03.02.1949
Neðri deild: 57. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

17. mál, kjötmat o.fl.

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Það er ekki margt um þetta bráðabirgðaákvæði að segja, en það ber með sér, hvert stefnt er, þ.e. að draga úr gildi 2. gr. frv., m.ö.o., að rýmka til um þær kröfur, sem þarna eru settar; að atvmrn. verði gefin heimild til þess að veita undanþágu um stundarsakir. En þegar svona undanþágur eru veittar, þá er alltaf hætt við því, að gengið sé lengra, en ætlazt er til. Hér er miðað við stórgripi, en eftir reynslunni, sérstaklega hvað snertir Reykjavík, þá er mér kunnugt um, að þar er heimaslátrun ákaflega tíð, þar sem stórgripum er slátrað án þess að það komi nokkurn tíma í sláturhús, og fjöldi af gripum berst til bæjarins, sem aldrei kemur í sláturhús áður en það kemur hingað á sölustað. Svo er hitt atriðið, sem ég er dálítið hræddur við, það er kjötmatið. Hingað til hefur aðeins verið kjötmat á sauðfé, en stórgripamat hefur ekki átt sér stað. Ég held, að það geti ekki sakað, þó að þetta standi í l., en ég vildi bara benda á það, að það má gera of mikið, jafnvel í kjötmati. Ég gat þess í gær, að það mundi verða tekið liðlega á þessu máli, maður er neyddur til að gera það í sambandi við slátrun stórgripa, því að það er ekki hægt að koma því fyrir enn þá, meðan ekki eru byggð sláturhús, að meina mönnum að slátra heima eða slátra á ófullkominn hátt, þó að reynt sé að stefna að því, að það sé sem fullkomnast. Ég held ekki, að þetta bráðabirgðaákvæði sé svo ákaflega nauðsynlegt, þar sem í frv. er gert ráð fyrir möguleika á tilslökun. Ég vil geta þess um þessa dýralæknisskoðun, að dýralæknar eiga að skoða að svo miklu leyti sem þeir komast yfir. Undanþága frá því var gefin af fullri nauðsyn. Sú undanþáguheimild var veitt í l. frá 1912, að héraðslæknar gætu að loknu námskeiði hjá dýralækni fengið heimild eða viðurkenningu til kjötskoðunar, þ.e.a.s. til sauðfjárkjötskoðunar. Nú hafa verið haldin stutt námskeið og flestir þeir, sem hafa þessa viðurkenningu, eru lærisveinar mínir. Þessi námskeið hafa verið þannig, að menn hafa komið á síðustu stundu og heimtað að fá að læra þetta, og ég hef kennt þeim nokkra klukkutíma, og svo eiga þeir að vera fullkomnir kjötskoðunarmenn. En þessi kennsla er svo stutt, að hún er aðeins til að bjarga hlutunum og aðeins miðað við að skoða sauðfjárkjöt. En ég vil benda hv. d. á það, að það er nokkuð annað að skoða svínakjöt og nautgripakjöt, en sauðfjárkjöt. Þess vegna er það dálítið varasamt að fara nú með l. að segja: Þetta kjöt á að skoða af hvaða manni sem vill, þó að hann hafi aldrei komið nálægt nautgripaskoðun. En ég ætla ekki að bregða fæti fyrir þessa till., en vil bara benda hv. d. á, að þetta bráðabirgðaákvæði er ekki bráðnauðsynlegt, þó að það sé ekki mjög varhugavert.