29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (4418)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það var á aflíðandi sumri, að Íslendingum barst vitneskja um, að þeim mundi verða boðin þátttaka í Atlantshafsbandalaginu, en þó leyfðu menn sér ekki að hefja grundvallarumræður um málið fyrr en í byrjun desember. Sumum þótti þó enn bezt að bíða, eða létu það í veðri vaka, eftir því, að uppkast að samningnum yrði lagt fyrir. Það var gert kunnugt fyrir nokkrum dögum og lagt fyrir Alþingi í fyrradag í formi þáltill. og ákveðnar tvær umr., og eiginlega snerust útvarpsumræðurnar um vantraustið eingöngu um þetta mál hér, og þannig ræddu þeir málið af hálfu stjórnarflokkanna, sem stj. valdi til þess. Nú hefur málið aðeins verið rætt hér hálfan dag, og er því mjög óviðeigandi — vægast sagt — að skera niður umræður með forsetaúrskurði. Við höfum rætt hér margar ómerkilegar tillögur dögum og jafnvel vikum saman án þess að skornar væru niður umræður, og ég álít, að virðing þingsins setji niður við að skera þegar niður umræður í þessu stórmáli. Það er verið að tæpa á því, að kommúnistar einir séu á móti málinu, en þeir hafa sinn þingrétt, þótt kommúnistar séu, og auk þess bitna þessar aðfarir á öllum þingmönnum. En þótt öllum sé ljóst, hvílíkt stórmál er hér á ferðinni, hefur ríkisstj. ekki lagt á sig að vera hér viðstödd þennan hálfa dag, sem málið hefur verið rætt, og svo takmarkaðan tíma sem á að fá að ræða það. Mest allan tímann fyrir hádegi máttu ráðherrastólarnir heita auðir, og lengi vel sáum við aðeins afturhlutann á hæstv. utanrrh. Ég er hins vegar alveg viss um, að hann hefur ekki snúið afturhlutanum í Acheson, en þegar hann er kominn hér á Alþingi, þá sýnir hann þann hlutann. Það er óvirðulegt. Ég vænti þess nú, að allir ráðherrarnir geti verið viðstaddir og gefi þingmönnum kost á að ræða við sig þennan stutta tíma, sem hér á sýnilega að gefa til umræðu. Það má ekki minna vera.

Ég býst ekki við, að mér leyfist að tala hér lengur en 15 mínútur, og verð ég því að sleppa meginhlutanum af því, sem ég ætlaði að segja.

Segja má, að meginefni samningsins felist í 3. og 5. gr. hans, sem skylda samningsaðila til samstöðu um varðveizlu friðarins gagnvart vopnaðri árás, m. a. er þá skylda að beita vopnum til varnar. Skylda þessi er lögð á Íslendinga eins og aðra, sem að bandalaginu gerast aðilar. Það er augljóst mál, að undanþiggja þarf Íslendinga þessum ákvæðum og þessari kvöð, ef þeir eiga að rísa undir því að vera í slíku bandalagi og þátttakan á að vera þeim að skapi. Nú hefur hæstv. utanrrh. lýst yfir, að þessi skylda verði ekki lögð á Íslendinga, sökum þess að þeir eru vopnlausir, en það er engan veginn nóg að fullyrða slíkt, án þess að Ísland hafi fengið skriflega viðurkennda sérstöðu í því efni og lausn frá kvöð, og raunar væri það hæpið, þótt svo væri. Samkvæmt 5. gr. er full ástæða til að ætla, að við göngumst undir að gerast hernaðaraðili, ef svo vill verkast og við gerumst aðili að samningnum, og við vitum, að þjóðin mundi aldrei samþykkja að ganga í slíkt bandalag, ef henni væri ljóst, að það kostaði hernaðaraðild.

Ráðherrarnir hafa lagt sig alla í framkróka með að sýna fram á, að engar alvarlegar skuldbindingar fælust í samningnum, og segja, að Acheson hafi sagt þeim, að við værum ekki skuldbundnir til hernaðar með nokkurri þjóð, þar eð Íslendingar væru vopnlaus þjóð. En þetta er ekki opinberlega viðurkennt af samningsaðilum. Í annan stað segja ráðherrarnir fagnandi, að Acheson hafi lofað, að hér yrði ekki her á friðartímum. En þetta er þó ekki annað en loforð dauðlegs manns, og nauðsynlegt væri að fá það skriflegt í samningnum eða skriflegan fyrirvara, sem allir samningsaðilar væru látnir undirskrifa. Ég efast ekki um, að ráðherrarnir séu í góðri trú, en hvert geta atvíkin ekki hrakið menn og þjóðir, þegar komið er út á hála braut.

1945 gafst Íslendingum kostur á að gerast hernaðaraðili, en Alþingi lýsti yfir, að við gætum ekki sagt neinum stríð á hendur né farið með hernað gegn nokkurri þjóð af augljósum ástæðum, og þær ástæður eru enn þá augljósari nú, og það er enn fremur augljóst, að þjóðin fylgir þeirri stefnu, sem Alþingi markaði þá. — Stóll hæstv. utanrrh. er enn þá auður og sér nú ekki einu sinni í afturhlutann á ráðherranum. En ég vil þó spyrja hann: Ef svo fer, að Ísland gengur í þetta bandalag, og þar kæmi, að allar hinar bandalagsþjóðirnar væru búnar að lýsa yfir stríði, væri það þá ekki siðferðileg kvöð á Íslendingum, vegna öryggis hinna bandalagsþjóðanna a. m. k., að lýsa einnig yfir stríði með hinum þátttökuríkjunum? Það væri í orði kveðnu e. t. v. hægt að segja, að Ísland réði þessu sjálft, en væri ekki of „billegt“ að sleppa við allt? Yrði ekki a. m. k. sagt við okkur: Ef þið þykizt ekki geta farið í stríð vegna vopnleysis, getið þið þó alltaf lagt fram öll ykkar fjárhagslegu efni til stuðnings okkur í stríði, það getið þið þó a. m. k.? Hefði Ísland aðstöðu til að skorast undan slíku? Úr því að ráðherrann er ekki viðstaddur, þá spyr ég ráðherrastólinn, sökum þess að þetta hefur úrslitaáhrif á afstöðu mína, og svör ráðherrans við spurningu minni vil ég hafa skýlaus í þingtíðindunum. Og spurning mín er þessi: Vill hæstv. utanrrh. ábyrgjast, að við þurfum ekki að leggja fram fjárhagsleg efni okkar eftir megni til styrjaldarrekstrar, ef við göngum í bandalagið og hinar bandalagsþjóðirnar eru komnar í stríð, og vill hæstv. ráðh. leggja þar við sinn drengskap? Ég held, að það væri erfitt, því að hér er þó um nokkurs konar fóstbræðralag að ræða, þar sem árás á eina þjóð er skoðuð sem árás á allar. Ef ráðherrann játar ekki spurningu minni, en það tel ég, að hann geti naumast, þýðir það, að við yrðum óumflýjanlega hernaðaraðili og yrðum að lána land okkar og leggja fram efni öll til styrjaldarrekstrar, ef aðrar bandalagsþjóðir ættu í stríði, og að líkindum kæmumst við ekki hjá því að taka beinan þátt í slíku stríði. Ég er á móti því, og ég er viss um, að íslenzka þjóðin er einnig á móti því og þar með þátttökunni í bandalaginu, eins og allt er í pottinn búið.