29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (4423)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Síðan forseti varnaði mér síðast máls, hafa umr. leitt til þess, að nú hlýt ég að byrja á að svara hæstv. dómsmrh. Hæstv. ráðh. hóf mál sitt með því að tala um, að við sósíalistar færum hér með utanbókarlærdóm eftir skipun erlends valds, en það er alkunna, hvernig sekir menn reyna að leiða athyglina frá sér, en hér talar sá maður, sem þessi orð ættu frekar við og er nú að framkvæma það, sem hann samdi um við mr. Acheson. Það er líka staddur hér í hliðarherberginu fulltrúi frá mr. Acheson til þess að fylgjast með því, að hæstv. dómsmrh. efni heit þau, sem hann gaf í Washington á dögunum.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að það eitt vekti fyrir sósíalistum að reyna að halda Íslandi opnu og óvörðu, svo að síðar væri hægt að nota það sem rýting í bak lýðræðisþjóðunum. Jæja, á Ísland þá að vera varið? Hingað til hafa hæstv. ráðh. sagt, að landið yrði óvarið, en nú skilst mér, að það eigi að vera varið. Það er erfitt að skilja, hvað fyrir hæstv. dómsmrh. vakir, og það er erfitt að samræma þessi orð. Kannske hann komi nú og lýsi því yfir, að sósíalistar lifi á erlendu fé. Sjálfur veit hann, að slíkt er ósatt, en hvers vegna er honum þetta svo mjög í huga? Er hann ekki alveg nýkominn af fótskör mr. Achesons? Fékk hann ekki greitt gjafaféð, 16 millj. kr.? Hvað skyldi vera falið í þeim milljónum? Hafa menn litið á síðasta blaðið á þskj., en þar stendur í fyrsta lagi, með leyfi hæstv. forseta: „Að ef til ófriðar kæmi, mundu bandalagsþjóðirnar óska svipaðrar aðstöðu á Íslandi og var í síðasta stríði, og það mundi algerlega vera á valdi Íslands sjálfs, hvenær sú aðstaða yrði látin í té.“ — Hverjum dettur nú í hug, að Bandaríkjamenn komi og spyrji: Hvenær þóknast ykkur að veita okkur hernaðaraðstöðu? Engum manni dettur slíkt í hug, þó að þessir þrír fljúgandi leppar fullyrði slíkt eftir viðtalið við mr. Acheson. — Næsta atriði er: „Að allir aðrir samningsaðilar hefðu fullan skilning á sérstöðu Íslands.“ — Ja, mikið er það nú dýrmætt, en hvað skilja þeir? Að Íslendingar séu fámenn þjóð og einskis megandi í hernaði? Það var mikið talað um það af stjórnarliðinu, að Ísland væri óvarið land og við sósíalistar vildum hafa það opið. Hafa þeir haft stór orð um það í þessum umr. og blöð stjórnarflokkanna verið fyllt með slíkum skrifum nú undanfarið. En hvað eru þessir menn að fara, þegar þeir tala svo mjög um það, að Ísland sé opið og óvarið? Hvað liggur þar á bak við? Hæstvirtir ráðh. vita, að Bandaríkjamenn ætla sér að koma hingað og efla stöðvar sínar hér og munu alls ekkert til þess spara. — Í þriðja lagi segir: „Að ekki kæmi til mála að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum.“ — Ég hef heyrt þess getið í fréttatilkynningum, að hæstv. utanrrh. hafi lýst því yfir við blaðamenn í Washington, að Bandaríkjamenn fengju ekki herstöðvar á Íslandi á friðartímum. „No bases“, hafði hæstv. ráðh. sagt. Það var bara litið á hann stórum augum: „No bases“, sögðu blaðamennirnir, því að þeir vissu, að Bandaríkjamenn hafa stöðvar á Íslandi. Á korti Bandaríkjahers er Keflavík merkt sem herstöð. Allur heimurinn veit það. Svo koma þessir þrír leppar og lýsa því yfir, að á Íslandi verði engar herstöðvar. Hvað veldur þessum ósköpum? Hv. alþm. ættu að spyrja í alvöru. Þeir ættu sjálfir að reyna að brjóta málið til mergjar.

Það er enginn viðvaningur í þjóðmálum, formaður þingflokks Framsfl., hv. þm. S-M., hæstv. menntmrh. Hv. þm. skrifar langt mál í blað sitt alveg nýlega og minnist þar á fuglabjarg eitt, sem nefnt hefur verið heiðnaberg. Í okkar þjóðfélagi er eitt heiðnaberg, þar sem leikinn er eins konar bjargleikur. Það eru forréttindi heildsalastéttarinnar. En það er sýnt, að þessi flokkur manna er sá, sem skaðar afkomu ríkisins hvað mest og hefur svo sorfið að ríkinu, að það liggur við ríkisgjaldþroti. En hvers vegna? Vegna þess, að ekki má sækja björg í heiðnaberg. Vöndurinn er á ríkisstj. Nú eru henni færðar tekjur af erlendu valdi, og hún sníkir peninga og þiggur Marshallhjálp. Hæstv. ríkisstj. er nú á sníkjubuxunum, en í heiðnaberg má ekki fara.

Það er vissulega rétt, að sagan endurtekur sig. Það má minnast þess, hvernig bandalagið, sem kennt var við heilaga þrenningu, leið undir lok fyrir 100 árum síðan. Það bandalag stóð frá 1815–48, eftir að borgarastéttin á meginlandinu reyndi að hrinda af sér valdi klerka og aðals með frönsku byltingunni. Hvað skeður svo? Napoleon mikli kemur til skjalanna og kemst til yfirráða með ofríki. Síðan er ósigurinn við Waterloo. Auðvald veraldarinnar hefur átt í stöðugri baráttu við að knésetja borgarastéttir og alþýðu landanna, því að yfir þeim vilja þeir drottna. Nú síðast, er auðvald Evrópu var nær því knésett, kom Adolf Hitler, sendiboði arðræningjanna, til skjalanna. Hlutverk hans átti að verða og var að berja niður verkalýðinn og gera hann að auðsveipu verkfæri í höndum auðkýfinganna, en Hitler varð helzt til voldugur.

Hann var eftirmaður Napoleons Bonaparte. Og svo rís þetta bandalag upp af gröf Bandalagsins helga, og tilgangurinn með þessu — ja, hvað segir Morgunblaðið: Það eru allar framtíðarvonir mannkynsins, sem það á að bjarga. En ætli það sé ekki eitthvað svipað og hjá Bandalaginu helga. Ætli tilgangurinn sé annar en sá að bjarga því, að alþýðustéttin sæki ekki í heiðnaberg forréttindastéttarinnar. Það er því ekkert undarlegt, að það eru einmitt fluglepparnir, mennirnir, sem voru sendir vestur um haf til þess að betla, sem reyna að koma í veg fyrir það, að alþýðan sæki í heiðnaberg auðvaldsstéttarinnar, því að hvarvetna í heiminum, þar sem auðvaldsþjóðskipulag er, þá er það svo, að það er reynt að koma í veg fyrir það, að sannleiks- og réttlætisþjóðskipulag sé stofnað.

Nú verð ég að segja það, að þegar ég lít yfir þessar umr., sem hér hafa farið fram, og heyri það frá fleiri en einum ráðherra, að það felist í raun og veru ekkert í samningnum, sem bindi landið neinum skuldbindingum, dettur mér í hug að spyrja hæstv. utanrrh. að því, því að flestum hefur fundizt hann vel að sér í lögfræði, hvaða samningur það eiginlega sé, þar sem ekki eru neinar skuldbindingar fyrir aðila. En auðvitað eru skuldbindingar í þessum samningi eins og öðrum. En ef allt er nú svona óendanlega meinlaust, eins og hæstv. ráðh. vill nú vera láta, og ef það er svona sjálfsagt og eðlilegt, að við gerumst aðilar að þessum samningi, og þjóðin sé með því, því í ósköpunum má þá ekki lofa henni að dæma það og segja það svart á hvítu, hvað sé hennar álit?

Það eru allir sammála um það, að hér er um að ræða stærsta mál, sem þjóðin hefur nokkru sinni átt. En finnst þm. þeir hafi umboð til þess að gera alveg út um þetta mál án þess að spyrja umbjóðanda, án þess að spyrja sjálfa þjóðina, sem þeir eru umboðsmenn fyrir, ráða? Geta þeir tekið þá ábyrgð, sem af því leiðir, yfir á sig? Ef svo er, hver eru þá rökin? Ef málið er eins einfalt og meinlaust og þeir segja, hvers vegna leyfa þeir þá ekki þjóðinni sjálfri að dæma um það?

Nei, hér býr eitthvað annað á bak við. Ég vildi mega vænta þess, að hv. þm. hugsuðu sig fyrst um, hvort það er ekki fullmikil ábyrgð fyrir þá að taka á sig að láta íslenzku þjóðina verða undir brakinu, þegar þjóðskipulag kapítalistanna hrynur í rústir. Við þurfum ekki að verða undir brakinu. Íslenzka þjóðin þarf ekki að verða undir brakinu, þegar kapítalisminn hrynur í rústir, en ef við gerumst aðilar að þessum samningi, þá erum við þar með að kalla yfir íslenzku þjóðina að verða undir brakinu. Það verður fróðlegt að sjá hinn fljúgandi lepp, Bjarna Benediktsson, þegar brakið fellur í höfuð honum, sem ég vona, að ég þurfi ekki að sjá, því að það yrði voðalegt. Nei, það, sem við verðum að gera, það er að koma okkur undan ábyrgðinni og láta þjóðina sjálfa dæma, hvað hún vill.