30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (4471)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. spurði að því í lok ræðu sinnar, hvort heiminum lægi nokkuð á þessu bandalagi. Því er fljótsvarað, að heiminum liggur á.

Það var sagt frá því í útvarpinu í gærkvöld, að allt norska þingið, að kommúnistum einum undanskildum, hefði samþykkt aðild Noregs að Atlantshafsbandalaginu. Málinu var vísað til utanríkismálanefndar norska þingsins, og hefur verið séð svo um, að kommúnistar ættu engan fulltrúa í þeirri nefnd. Norðmenn eru einhver mesta lýðræðisþjóð heimsins, en þeir líta bara svo á, að kommúnistar séu ekki þjóðin, heldur deild, sem lætur stjórnast í blindni af Rússum, og þeir láta þá ekki vera í utanríkismálanefnd, af því að þeir vita, að kommúnistar eru ekki af aðli þjóðarinnar.

Sama reynslan er hér, kommúnistar eru alls staðar óhæfir til að vera með í félagsmálum, af því að þeir brúka ofbeldi. Nú vill svo til, að kommúnistar hafa hér alveg nýlega ætlað að springa af vandlætingu af því að Lúðvík Jósefsson, hv. 2. þm. S-M., er særður, af því að hann sagði ekki til nafns, þekktist ekki og varð að bíða eina mínútu eftir því að komast hér inn í alþingishúsíð. En að hugsa sér, að kommúnistar skuli hafa brjóst í sér til að hrópa upp um ranglæti og ofbeldi, þó að einn þeirra þurfi að bíða eina mínútu við dyr, að þeir skuli dirfast, þessir skósveinar Rússa og ofbeldisins. Hve lengi hafa Pólverjar, Finnar og Eystrasaltsþjóðirnar orðið að bíða réttlætisins við dyr Rússa? Það var níðingslegt, að þegar Hitler var búinn að svíkjast að Pólverjum, þá kom Stalín að austan og beið aðeins eftir því, að Þjóðverjar þjörmuðu fyrst að Pólverjum í Varsjá. Það er ekki til meiri glæpsemi, meiri svívirðing en þessar 5 þjóðir hafa orðið að þola, það er skilyrðislaus glæpur, og því verri, sem hann er framinn í skjóli griðasáttmála. Alþ. vill ekki neina hálfvelgju lengur, heldur ganga með þjóðum, sem eru á móti slíkum aðförum.

Það, sem okkur ber því skylda til að gera, fáum og vopnlausum, og fyrr en nú, var að tryggja landinu varnir. Það var skylda okkar, ef hyggindin hefðu ráðið, að sjá um, að hér væru varnir eins og með öðrum þjóðum, a. m. k. 100 flugvélar til varnar og taks í Keflavík. Að varnarleysi okkar og sofandahætti er brosað um allan heim og litið á varnarleysið sem tákn um vanmátt okkar. Við erum nú algerlega varnarlausir. Hvaða dag sem Rússum þóknast geta þeir komið hingað og sett hér 30 þúsund manna lið og vopn, eða það sem þeim þóknast, á tvo flugvelli, þannig að það er ósköp skiljanlegt, að aðrar þjóðir segi, að úr því að Íslendingar vilji vera óvarðir, þá sé ekki rétt að neyða varnir upp á þá. En það, sem hér yrði að gerast, ef Rússar kæmu hingað, er hins vegar það, að aðrar þjóðir yrðu að hafa fyrir því að hreinsa Rússa aftur af Reykjanesinu, eins og eyjarnar í Kyrrahafi voru hreinsaðar af Japönum, og e. t. v. neyddust þessar þjóðir til að hreinsa okkur með, og hefðum við þá lagt okkur það til með því að bjóða Rússum heim. Gæti þá svo farið, að helmingur þjóðarinnar tapaðist, eins og séra Sigurbjörn sagði, og væri það allt kommúnistum að kenna.

Danir þykja friðsamir menn og leggja lítt stund á vopnaburð. Þó sækja þeir nú fast að fá vopn frá Bandaríkjunum, vopn gegn Rússum, ekki til að ráðast á Rússa, heldur til að vera viðbúnir til varnar, ef Rússar ráðast á Danmörk. Þeir hafa lært af reynslunni og vita sem er, að Rússar hafa innlimað fimm lönd þegjandi og hljóðalaust, af því að þau gátu ekki veitt neina mótspyrnu.

Kommúnistum þarf að verða ljóst, að ofbeldistilraunir þeirra 1946, skrílslætin hér fyrir utan í gærkvöld, hótanir Brynjólfs Bjarnasonar með 800 milljónum og allt slíkt er bjánalegt og viðbjóðslegt í augum allra góðra Íslendinga og allra heiðarlegra manna. Allt þetta ber þess glöggan vott, að þeir eigi ekki að ráða, og þeir geta ekki og mega ekki ráða, af því að það er skaðlegt þjóðinni. Við verðum að láta þeim skiljast, að ef Lúðvík Jósefsson var særður í metnaði sínum vegna þess, að hann þurfti að bíða hér eina mínútu við dyr þinghússins, þá erum við Íslendingar særðir, ef okkar hlutskipti yrði hið sama og Eystrasaltsþjóðanna. Af því að við kjósum umfram allt ekki það hlutskipti, þá gerum við þennan samning og gerum ráðstafanir til þess, að kommúnistar hafi ekki aðstöðu til að misbjóða Alþingi eins og þeir hafa gert í dag.