02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (4364)

22. mál, landbúnaðarvélar

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Þetta verða aðeins örfá orð. Ég tel till. ekki í verra formi frá n. komna, en í upphafi. Og á ég við það, að í till. er lögð áherzla á innflutning ræktunarvéla, skurðgrafna o. fl. Sannleikurinn er sá, að full nauðsyn er á ákveðinni tölu af vélum. Munu jarðræktarframkvæmdir í landinu stöðvast, nema þær fáist. Svo mikill óréttur er gerður héruðunum, að sum hafa fengið tæki og önnur ekki, orðið út undan. Framkvæmdir samkv. l. eru stöðvaðar, þar sem ræktunarvélar hafa eigi fengizt til félaga. Því er nauðsynlegt að fá þarna ákveðna tölu véla til þess að fullnægja brýnustu þörfum. Þykir mér sérstaklega vænt um orð hæstv. viðskmrh. áðan, að till. rúmist innan innflutningsáætlunarinnar fyrir þetta ár. Ef svo er, er vel farið, og ég vona, að úr þessu fari nú að rætast. — Ég skal taka það fram vegna þeirra umr., sem hér hafa farið fram, að rétt er, að ræktunarframkvæmdir takmarkast af áburðarskorti. Og það er engan veginn hættulaust að hvetja menn til að hefja ræktun í ríkum mæli, nema skilyrði séu fyrir hendi að fá nægilegan áburð. En við munum tæplega þurfa að óttast skort eftirleiðis. Mun áburðurinn fást í vor. Ég held, eftir síðustu fréttum að dæma, að þetta verði síðasta árið, sem við munum þurfa að búa við skömmtun á þessari vöru, þannig að árið 1950 muni nægur tilbúinn áburður fást með skynsamlegum kaupum. Því held ég, að sú ætlun manna þurfi hér á engan hátt að standa í vegi, að fáist ræktunarvélarnar, verði um áburðarskort að ræða, áburðarþörfinni eigi fullnægt. Þetta vil ég taka fram. Gleður það mig, að kröfurnar, sem gerðar eru um ákveðna tölu af vélum, geti rúmazt innan innflutningsáætlunarinnar. Hins vegar er þörfin fyrir minni dráttarvélar umdeild. — Það dettur engum í hug að neita því, að það er hægt að nota hesta til að draga sláttuvélar og aðrar minni vélar, en það er bara þýðingarlaust að tala um það, því að fólkið heimtar önnur tæki. Þróunin er sú, að vélarnar ryðja sér braut og fólkið vill nota þær, og þess vegna verður að flytja þær inn, eftir því sem mögulegt er, fyrst stóru dráttarvélarnar til að brjóta landið og svo minni vélar til að yrkja hið ræktaða land.

Úr því að ég stóð upp, ætla ég að víkja nokkrum orðum að einu máli, sem hér hefur dregizt inn í umr., en það er framleiðsla landbúnaðarins, sem sumir hafa haldið fram, að hafi minnkað á síðustu árum, og aðrir, að hafi vaxið. Ég held, að það sé bezt að hafa það, sem sannast reynist í þessu máli sem öðrum, og það rétta er, að kjötframleiðslan var 1200 tonnum minni 1948 en áður. Þetta stafar af fækkun fjárins í sambandi við sauðfjárveiki, sem herjað hefur í bústofni landsmanna, en það er líka vegna þess, að bændur settu miklu meira á af lömbum á því ári en næstu ár áður, og það þýðir að vísu minnkandi kjötframleiðslu í ár, en vaxandi bústofn og þar af leiðandi aukna kjötframleiðslu í framtíðinni. Sannleikurinn er því sá, að kjötframleiðslan stendur nokkuð í stað, því þó að ærtalan minnki, þá hefur afurðamagnið vaxið sem þeirri fækkun nemur. Hins vegar hefur mjólkurframleiðslan aukizt, og er hún 3 millj. kg, meiri síðasta ár, en næsta ár á undan. Að vísu er það að sumu leyti vegna þess, að ný mjólkursvæði hafa stofnað mjólkurbú og hafið mjólkursölu, en þrátt fyrir það mun framleiðslan hafa aukizt nokkuð. Að þessu athuguðu mun hið rétta í þessu máli, að framleiðsla landbúnaðarins er svipuð og nokkur ár áður, hefur þó fremur aukizt en hitt. Ástæðan til þess, að landbúnaðurinn hefur ekki verulega aukið framleiðslu sína, er sú, að hann hefur ekki enn fengið aðstöðu og tæki nema að litlu leyti til þess, að hægt sé að reka hann eftir nútíma kröfum. Þetta er þó í áttina, og komi ekkert sérstakt strik í reikninginn, ætti mjólkurframleiðslan að aukast verulega á næstu árum, og ég vona, að kjötframleiðslan eigi eftir að aukast líka, því að ég er ekki í vafa um, að við eigum að auka sauðfjárræktina, því að skilyrðin til þess eru svo ákjósanleg í sumum héruðum landsins, að vart verður á betra kosið. Mér þætti heldur ekki ólíklegt, að á næstu 10 árum vaxi kjötframleiðslan um 1/3 til ½, miðað við það, sem hún er nú. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, en taldi hins vegar rétt að láta það koma fram að gefnu tilefni.

Þar sem náðst hefur samkomulag við viðskmrh. um þessa þál., virðist mér eðlilegt og rétt, að hún hljóti samþykki.