29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (4411)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil eindregið mótmæla því, að ræðutími verði styttur í þessu máli og ég álít, að það bókstaflega nái ekki nokkurri átt. Þetta eru hinar þýðingarmestu umr., sem fram hafa farið á Alþ. í mörg ár og e. t. v. nokkurn tíma í sögu landsins. Og hvort sem stjórnarflokkarnir eða hæstv. ríkisstj. óska eftir að taka þátt í slíkum umr. eða ekki, þá nær ekki nokkurri átt annað en að hv. þm. hafi fullt málfrelsi. Ég álít, að ekki sé rétt af hæstv. forseta að stytta strax ræðutímann. Ég vil eindregið mælast til þess, að hæstv. forseti frestaði þessari ákvörðun.