29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í D-deild Alþingistíðinda. (4424)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það hefur verið kvartað um, að umr. skuli hafa verið takmarkaðar um þetta mál. Ég held, að umr. hafi farið þannig fram, að andstæðingar samningsins hafi haft hér um bil allan ræðutímann, en hinir, sem með honum eru, næstum engan, áður en umr. voru takmarkaðar. Ég vildi því kvarta við hæstv. forseta yfir þessu, svo að þeir hv. þm., sem mæla með samningnum, megi segja örfá orð, án þess að þessi takmörkun komi til.

Um þennan samning hefur farið fram skefjalaus einhliða áróður, bæði í blöðum og á mannfundum. Hefur Þjóðvarnarfélagið rekið einhliða áróður um þetta á fundum sínum, bæði hér í Reykjavík og víðar á Suðurlandi. Þetta félag hefur ekki viljað láta ræða þetta mál frá báðum hliðum, heldur hefur það haldið uppi einhliða og ósæmilegum áróðri um það. Því hefur verið lýst yfir í blöðum kommúnista og þjóðvarnarmanna, að samkvæmt þessum samningi ætti að vera hérna herstöð og Ísland ætti að gerast hernaðaraðill og hér ætti að leiða herskyldu í lög. Ekkert af þessu er í samningnum. En hvað gera svo þessir menn, sem hafa haldið þessu öllu fram, þegar þeir verða fyrir vonbrigðum, þar sem ekkert af því, sem þeir hafa verið að finna samningnum til foráttu, stendur í honum? Jú, þeir eru þegar sendir af kommúnistum til þess að reyna að finna nýjar ástæður til þess að vera á móti samningnum og aðild að honum. Þeir, sem eru á móti aðild að samningnum, eru á móti honum frá því sjónarmiði, að þeir vilja vinna með austrinu, en ekki vestrinu.

Ef ríkisstj. er álösunarverð fyrir eitthvað í sambandi við þessar umr., þá er það kannske fyrir það að hafa ekki rætt meira um samninginn sjálfan en gert hefur verið, en það var nú reyndar gert dálítið í útvarpinu í sambandi við umr. í gær. En ef ríkisstj. er álösunarverð fyrir eitthvað, þá er það fyrir það eitt að hafa ekki látið heyrast meira um sannleikann um samninginn, því að það er búið að troða nógu mikilli lygi í eyru þjóðarinnar um þetta mál.

Nú er verið að spyrja að því, hvort þm. hafi umboð til þess að fela ríkisstj. að gerast aðili að þessum samningi, og þó að mér beri ekki skylda til að svara þessari spurningu, þá skal ég þó gera það og gera það játandi. Ég tel mig ekki eingöngu hafa umboð til þess að gera það, heldur beinlíns skyldu til að gera það. Ég er kosinn á þing af lýðræðissinnuðum jafnaðarmönnum til þess að vinna með vestrænni jafnaðarstefnu á lýðræðisgrundvelli. Þessi samtök, sem hér er verið að ræða um, eru stofnuð til þess að fá frið, til þess að hægt sé að vinna að þessari stefnu. Við höfum þurft að horfa á hvert ríkið af öðru innlimað í Rússland. Þjóðir hafa verið sviptar frelsi sínu af Rússum. Það hefur verið traðkað af Rússum á öllum þeim helgustu mannréttindum, sem við Íslendingar teljum okkur lifa fyrir.

Hæstv. utanrrh. benti réttilega á það í ræðu sinni, að fyrstu hernaðarbandalögin eftir styrjöldina hafi verið gerð af Sovét-Rússlandi. Þessi bandalög hafi ekki verið gerð í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafa aldrei verið borin undir þær. Það gildir aftur öðru máli með Atlantshafsbandalagið. Um það liggur fyrir yfirlýsing frá Tryggva Lie um, að sáttmálinn sé að öllu leyti í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í sama mund og Tryggvi Lie var að þessu spurður, þá var hann einnig spurður um Austurbandalagið. Hann lét í því sambandi svo um mælt, að ekkert hefði um það komið til Sameinuðu þjóðanna og hann vissi ekki til, að það væri í samræmi við sáttmála þeirra.

Nú er það mála sannast, að bandalag það, sem hér er gert ráð fyrir, að Ísland gerist aðili að, er fyrst og fremst til þess fallið að vinna að friði í heiminum. Í bandalaginu taka þátt margar þjóðir, sem hver um sig er einskis megnug, en með þessari Evrópuþjóðahreyfingu verða þær sterkar, þegar þær eru komnar allar saman. Það myndast eins konar þriðja stórveldið, þegar þjóðunum er safnað svona saman, þá myndast við það jafnvægi milli Rússlands annars vegar og Ameríku hins vegar. Frá þessu sjónarmiði séð tel ég mig hafa skyldu til þess að greiða atkvæði með till. þeirri, sem hér er á dagskrá.

Hv. síðasti ræðumaður var að finna að því áðan, að fulltrúar frá erlendum þjóðum hlustuðu hér á umr. um þetta mál. En hjá öllum erlendum lýðræðisþjóðum er það svo, að það fyrirkomulag er haft, að ef fulltrúar erlendra þjóða vilja hlusta á umr., sem fram fara á þingunum, þá er þeim það velkomið. Þetta hefur alls staðar verið, þar sem ég hef farið um, og ég hef ekki komið í neinn þingsal, þar sem erlendir menn eru ekki velkomnir til að hlusta og ekkert amazt við þeim. Það vill líka svo vel til, að þessi siður er líka hafður á mannfundum hér í Reykjavík, því að ég veit ekki betur en að 5 Rússar úr sendiráðinu hafi verið á fundinum í barnaskólaportinu, og mér er ekki kunnugt um, að neitt hafi verið amazt við þeim. Það má vera, að það geti verið háttvísi að vera með þennan skæting, en sú háttvísi á þá hvergi heima nema hjá þeim mönnum, sem hv. síðasti ræðumaður er háður.

Hv. þm. Siglf. hélt því fram, að öll hernaðarbandalög væru stofnuð með styrjöld fyrir augum. Ég verð að segja það, að þá hefur Sovét-Rússland stigið mörg spor í þá átt, án þess að hljóð heyrðist úr horni frá hv. þm. Sannleikurinn er sá, að þessi hv. þm. vill láta Rússland hafa sérrétt til þess að leggja undir sig allan heiminn og kúga smáþjóðirnar og telur, að Atlantshafsbandalagið sé móðgun, sem lýðræðisþjóðirnar sýni Rússum með því að koma í veg fyrir áform þeirra.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frekar að þessu sinni, en lýsi ánægju minni yfir, að till. þessi skuli vera hér fram komin, og tel ég mig ekki eingöngu gera rétt með því að ljá henni atkvæði, heldur einnig hafa skyldu til þess.