30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í D-deild Alþingistíðinda. (4475)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Frsm. meiri hl. (Ólafur Thors):

Hv. 4. þm. Reykv. beindi til mín fyrirspurn, sem hæstv. utanrrh. svaraði, og ég vil aðeins bæta því við, að þetta mál hefur ekki enn þá verið tekið fyrir innan flokksins til endanlegrar ákvörðunar.

Hv. þm. Str. sagði strax, að það væri auðséð, að ekki væri hægt að koma með neina brtt. Þó gerir hann sjálfur brtt. Hann spyr, hvers vegna við viljum ekki gera skriflegan fyrirvara, en það er óþarfi, því að samkv. samningnum tökum við ekki á okkur aðrar skuldbindingar en við sjálfir viljum og aðrir viðurkenna réttmætt.

Hv. 2. þm. Reykv. vék að því, að sér þættu umræðurnar stuttar, en þær hafa raunar staðið yfir í 3 daga, fyrir utan allt, sem talað hefur verið um þetta og skrifað að undanförnu. Hann sagði, að ég hefði sagt í áramótagrein minni, að við ættum ekki að setjast í dómarasætið í þessu máli. Þetta er fullkominn útúrsnúningur. Ég sagði, að þeir leiðtogar í Evrópu, hverra þjóðir urðu fyrir barðinu á stríðinu, mundu dæma þetta sjálfir, en ekki við.

Þá hefur verið rætt hér um þjóðaratkv., og skal ég viðurkenna, að það var mikil freisting fyrir mig að fallast á það, bæði til þess að sýna andstæðingunum, hversu mikill meiri hluti þjóðarinnar er samningnum fylgjandi, og svo til þess að þjappa stjórnarliðinu saman, en svo sá ég, að það var svo óvenjuleg málsmeðferð, að ég taldi mér ekki fært að fylgja því.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði skynsamlega að mörgu leyti og mjög hjartnæmt. Kvað okkur vilja neita öllu vopnavaldi og vilja treysta á hlutleysi og forna frægð sem bókmenntaþjóð og því um líkt. Hver vildi ekki afneita vopnavaldi? Eins og allir vita hef ég verið einn hinna einföldustu í þessum efnum, en eftir að hafa setið á þingi Sameinuðu þjóðanna leyfi ég mér ekki lengur að halda í slíka von. Þess er heldur engin von, þegar það getur ef til vill ráðið úrslitum, hvorum megin við erum. Slíku væri hreinn barnaskapur að trúa.

Menn eru að spyrja, af hverju þessu sé hraðað svona, en er ekki alltaf verið að tala um, að ekkert gangi og mörg mál bíði, og auk þess er ekki lengur tími til stefnu og þjóðin græðir ekkert á frekari umræðum, þar sem stefnurnar hafa þegar verið skýrt mótaðar.