03.02.1949
Neðri deild: 57. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

17. mál, kjötmat o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Á þskj. 307 flyt ég ásamt hv. þm. V-Sk. brtt. við þetta frv. Till. okkar er um það, að aftan við frv. bætist bráðabirgðaákvæði og þar sé ákveðið, að fyrst um sinn skuli heimilt að selja afurðir af sláturfénaði öðrum, en sauðfé, sem slátrað hefur verið utan löggiltra sláturhúsa, enda séu afurðirnar skoðaðar og merktar af dýralækni eða öðrum þeim, er kjötskoðun annast, og metnar af kjötmatsmanni og meðferð vörunnar óaðfinnanleg að þeirra dómi.

Í 2. gr. er svo fyrir mælt, að öllum fénaði, sem slátra á í því augnamiði að selja afurðirnar, skuli slátra í löggiltum sláturhúsum. Þetta tel ég, að ekki sé hægt að framkvæma nú, að því er snertir slátrun stórgripa, t.d. nautgripa, nema með svo mikilli fyrirhöfn í mörgum tilfellum, að þar af leiði mikinn aukakostnað, og þetta hlyti að verða til þess að hækka verulega verð afurðanna, ef slíkt ætti að koma til framkvæmda. Þetta mundi að vísu verða kleift, ef til vill með viðráðanlegum kostnaði, með því að fjölga mjög sláturhúsum víða um landið, en það er hlutur, sem ekki er hægt að gera í skjótri svipan, að koma upp mörgum sláturhúsum til viðbótar þeim, sem fyrir eru, og þess vegna leggjum við til í okkar brtt., að fyrst um sinn skuli heimilt að selja afurðir af fénaði, öðrum en sauðfé, þó að honum hafi verið slátrað utan löggiltra sláturhúsa.

Ég geri ráð fyrir því, að aðaltilgangurinn með flutningi þessa frv. hafi verið sá að koma á betra og öruggara eftirliti með kjöti og öðrum sláturfjárafurðum, þ.e.a.s. lækniseftirliti og læknisskoðun á þessari vöru, og sömuleiðis að setja fullkomnari ákvæði um mat á þessari vöru, heldur en áður hefur verið. En ég vil vekja athygli á því, að þessu er á engan hátt raskað, þó að till. okkar verði samþ., vegna þess að við gerum ráð fyrir í okkar till., að allar sláturfjárafurðir skuli skoðaðar og merktar af dýralækni eða öðrum þeim, sem samkvæmt l. eru löggiltir til þess að framkvæma slíka skoðun, og enn fremur að afurðirnar skuli metnar af kjötmatsmanni og meðferð vörunnar sé dæmd óaðfinnanleg af þeim mönnum. Þetta mundi því alls ekki verða til þess að draga neitt úr þeim kröfum, sem hér eru gerðar í frv. um vandaða meðferð á þessari vöru, og það er, eins og ég áður tók fram, aðaltilgangurinn með frv. að koma kjötmati og heilbrigðiseftirliti með kjöti og öðrum sláturfjárafurðum í betra og fullkomnara horf, en verið hefur.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en með tilvísun til þess, sem ég sagði um þá örðugleika, sem eru á því, eins og nú er ástatt, að fara eftir þessum ákvæðum frv., þá vænti ég þess, að brtt. okkar um bráðabirgðaákvæðið verði vel tekið af hv. d.