30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í D-deild Alþingistíðinda. (4479)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef ekki margar mínútur til umráða, þar sem hæstv. forseti hefur eftir skipun ríkisstj. skammtað tímann.

Ég þykist þess fullviss, hvernig þessu máli muni lykta hér í dag. Það er búið að járna stjórnarliðið svo, að um framgang málsins þýðir ekki að ræða. Það hefur verið mönnum nokkuð lengi kunnugt, að hv. þm. S-Þ. hefur nú um nokkurt skeið sagt hluti upphátt og ódulbúið, sem aðrir þm. hafa ekki þorað að segja umbúðalaust. Ég skal ekki vera að draga þennan hv. þm. inn í umr., en hann vill, að stríð brjótist út og það helzt sem allra fyrst. Fyrir hans augum er þetta hernaðarsamningur, en ekki friðarsamningur. Hann þorir að segja þetta hispurslaust og án nokkurra umbúða, þó að hv. þm. G-K. segi annað. Hv. þm. G-K. virðist vera svo á móti Rússum, að honum finnst ekki nema sjálfsagt að svipta þm. sósíalista öllum rétti þeirra sem þm. og helzt mannréttindum. Honum finnst ekki nema eðlilegt, að þverbrotnar séu allar þingvenjur og þingsköp, bara ef það er stundarhagnaður fyrir einhverja sérstaka flokka. Að öðru leyti talar þessi hv. þm. á allt annan veg en þm. S-Þ. Hann reynir að dulbúa sig og dulbúa málið. „Engar herstöðvar á friðartímum.“ Slíkar eru yfirlýsingar stjórnarliðsins. Menn minnast þess, að Ameríkumenn lofuðu að hverfa héðan að ófriðnum loknum, en hvernig fór? Þeir töldu, að ófriðnum væri ekki lokið, eins lengi og frekast var unnt. Ætli það verði ekki svipað, þegar þeir fara að úrskurða, hvenær séu friðartímar í heiminum eða ekki? Það mun víst ekki standa á mönnum í stjórnarflokkunum að réttlæta þann úrskurð.