29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (4416)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég vil spyrja hæstv. forseta, hvort hann hafi ekki hugsað sér að gefa kaffihlé, en sá tími er nú kominn, eins og sjá má af því að bekkir eru nú ekki skipaðir. (Forseti: Ég hef ekki hugsað mér það.) Ég vil segja hæstv. forseta, að Alþ. er nú að ræða mikilvægasta málið, sem yfirleitt hefur komið fyrir Alþ., og þá er umr. svo háttað, að reynt er að halda áfram bæði í matar- og kaffitímum, og um skeið var aðeins einn þm. stjórnarfl. auk forseta í salnum. Það er þó nokkur bót, að þegar hæstv. ríkisstj. ásamt stuðningsmönnum sínum er horfin úr salnum, þá sitja fulltrúar bandaríska sendiráðsins þeim mun fastar í hliðarherbergjunum. Ég vil spyrja, hvort þetta sé að halda uppi þinglegri meðferð, og vil mælast til, að þm. verði gefið kaffihlé. (Forseti: Ég er áður búinn að svara þessu.) Ég skil þetta vel. Ég var viðstaddur í morgun, þegar forseti á sinn venjulega prúðmannlega hátt var að afsaka leiðinleg mistök, sem urðu hér í þinginu, en þá stóð form. Sjálfstfl., hv. þm. G-K., upp og ávítaði hann fyrir að gæta sóma þingsins. (ÓTh: Form. Sósfl. gerir það þá þeim mun betur.) Hann hefur gert það.

Ég skal þá hverfa að ræðu minni. Í des. s. l. var í höndum stjórnarfl. uppkast eða drög að Norður-Atlantshafsbandalagssáttmála. Þessi drög voru öll önnur en sá sáttmáli, sem við ræðum nú, og stórum óhagstæðari fyrir okkur, en hinn endanlegi sáttmáli. Á því stigi málsins voru margir þeir menn í Sjálfstfl., sem vildu sporna gegn því að samningurinn yrði gerður, en flokkurinn sem heild vildi segja: Já, herra. Um þetta atriði höfum við dæmi í áramótagrein Ólafs Thors, en hún var skrifuð sem eitt „já, herra“ við uppkastinu. Samkvæmt því uppkasti átti Ísland að verða ein öflug hernaðarvél. Okkur var ekki ætlað að dæma um fyrirkomulag á þessu, heldur öðrum úti í heimi, og það stóð ekki á Ólafi Thors að segja: Já, herra. En þegar tímar liðu og fleiri þjóðir fengu að sjá uppkastið, þá höfðu þær, sem betur fór, menn, sem höfðu meiri reynslu í alþjóðaviðskiptum en Ólafur Thors, og komu þeir því til leiðar, ásamt mótmælaöldu þeirri, sem reis gegn samningnum og það einnig hér á landi, að samningnum var breytt. Ég þarf ekki að taka það fram, að það var gengið fram hjá því að ræða málið í utanrmn., en það var bein skylda að gefa fulltrúum í nefndinni tækifæri til að ræða málið. En sú skýring var gefin síðar, að sósíalistar ættu fulltrúa í n., og mætti því ekki sýna henni slíkan trúnað. Ég vil nú spyrja hæstv. ríkisstj. og hv. form. n., hvaða dæmi þeir hafi um það, að sósíalistar hafi misnotað þann trúnað, sem þeim hefur verið sýndur í opinberum störfum. Svo gerist það næst, að snemma í marz kemur enn uppkast að bandalagsssáttmála til ríkisstj. nokkurn veginn í endanlegu formi. Þetta uppkast var lesið fyrir stjórnarflokkunum og síðan flugu þrír hæstv. ráðherrar vestur um haf. Þegar þeir voru flognir úr landi, var spurt um það hjá þeim, sem ekki flugu, hverju þetta sætti og hvort uppkast að Atlantshafsbandalagssáttmála lægi fyrir hæstv. ríkisstj. Hæstv. forsrh. (StJSt) sagði, að engin drög að slíkum samningi væru í höndum ríkisstj. Hann sagði vísvitandi ósatt, að ráðh. hefðu flogið vestur að frumkvæði ríkisstj., en vestan frá Ameríku berast aðrar fréttir. Þar er haft eftir hæstv. utanrrh. (BBen), að þeir hafi komið vestur í boði bandarísku ríkisstj., sem gefur til kynna, að hæstv. forsrh. hafi sagt ósatt. Það styrkir og þennan grun, að í norsku blaði er skýrt frá því 11. marz, að ákveðið sé, að Bjarni Benediktsson fari vestur til viðræðna. Næsta dag, 12. marz, fara svo ráðherrarnir vestur. Það var því fyrr vitað meðal blaðamanna í Noregi en þm. á Íslandi, að leppar væru flognir úr landi, og bendir allt til þess, að það, sem ég sagði, að hæstv. forsrh. hefði sagt vísvitandi ósatt, hafi verið rétt. Ég sé nú, að hæstv. forseti hvessir sjónir á mig og mundar hamar sinn. (Forseti: Ég vil mælast til þess, að hv. þm. gæti hófs í ummælum sínum.) Mér er það mikil alvara, að hæstv. forsrh. sagði ósatt. Og þetta orðalag er þinglegt og sannleikur, sem þarf að segja. Svo gerist það, að þjóðin fréttir um það, að Íslendingar hafi fengið 2½ millj. dollara að gjöf. Næst gerist það, að ráðherrarnir tala við Acheson, og vil ég beina þeirri spurningu til ráðherranna, hvort þeir hafi allir verið á öllum fundum, sem haldnir voru með Acheson, eða hvort Bjarni Benediktsson hafi verið einn á sumum. Eftir þetta voru ýmsar upplýsingar gefnar, m. a. að að dómi Bandaríkjamanna er Ísland ekki í árásarhættu og Bandaríkin áskilja sér Keflavíkurflugvöllinn og olíustöðina í Hvalfirði tiltæk, ef til ófriðar kemur, og ýmislegt fleira, sem ég rek ekki hér. Að þessu búnu halda svo ráðh. heim aftur, og ber að athuga það ferðalag vel. Það er komið á Keflavíkurflugvöllinn, sem er bandarísk herstöð, og þar er tekið á móti þeim af yfirvaldi héraðsins, Guðm. Í. Guðmundssyni og lögregluþjónum og síðan farið til bæjarins í 3 bílum og alls staðar lögregluþjónar með. Hvað er hér að ske? Hvað veldur því, að ráðh., sem eru að koma utan úr heimi, telja sig þurfa lögregluvernd þar, sem vopnaburður hefur ekki þekkzt öldum saman? Eru til þeir menn í hæstv. ríkisstj., sem dettur í hug, að fyrirhugað hafi verið að gera þeim fyrirsát? Þeir eru sjálfsagt svo viti bornir, að þeir sjái, að ef andstæðingar þeirra hefðu viljað vinna málstað sínum ógagn, þá gerðu þeir það með engu meir, en veita ráðh. fyrirsát og árás. Þetta máttu ráðh. vita, en þeir fóru samt í lögreglufylgd til bæjarins. Svo er komið til Rvíkur. Ætla mætti, að ekki hefði lengi verið beðið boðanna að kalla utanrmn. saman og gefa þinginu skýrslu um ferðina. En það var ekki gert. Skýring sú, sem form. n. hefur gefið á þessu, er sú, að einn sósíalisti sé í n. og hafi því ekki mátt ræða málið þar. Ég vil endurtaka spurningu þá, sem ég bar fram áðan: Hvenær hafa sósíalistar sýnt sig í því að misnota þann trúnað, sem þeim hefur verið sýndur í opinberum störfum? Hvað er á seyði? Hví er verið að traðka á lögum og rétti? Þetta er gert þegar tilkynnt er, að verið sé að tryggja lýðræði og mannréttindi, og þá er byrjað á því að traðka á rétti þm. og hefðbundnum venjum. En svo er haldið áfram. Það gerist í gær, að form. þingfl. hittast í þinghúsinu og stjórnarliðið hafði ákveðið að útvarpsumr. yrðu um mál þetta þá um kvöldið, og var ætlazt til, að stjórnarandstaðan fengi aðeins 7–8 klst. til að undirbúa sig undir stærsta málið, sem komið hefur fyrir Alþ. Hér er verið að verja frelsi og mannréttindi! Ríkisstj. Íslands traðkar á rétti þm., lögboðnum, hefðbundnum og sjálfsögðum. Eftir langt þref var svo fallizt á að hverfa frá umr. um bandalagið, en taka í þess stað til umr. vantraustið á ríkisstj., sem fyrir löngu hefði átt að vera búið að afgreiða. Svo eru umr. hafnar, en hæstv. ríkisstj. hafði ekkert að segja út af öllum þeim ásökunum, sem að henni hafa beinzt frá almenningi fyrir óstjórn á öllum sviðum innanlandsmála, ekkert nema lofgerð um þennan mikla sáttmála, sem á að tryggja frið fyrir alla í heiminum. Svo er fundur í Alþ. undirbúinn að næturlagi, lögregla kölluð til að gæta þinghússins og hvítliðar, sem skulu vera til taks, ef á þarf að halda. Og það er gert meira, það er gengið í búðir, sem selja axir og slíkt, og farið fram á, að lögreglan geymi þær, en svo er fallið frá því, ef því er lofað að selja þær ekki næstu daga. Þetta er einstök axarskaftastjórn. Stjórn, sem er að bera fram sáttmála, sem á að tryggja frið og lýðræði, byrjar á því að banna að selja axir og axarsköft og allt, sem má berja með. Eru þessir menn ekki með réttu ráði? Við höfum séð nokkra lögregluþjóna hér úti fyrir, sem ekki hafa annað að gera en fá nokkra unglinga til að safnast saman hér fyrir utan. Þetta getur ekki haft nema eitt takmark, og það er að æsa fólk til óeirða.

Ég sé, að hæstv. forseti er órólegur, hann vill ekki málfrelsi. Og þegar einn þm. ætlaði í morgun að fara inn í þingið, er honum bannað það af lögreglunni, nema hann hafi sérstakan miða, og þegar hann segist samt fara inn, því að hér eigi hann að vera, þá gera þeir sig líklega til að handtaka hann, en þá kom einn af starfsmönnum þingsins til skjalanna og leiðrétti þetta. Þegar svo hæstv. forseti biður þennan þm. afsökunar á þessu, stendur Ólafur Thors, formaður Sjálfstfl., upp og setur ofan í við forseta fyrir að biðja afsökunar á axarsköftum stj. Allt þetta er undirbúið til þess eins að koma af stað vandræðum. — Mér skilst á hæstv. forseta, að mér sé meinað að halda áfram. (Forseti: Umræðutíminn er nú orðinn það langur, að ég vil vona, að hv. þm. stytti mál sitt og brjóti ekki reglur þingsins.) Ég mun nú að vísu hlýða forseta og biðja þá heldur um orðið aftur, en mér nægja engar tvennar 15 mínútur til að tala í þessu mikla stórmáli. Það er réttur og skylda þingmanns að ræða slíkt mál mjög ýtarlega, en hvort tveggja er nú borið fyrir borð, og er það í samræmi við annað, sem hér fer fram.