29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (4395)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er sýnilegt af öllum þeim viðbúnaði, sem hér er hafður, að hér er um óvenjulega tíma að ræða, og vegna þeirra atburða, sem gerðust hér í morgun í sambandi við mig, þá langar mig til að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvaða vernd við þingmenn höfum.

Hér eru öll skot full af lögregluþjónum, og það er hart að gengið, að svo skuli vera. Þegar ég kom hingað kl. 9 í morgun, — ég er vanur að koma hingað um það leyti, — þá voru aðaldyrnar, móti allri venju, lokaðar. Þar var ekki hægt að komast inn. Ég hvarf þá að því ráði að leita til bakdyranna. Ég ætlaði að reyna að komast inn þeim megin, eins og ég hef stundum gert áður. Þar var tekið á móti mér af nokkrum lögregluþjónum og ég var fangaður. Mér var neitað um inngöngu, nema ég gæti sýnt eitthvert aðgöngukort, og mér var sagt, að án þess færi ég ekki inn í húsið. Ég spurði þá, hvaðan sú fyrirskipun kæmi, sem heimtaði, að ég sýndi aðgöngukort, til þess að fá að fara inn í húsið. Ég sagðist ekkert kort hafa, en krafðist þess að fá á því skýringu, hvaðan sú fyrirskipun kæmi, sem heimilaði slíkt. En það fór allt eins og áður. Ég fékk ekki svar við spurningu minni, nema það, að það væru ströng fyrirmæli um að hleypa mér ekki inn í húsið, nema ég sýndi aðgöngukort. En það leynir sér ekki, hvers konar fyrirskipanir hér hefur verið um að ræða.

Nú vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. forseta, hvaða afstöðu hann tekur gagnvart þessu og hvaða ráðstafanir hann hefur í hyggju að gera til tryggingar því, að við þm. getum, eins og venjulegt er, fengið að ganga út og inn í alþingishúsið án þess að þurfa að eiga von á því að verða teknir af lögreglunni — kannske fangelsaðir. Eða ætlast hann til þess að við göngum með tilheyrandi merki á bak og fyrir til þess að fá að komast inn í húsið?

Ég verð að segja það, að ef það á að hafa hérna þéttar raðir lögregluliðs, meðan á afgreiðslu þessa máls [þ. e. Atlantshafssamningsins] stendur, þá verður að gera þær minnstu kröfur, sem hægt er að gera til þeirra, sem ráða eiga húsum, að þeir þekki hv. þm., svo að þeir geti fengið að ganga óáreittir út og inn. En eins og stundum áður, þá kemur það einnig fyrir nú, að hér er um mjög óvenjuleg vinnubrögð að ræða, og það eru ekki nema vissir menn, sem fá að ganga óáreittir. Ég krefst þess, að forseti geri þær ráðstafanir, að ég geti gengið hér inn og út úr þinghúsinu eins og vant er, og það án þess að vera merktur, og hindrunarlaust af hálfu lögreglunnar. Ef einhverjir eru skelkaðir hér, þá geta þeir látið lögregluna vernda sig, en ég hef ekki óskað eftir neinni slíkri vernd. (ÓTh: Þeim hefur sýnzt þú vera hræddur.) Ég býst við, að þessi hv. þm. óski eftir lögregluvernd bæði bak og fyrir, því að allar þessar ráðstafanir benda til þess, að hann sé hræddur, en ég geri kröfu til þess að fá að ganga út og inn án þess að vera fangelsaður af lögregluliði.