30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (4478)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Það er nú heldur lítið samræmi í því að fara hér að ræða þetta mál sem frsm., eins víðtækt og það er, og fá aðeins einar 5 mínútur til þess. Hv. þm. G-K. lét hér falla orð, sem ég býst við, að eigi eftir að verða söguleg, og eru satt að segja mjög táknræn um það, sem hér er að gerast í dag. Við hvað ætli þessi hv. þm. eigi, þegar hann segir, að umr. um málið hafi enga þýðingu? Þessi yfirlýsing um skerðingu málfrelsis þm. er annars óþörf, því að þeir menn, sem ráða málum hér í dag, vita, hver vilji auðmannastéttarinnar er. Sú stétt veit mæta vel, hvað hún vill. Þess vegna notar hún meiri hl. Alþingis til þess að koma ár sinni fyrir borð, en vitað er, að meiri hl. þjóðarinnar er á móti þessu máli. Hvað er að gerast? Hér eru sömu atburðir að endurtaka sig og á 13. öldinni, þegar höfðingjastéttin glataði frelsi landsins. Það er hún, sem nú ætlar að leggja landið okkar af mörkum, til þess að auðvaldið komi áformum sínum í framkvæmd. Allt frá upphafi sögu vorrar hefur þjóðin verið vöruð við bölvun þeirri, sem gullið veldur, auðurinn, sem safnast saman á fáar hendur, allt frá sögu Völsungasögu um Fáfnisauðinn hefur þessi viðvörun gengið sem rauður þráður gegnum bókmenntir þjóðar vorrar. Nú ætlar þessi bölvun gullsins að verða yfirsterkari. Það er sú bölvun, þegar auðurinn, gullið, safnast á fárra manna hendur. Ef menn eru fátækir, þá hugsa þeir öðruvísi. Þá hafa menn djörfung og heiðarleik og einurð til þess að hugsa hátt, en mikil fjáreign og verðmæta breytir þeim hugsunarhætti svo, að menn veigra sér ekki við að gera slíka hluti sem hér á að framkvæma í dag. Það er auðmannastétt lands vors, sem leggur þetta mál hér fram, en vissulega eru það hryggileg örlög fyrir þjóð vora, hvað hér er að gerast. Ég hef reynt að afstýra þessum örlögum. Ég hef áður reynt að skapa samstarf á milli alþýðunnar og hinna framsæknari afla auðmannastéttarinnar, til að koma í veg fyrir ógæfuna. Það hefur eitt sinn áður tekizt, er mikið lá við. Ég harma, að þjóðareining gegn þessu verki skuli ei hafa skapazt nú. Það eru mér vonbrigði, að alþm. skuli ekki vera gefin kostur á að ræða þetta mál rækilega frá öllum hliðum, að ég tali nú ekki um meðferð málsins í utanrmn. Það hefði verið hægt að finna einhver önnur ráð, en að afgr. þetta mál eins og sýnilega á að gera. Ég ætla ekki að þrjózkast við, en ég hef reynt að skýra sem bezt þann voða, sem felst í þessari till. til þál. Ég mótmæli enn þá einu sinni. Mér hefur oft verið álasað fyrir bjartsýni, en ég er nú svartsýnn er ég horfi til þess, sem hér er verið að framkvæma með ofbeldi. Af hálfu hæstv. ríkisstj. er hér úti launað hervald. Hæstv. ríkisstj. liggur undir þessari ákæru. Sú ríkisstj., sem rekur mál sín áfram með ofbeldi, mun sundrast. Hún mun sundrast strax eftir að hún hefur framkvæmt ofbeldisaðgerðir sínar.

Ég mótmæli enn á ný þessum aðferðum, herra forseti.