30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (4450)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Forseti (JPálm.):

Ég vil, áður en þessi umr. hefst, leggja til, að hún verði eins stutt og þingsköp frekast leyfa og standi eigi lengur en 3 klst. alls, og mun ég bera það undir hv. þm. (EOl: Ég mótmæli þessari aðferð, herra forseti, og ég mótmæli þessu ofbeldi. Þetta er siðferðilega fordæmandi.) Hv. þm. skera úr um þetta. (EOl: Þm. geta ekki skorið úr um þvílíka hluti sem hér er verið að fremja. Þetta er ekki í samræmi við þingsköp.) Jú. (EOl: Hæstv. forseti er ekki að beita þingsköpum.—SigfS: Hvar er þessi gr. í þingsköpunum? Hæstv. forseti er að beita hv. þm. ofbeldi. Það er ekki Alþ., sem er að samþykkja þetta.) Í 37. gr. þingskapa segir svo: „Ef umræður dragast úr hófi fram, getur forseti úrskurðað, að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd, og einnig getur forseti stungið upp á, að umræðum sé hætt. Svo getur og forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo, að hún standi skemur en 3 klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði í þingdeild þeirri, sem hlut á að máli, eða sameinuðu þingi, og ræður afl atkvæða úrslitum.“ (EOl: Ég heimta að ræða hér þingsköp. Þann rétt getur hæstv. forseti ekki tekið af mér. Þetta eru ólög og ofbeldi. Það er það, sem hér er verið að gera. Ég mótmæli þessu.) Ég ber þetta þá upp. (SigfS: Við krefjumst forsetaúrskurðar. Ég neita, að þessum aðgerðum sé beitt, og krefst úrskurðar forseta. — EOl: Þetta er enginn fundur. — SigfS: Þetta er lögleysa og vitleysa. — EOl: Ég mun greiða atkv. á móti þessu. — SigfS: Þetta er harðstjórn með amerísku ofbeldi, ólög og vitleysa. — EOl: Hafa menn þá rétt til að greiða atkv.?)