29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (4425)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég stend hérna upp til þess að bera af mér sakir, sem á mig hafa verið bornar.

Flestir Íslendingar vilja vera skáld. Flestir yrkja eitthvað, margir vel. Ég hef því miður ekki borið gæfu til þess að fá þessa gáfu. En einn hv. þm. Sósfl. hefur nú borið upp á mig, að ég sé skáld, og tilfærir vísu því til sönnunar, sem hann segir, að sé eftir mig. Mér finnst rétt að taka það fram, að ég hef ekki gert þetta, en hins vegar vil ég benda mönnum á, hvernig svona skáldskapur myndast. Þegar Þjóðviljinn er að fjölyrða um „leppana“ í ríkisstj., þá fannst mér það vera klaufalegt og áleit, að þetta væri mjög skaðlegt fyrir þjóðina að hafa slíkt orðbragð, og mér varð það á að segja: „áður riðu hetjur um héruð“, en nú segja menn: „Nú fljúga leppar af landi.“ Nú hafa menn sett þetta saman í þjóðlegt og löglegt rím um leppana. Það hefur oft verið ályktað, hvernig íslenzku sögurnar urðu til. Fyrst hafi verið til efnislegur kjarni um eitthvert atvik, en svo þegar sagan hefur borizt mann frá manni, þá hefur spunnizt við kjarnann og hann verið fágaður, ekki bara að einstaka maður hafi áhrif á, heldur kemur og til greina folkevittighed. Þannig hefur þetta orðið til.

Þá vil ég þakka hv. 2. þm. Reykv. fyrir velviljuð ummæli um mig, sem hann hefur viðhaft í samkomuhúsum bæjarins, og heldur hann þar einkum tveim skoðunum fram. Fyrst þeirri, að ég sé sannorður um það, sem ég segði um landsmálin, eins og þau eru nú, en eins og kunnugt er, þá hef ég nú aðallega verið að gagnrýna flokk hv. 2. þm. Reykv., svo að ég get talið þessi ummæli okkur báðum til sóma. Hann hélt svo áfram í sama lofsamlega tóninum og sagði, að það liti út fyrir, að ég hefði pólitískt radartæki, sem gerði mér mögulegt að sjá tvö ár fram í tímann. Þó að ég hafi nú ekki haft þetta tæki, þá er það öllum ljóst nú, að það er rétt og fram komið, sem ég spáði um kommúnista. Æ sér gjöf til gjalda. Milli mín og kommúnista hefur verið samvinna, ekki þýðingarlaus, því að ég hef haldið því fram, að sá flokkur, kommúnistar, gæti ekki starfað með lýðræðisflokkunum. Mikill fjöldi samflokksmanna og manna úr öðrum borgaraflokkunum héldu, að þetta væri rangt. Þarf ég ekki að fjölyrða um það, en þegar kommúnistar voru í ríkisstj., þá bar ég fram vantrauststill. á þá stjórn, en þá fékk ég engan með mér til þess að styðja vantraustið, því þó að Framsfl. væri óánægður, þá var hann þó trúaður á samstarf við kommúnista og vildi ekki fallast á að styðja vantraustið. Nú er þetta breytt, bæði erlendis og hér, og ganga nú harðir dómar um kommúnista hvar sem er. Ef menn taka nú Morgunblaðið eða Alþýðublaðið, sem áður töldu samvinnu við kommúnistana æskilega, þá má nú sjá þar notuð sterk orð um, að ekki séu til menn, sem sé verr við borgaralegar dyggðir en þeim, og að öll meðul helgi þeirra pólitíska tilgang. Nú hefur það komið fram í dagsins ljós, að þeim, sem stofnuðu Sameinuðu þjóðirnar, hefur nú skilizt það, sem þeir ekki skildu áður, að engin samleið er möguleg milli kommúnistanna og lýðræðisþjóðanna. Þess vegna er nýja þjóðabandalagið andvana fætt.

Nú vil ég segja það, að það mundi hafa verið gagnslaust fyrir mig að vera að prédika fyrir þjóðinni hættuna, sem stafaði af kommúnismanum, ef þjóðin vildi ekki trúa því vegna bjartsýni hennar, en það, sem hefur hjálpað mér, það er ekki mín prédikun beinlínis, heldur verk kommúnistanna og framkoma þeirra öll, því að hún hefur sannað, að samstarf er útilokað við lýðræðisflokkana. Það, sem veldur því, að Morgunblaðið og Alþýðublaðið segja nú það sama sem ég sagði fyrir mörgum árum, það er það, að framkoma kommúnista hefur sannfært mennum það, að það er ekki hægt fyrir borgaraflokkana að hafa samvinnu við þá. Annaðhvort verða borgaraflokkarnir að ráða öllu og kommúnistar engu, eða kommúnistar öllu, en það getur aldrei verið um neina samvinnu að ræða. Kommúnistar geta ekki ráðið í þjóðfélagi með lýðræðisfyrirkomulagi — það er útilokað, af því að þeir eru ekki fæddir til þess. Ég lít þess vegna svo á, að það hafi verið frjósamt og ánægjulegt samstarf milli mín og hv. 2. þm. Reykv., og ég hef ástæðu til þess að segja, að vegna þessarar samvinnu hafi stefnu minni aukizt fylgi hér á landi.

Kommúnistar hafa borið hér fram ákæru út af því, að þeirra kostur hafi verið þjakaður. Þeir eru að kvarta undan smáóhappi, sem átti sér stað, er einn þm. þeirra komst ekki inn í þinghúsið. En hvað skyldi vera langt síðan tveir menn, annar æðsti maður ríkisstj., forsrh., en hinn æðsti maður bæjarins, borgarstjórinn þáverandi, urðu fyrir árás af liði, sem kommúnistar drógu saman á Austurvelli, þegar verið var að ræða um Keflavíkursamninginn. Þá réðust þeir að flokkshúsi Sjálfstfl. og ætluðu þar að hleypa upp fundi, og ef leiðtogar Sjálfstfl. hefðu ekki latt sína menn, þá hefði þarna komið til átaka inni. En þegar þeir voru að fara út úr húsinu, þá var setið um líf þessara tveggja manna, ekki vegna persónanna Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar, heldur vegna þeirra valda, sem þeir höfðu. Ég vil benda hv. 2. þm. Reykv. á það, hvað gerðist, þegar skríllinn var að taka völdin á Austurvelli og búinn að gera þar uppþot. Þá var það sjálfsögð skylda lögreglunnar að beita táragasi, vatni eða einhverjum saklausum ráðum til þess að dreifa skrílnum. Þá kemur hv. 2. þm. Reykv. og neitar því, að það sé beitt táragasi við þessa menn, nema til komi úrskurður dómsmrh. Með þessari framkomu gerði 2. þm. Reykv. hið íslenzka réttarríki að skrípi. En það vildi svo til, að þáverandi dómsmrh. var á ferðalagi. Það var bezt fyrir þessa menn að fara heim, áður en til kæmi að dreifa þeim með táragasi. Í stuttu máli sagt, þá vona ég, að hv. 2. þm. Reykv. og hans vinir skilji, að þegar svona hlutir gerast rétt fyrir utan þinghúsið, að menn leyfa sér að æsa upp skrílinn til að ráðast á þá menn, sem þá voru forráðamenn lands og bæjar, þá sýnir það, að þeir eiga ekki samleið með okkur hinum. Þeir eru uppreisnarmenn. Þeir játa það sjálfir. En samt koma þeir og kveina yfir öðru eins smáræði og því, að formgalli varð við inngöngu eins alþm. inn í húsið. Það þarf að gera þessum mönnum ljóst, að þeirra stefna er í ósamræmi við vestrænt þjóðskipulag. Þess vegna er búið að sameina að nokkru leyti hina þrjá íslenzku borgaraflokka, svo að meiri hlutinn stendur saman og segir: Við viljum ekki hafa þetta byltingalið. Við viljum hafa lög og rétt í landinu. — Það var haustið 1944, að hv. þm. G-K. myndaði stj., og þá eru hér á Alþ. hér um bil sömu menn og eru hér nú. Þá var meiri hluti þm. þeirrar skoðunar, að hægt væri að vinna með bolsévikum. Í gærkvöld kom það í ljós, að 5 borgaralegir þm. eru enn haldnir af þeirri meinloku. Þessir 5 þm. sýna veilurnar í flokkunum.

Svo kem ég að kjarna málsins. Nú fer að líða að því, að bæði Íslendingar og allur hinn menntaði heimur skilji, að annaðhvort verða bolsévikarnir að ráða öllu eða engu. Þá er komið svo, að við Íslendingar segjum: Við viljum ekki láta þá ráða neinu. Við viljum ekki láta þá ráða yfir landinu. Við sameinumst gegn þeim, ekki til að misþyrma þeim, en við viljum ekki þola þeim ofbeldi eða lögleysur. Þeir verða að hlýða okkar borgaralegu lögum, ef þeir vilja fá að vera í landinu með sína skoðun, en þeir geta ekki heimtað að verða teknir hátíðlega.