29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (4427)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það hefur verið lögð mikil áherzla á að hraða þessum umr., og þm. hefur ekki gefizt tækifæri til þess að ræða neitt við hæstv. ríkisstj. um þetta mál. Það vita allir, að það gefst ekki tækifæri til þess að ræða málið þannig í útvarpsumræðum. Það eru áróðursumræður, fluttar eftir vissum reglum um tíma o. s. frv. Hæstv. ráðh. hafa yfirleitt ekki verið hér tiltækir til þess að svara þm., fyrr en hæstv. utanrrh. var dreginn hingað inn í salinn til þess að svara fyrirspurn, sem fyrir hann hafði verið lögð. Ég vil taka það fram, að af hálfu okkar sósíalista hefur oftar en einu sinni verið gerð tilraun til þess að fá þetta mál rætt hér á Alþ., til þess að glöggari og skýrari upplýsingar fengjust fyrir almenning. En því hefur nú verið haldið fram, að við höfum ekki viljað, að skýrari upplýsingar kæmu fyrir almenning. Daginn eftir að lepparnir þrír flugu til Ameríku, var gerð fyrirspurn til hæstv. forsrh. af hálfu Sósíalistafl. um það, hvort ríkisstj. hefði ekki fengið slíkan sáttmála eða drög að slíkum sáttmála, þannig að hún gæti skýrt Alþ. frá þessu máli. Hæstv. forsrh. var ekki lengi á sér að standa upp, og hann sagði Alþ.,ríkisstj. hefði engan sáttmála fengið og þar af leiðandi væri ekkert frekar um málið að ræða á því stigi. Síðar sagði hann svo, þegar hv. 2. þm. Reykv. í sömu umr. spurði hann um, hvort ríkisstj. hefði ekki fengið uppkast að sáttmála í sínar hendur, að hún hefði ekki fengið slíkt uppkast í hendur. Þetta voru orð hæstv. forsrh. 14. marz s. l. Svo kemur utanrrh. í útvarpið í gær og heldur ræðu, sem birt var í Morgunblaðinu í dag, og þar segir hann: „það var ekki fyrr en 9. marz, að komið var til ríkisstj. með ákveðna frásögn um það, hvað þessari samningsgerð liði.“ — Þann 9. marz berast í hendur stj. ákveðnar upplýsingar viðvíkjandi þessum samkomulagsumleitunum, en þann 14. marz stendur hæstv. forsrh. upp og gefur þær upplýsingar, sem ég drap á áðan. Ég er viss um, að önnur eins fyrirlitning eins og hæstv. forsrh. hefur sýnt Alþ. með framkomu sinni í þessu máli mundi ekki koma fyrir á þingum annarra þjóða. Það er fyrir neðan allar hellur að koma með vísvitandi lygar inn á löggjafarsamkomu þjóðarinnar, þegar spurt er um svona þýðingarmikið mál, enda er þessi forsrh. methafi á fleiri sviðum en að fara rangt með staðreyndir. Á þessu sést, að ríkisstj. beitir hreinum lygum til þess að komast hjá því að þurfa að ræða málið. Já, það er full ástæða fyrir hæstv. forseta að hringja, sérstaklega, ef forsrh. væri viðstaddur. Ríkisstj. knýr svo hæstv. forseta til þess að bregðast trúnaði við þm. og beita bolabrögðum til þess að draga úr umr. Ég veit, að hæstv. forseti gerir þetta nauðugur, því að hann á það yfir höfði sér að vera kallaður kommúnisti eða skepna, ef hann ekki hlýðir þessu boði, ef ég þekki hans flokk rétt.

Annað atriði í ræðu hæstv. forsrh. í umr. um þetta atriði 14. marz er algerlega ósatt, en það var þar sem hann lýsti því yfir, að íslenzka stj. hefði átt frumkvæði að því, að ráðh. fóru vestur. Utanrrh. sagði í ræðu sinni í gær: „En í þeirri orðsendingu, sem mér barst 9. marz, var sagt, að æskilegt væri, að viðtöl gætu átt sér stað milli fulltrúa Bandaríkjanna og íslenzku ríkisstj.“ — Svo geta menn byggt ályktanir sínar á þessu. Bjóst íslenzka stj. við því, að Dean Acheson kæmi til Reykjavíkur til þess að ræða við utanrrh. okkar, eða var þetta áskorun um, að þeir kæmu vestur? Forsrh. sagði Alþ., að utanför ráðh. hefði verið ákveðin af ríkisstj., en hafi ekki verið farin eftir ósk annarra, allra sízt skipun. Þannig er framkoma ríkisstj. í þessu máli á allan hátt blygðunarlaus, sem sýnir bezt, hve illa hún er haldin. Það hefur verið komið hér á einræði, svo að hægt sé að hespa málið af á sem skemmstum tíma. Þeir hafa ekki komið sér saman um, hvernig þeir eiga að túlka samninginn. Þeir segja ýmist, að hann sé gerður til að vernda Ísland fyrir árás Rússa, sem mundu nota Ísland fyrir skammbyssu aftan að Englendingum og Bandaríkjunum, eða þeir segja, að samningurinn feli ekki í sér neinar hernaðarlegar aðgerðir af hendi Íslendinga og við munum verða lausir við allt slíkt, við munum ekki koma til með að hafa neinar varnir og samningurinn breyti engu um aðstöðu okkar. Þessu hvoru tveggja er haldið fram jöfnum höndum. Svona málfærsla getur gengið meðan verið er að knýja samninginn í gegn á örskömmum tíma, en svo fara menn að átta sig á ósamræminu. Ég vil undirstrika það, að ráðh. og fylgismenn þeirra hafa ekki þorað að koma nokkurs staðar opinberlega fram til að ræða samninginn. Ríkisstj. hefur haft það fyrir reglu að flýja, þegar stærstu málin hafa verið rædd. Hún hefur látið sér nægja að mæta á flokksfundum, en í þingsölum þorir hún ekki að standa fyrir máli sínu. Hvað skeður svo, þegar utanrrh. kemur hér og talar nokkur orð? Hann hefur ekkert að segja annað, en að endurtaka gamla upptuggu, sem blöð Sjálfstfl. eru búin að marglepja, að Sósfl. fái fé erlendis frá og við séum leppar erlends ríkis. Við verðum ekki dæmdir eftir orðum þessara manna, heldur athöfnum okkar, og þessir menn verða líka dæmdir eftir sínum athöfnum. Þeir eru að gera samning, sem dregur Ísland inn í hernaðarátök, miklu meiri en átt hafa sér stað áður. Þó að við höfum mismunandi skoðanir á þeim stríðandi aðilum, þá verðum við að forðast þann voða að steypa okkar þjóð út í stórfelldar hernaðaraðgerðir. Það ættu allir að geta verið sammála um. Og þó að svo illa hafi til tekizt, að hlutleysi okkar í síðustu styrjöld hafi ekki dugað til að vernda okkur frá að verða hernumdir, þá má segja, að við kæmumst gegnum stríðið nokkuð slysalítið, þó að við misstum 500 menn. Ef við eigum að sleppa eins vel gegnum næsta stríð, þá er nauðsynlegt að gera ekkert til að skapa okkur ábyrgð og sýna okkur ekki fjandsamlega við neinn. Það er líka alveg fráleitt frá sjónarmiði þeirra, sem telja Vesturveldin það bezta, sem til sé í þessum heimi, að ganga í þetta bandalag, því að ef svo færi, að stríð skylli á, sem ég hygg tæplega, að nokkur okkar vilji, þá geta þeir sætt sig við það, að það verða Bandaríkin, sem hernema okkur. En þessi fámenna klíka vill ekki heyra annað, en við séum dregnir inn í þetta, inn í þá mestu ábyrgð, sem nokkur Íslendingur hefur bakað sér. Og það er ömurlegt hlutskipti okkar Íslendinga að eiga svo auvirðilega og lítilsiglda forustumenn á svo mikilli hættustund sem hér er um að ræða. Ef væri sagt eitt stutt nei við tilmælum Bandaríkjanna, þá mundi það kveða niður, a. m. k. í bili, allt tal þeirra, sem nú eru að reyna hér að breiða út, að stríðshætta sé á ferðinni eins og sakir standa. Hins vegar bendir allt til, að þær tiltektir, sem nú á að stofna til, geti rekið heiminn út í stríð fyrr en nokkurn varir.

Hæstv. utanrrh. var spurður um það, hvort Íslendingar þyrftu ekki að leggja fram öll sín veraldleg efni til þessa stríðsrekstrar, sem þeir yrðu aðilar að, ef til stríðs kæmi. Hann svaraði, eins og fyrirspyrjandi, hv. 3. landsk., tók fram, mjög loðið. Þeir hafa kannske ekki spurt utanrrh. Bandaríkjanna um það og þurfa kannske að fljúga vestur aftur til að spyrja. Það mál stendur þannig, að það getur engin þjóð verið í stríði og sagt við bandamenn sína: Þið eigið að borga rekstrarkostnaðinn. Þó að Íslendingar þurfi ekki að leggja fram vopn eða her, þá er kostnaður við stríð margvíslegur og margvíslegur fjárhagslegur kostnaður innanlands, og að svara þessu með því, að þetta fari alveg eftir því, hvað við ákveðum á hverjum tíma, það er að svara út í hött. Það er vísvitandi ósatt svar. Hæstv. utanrrh. veit vel, að þegar við erum stríðsaðili, þá er hægt að taka út í okkar reikning. Sú úttekt verður m. a. skemmdir og tjón, sem verður á Íslandi af völdum stríðs, enn fremur hvers konar truflanir á atvinnulífi okkar og siglingum til landsins o. s. frv., sem við getum ekki krafizt, að bandamenn okkar bæti eða leggi fram. (Forseti: Ræðutíminn er búinn.) Ég er líka að verða búinn. Það er ástæða til, að þjóðin geri sér ljós undirstöðuatriðin í þessum samningi, og þá fyrst og fremst það, að það, sem Bandaríkin óska eftir hvað Íslandi viðvíkur, er að gera Ísland að stríðsaðila, svo að þeir geti notað landið eins og þeim sýnist, þegar til stríðs kemur, svo að þeir þurfi ekki að taka tillit til neinna sjónarmiða Íslendinga. En það er ein klausa, sem hæstv. utanrrh. og vottar hans eiga að fela og þegja yfir, sem Acheson sagði, að mætti ekki vera skrifleg. Þessi samningur verður ekki annað en pappírsplagg, sem okkur er sýnt, meðan verið er að blekkja samninginn upp á okkur, því að sá samningur er á bak við. Hæstv. fyrrv. utanrrh. gerði þannig baksamning í sambandi við Keflavíkursamninginn, að Íslendingar skyldu ekki framfylgja sínum rétti, ekki einu sinni þeim rétti, sem þeir hafa samkvæmt samningnum. Sama skeði hjá hæstv. núverandi utanrrh., þegar hann og fylgifiskar hans voru að ræða við Acheson. Þeir ætla sér ekki að framfylgja samningnum. Hann er gerður í blekkingarskyni og verður ekki haldinn.