07.02.1949
Efri deild: 55. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

17. mál, kjötmat o.fl.

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Nefndin hefur nú ekki haldið fund um málið síðan það kom til hennar aftur, enda er það nýkomið, og get ég þess vegna ekki sagt álit n. um málið nú. En breytingar eru ekki miklar, og skal ég aðeins drepa á þær. Það er fyrst og fremst breyt. á 2. gr. frv. og er gerð með tilliti til þess, að frystihús eru ekki alltaf í sambandi við sláturhús, og ég geri ráð fyrir, að það megi telja þá breytingu heldur til bóta. — Við 3. gr. er gerð nánast orðabreyt., er skiptir ekki máli. — Breyt. við 4. gr. er ekki nein breyt. í raun og veru, heldur hafa línur brenglazt í prentuninni á frv., og er hún lagfæring á því. Breyt. við 9. gr. er sömuleiðis orðabreyting. Það, sem ekki er orðabreyting og skiptir kannske máli, er bráðabirgðaákvæði, sem sett var inn í frv. við síðustu umr. í Nd., sem er um það, að þó að með þessum l. sé annars gert ráð fyrir, að öllum gripum sé slátrað í sláturhúsum, þá megi þó veita undanþágu, að stórgripum megi slátra utan löggiltra sláturhúsa, enda séu afurðirnar skoðaðar og merktar af dýralækni eða öðrum þeim, er kjötskoðun annast, og metnar af kjötmatsmanni og meðferð vörunnar óaðfinnanleg að þeirra dómi. Þarna er sá varnagli sleginn, að dýralæknir skuli skoða kjötið á sölustaðnum og kjötmatsmaður meta það. Ef það væri vissa fyrir því, að þessu tvennu væri fylgt, þá gæti ákvæðið nokkurn veginn gengið. En það vantar enn þá ákaflega mikið á, að svo sé, sérstaklega á stærri stöðunum eins og hér í Reykjavík, þar sem enn er ekki til nokkur staður, þar sem dýralæknir á aðgang að kjöti til þess að skoða það og stimpla. Einn kemur með þetta kjöt og annar með hitt og selur það aðeins í þeirri búð, sem hann getur selt það með beztum kjörum, og það alveg án þess, að dýralæknir hafi nokkra hugmynd um. Þess vegna er þetta ákvæði nokkuð varhugavert, en þó legg ég ekki það mikið upp úr því að ég vildi fella það, og hugsa ég, að það sama megi segja um hina nm. Ég legg þess vegna til, — aðeins frá mér, en ekki frá n., að frv. verði samþ. eins og það liggur nú fyrir þrátt fyrir þetta ákvæði, sem ég tel mjög til spillis á frv.