings- og útflutningsáætlanir geta gert sínar áætlanir, og í erfiðum árum mætti skera niður einhverja ákveðna liði, þannig að Alþ. flokki þetta í sundur, eins og gert er á fjárl., og væri þá hægt að spara hluti, sem Alþ. legði minna upp úr. Það eru því engir erfiðleikar á slíkri afgreiðslu, og það væri áreiðanlega hægt að skapa teygjanleik í sambandi við slíka afgreiðslu hér á Alþ. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Ísaf. sagði um útflutninginn, þá er það engum efa bundið, að það er hægt að auka útflutninginn, og ég tek undir það með Morgunblaðinu, að fiskútflutningurinn gæti verið meiri, ef af hálfu yfirvaldanna hefðu ekki verið gerðar róttækar ráðstafanir til að hindra það.

Ég stóð upp aðeins til að minnast á þetta, að ég álít, að Alþ. eigi að taka innflutningsáætlunina fyrir í sambandi við fjárl. og afgreiða hana eins og l. Ég álít, að það sé rétt, að það þurfi að gera breyt. á fjárhagsráðsl. En þetta eru þau einu vinnubrögð, sem ég álít, að sé viðunandi fyrir Alþ., og fyrir þá, sem bera fram þessa þál., þá álít ég að þetta sé eina lausnin, sem sé trygging fyrir því, að það, sem þeir vilja gera, verði framkvæmt, þannig að þeir beri þá ábyrgð á því, hvað er skorið niður af öðrum liðum til að tryggja innflutning á landbúnaðarvélum, eins og hér er gert ráð fyrir.