29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (4397)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau mótmæli, sem fram hafa verið borin af hv. 2. þm. S-M. Það er auðséð, að það er verið að taka hús á þingmönnum, og ríkisstj. gefur fyrirskipanir um, að lagðar séu hendur á þingmenn, þegar þeir ætla að ganga ótruflaðir að starfi sinu í þinghúsið. Ég vil mótmæla því hneyksli, — því að þetta er meira en „leiðinlegur misskilningur“, þetta er yfirgangur ríkisstj. með lögregluvaldi gagnvart alþingismönnum og rétti þeirra. Þetta er smánarleg árás á friðhelgi Alþingis. Það er út af fyrir sig verið að sýna frekju gagnvart Alþingi með því að fylla hérna allt af lögregluþjónum, og það er sannarlega árás ríkisstj. á friðhelgi Alþingis. (BSt: Það hefur komið fyrir áður, og það í tíð nýsköpunarstjórnarinnar.) En þó tekur út yfir, þegar þm. eru hindraðir í að komast inn í húsið. Og ég vil enn mótmæla slíkri ósvífni og vona, að hæstv. forseti sjái um, að við þm. getum gengið óhindraðir að afgreiðslu þessa máls.