30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (4472)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Skúli Guðmundsson:

Á þskj. 508 eigum við hv. þm. Str. brtt. við þessa till., er hér liggur fyrir, og er efni brtt. okkar á þá leið, að þetta mál sé lagt undir þjóðaratkvæði strax í næsta mánuði. Er nánar fram tekið í brtt., hvernig atkvæðagreiðslu þeirri skuli haga, þ. e. a. s. að því leyti, að kjörmiðar utan kaupstaða og kauptúna skuli afgreiddir til heimila eftir settum reglum.

Með þessari tilhögun teljum við að komið verði í veg fyrir, að málið verði langvarandi deilumál.

Það hefur nokkuð verið rætt um þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál að undanförnu, og virðast þeir yfirleitt andvígir Atlantshafsbandalaginu, sem vilja þjóðaratkv. En þar gegnir öðru máli með mig. Ég tel rétt, að við stöndum að bandalaginu, ef svo tryggilega er um hnútana búið, að sérstaða Íslands sem vopnlausrar þjóðar sé viðurkennd. Ég er ekki að draga í efa fullan rétt Alþingis til að ráða málinu til lykta, og vitanlega hefur þjóðaratkvgr. fyrirhöfn nokkra í för með sér. En málið er þannig vaxið, að ég tel eðlilegt, að þjóðaratkvgr. fari fram um það, og má m. a. benda á, að með því móti er unnt að koma í veg fyrir, að það verði gert að æsinga- og áróðursmáli, eins og þegar hefur verið gert á Alþingi og utan þess.

Af brtt. okkar þm. Str. leiðir, ef hún verður samþykkt, að Ísland getur ekki gerzt stofnaðili að bandalaginu eins og gert er ráð fyrir í till. ríkisstj., og að því leyti er brtt. okkar ekki í samræmi við fyrri ályktun miðstjórnar flokks okkar og þingflokks. En nú er yfirlýst, að þjóðinni standi til boða að gerast síðar aðili að bandalagi þessu, og sé ég þá ekki, að neinn skaði sé skeður, þó að þátttökunni verði frestað um mánaðartíma, því að mér þykir líklegt, að við þjóðaratkvgr. verði meiri hlutinn með þessari samningsgerð og Ísland gerist þá aðili að bandalaginu án þess, að Alþingi þurfi frekar um málið að fjalla. Vegna þess, hve fundartíminn er stuttur, læt ég máli mínu svo lokið.