29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (4414)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil mælast til þess af hæstv. forseta, að hann afturkalli þá ákvörðun sína að stytta ræðutímann. Því var lýst yfir af hæstv. ríkisstj., þegar hún lagði frv. þetta fyrir þingið, að nægur tími mundi gefast til að athuga það frá öllum hliðum, og hér er um það að ræða, að þm. hafi málfrelsi í þýðingarmiklu máli. Um þetta hefur hæstv. ríkisstj. ekkert vald, heldur aðeins forseti, og er það því ofbeldi við Alþ., ef ríkisstj. reynir að hafa áhrif á hæstv. forseta um að skera niður umr. Og þó að ég hafi haldið ræðu í rúma 3 tíma, fer því fjarri, að ég hafi á þeim tíma tæmt öll rök í málinu, og hæstv. forseti getur ekki dæmt um það, hvort ekki séu enn eftir rök, sem geta breytt skoðun manna á málinu. Ég þykist sjá, að hæstv. forseti hafi mikinn áhuga á að ljúka afgreiðslu málsins sem fyrst, þar sem hann heldur fundi áfram í matartímanum. Vil ég að lokum mælast til þess, að hann láti ekki þessa ákvörðun sína um styttingu ræðutíma koma til framkvæmda.