30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í D-deild Alþingistíðinda. (4481)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það hefur komið skýrt fram í þessum umr., að ef Bandaríkin fari í styrjöld, þá verði hinir aðilar þessa samnings að fara í stríð líka. Með öðrum orðum: Eitt skal yfir alla ganga í friði og þó sérstaklega stríði. Ef þessi túlkun hæstv. dómsmrh. er rétt, þá er hlutleysisyfirlýsing Íslendinga kvödd fyrir fullt og allt á þeirri stund, sem þessi samningur verður samþ. Mjög vafasamt er, hvort íslenzka þjóðin mundi fallast á slíkt, ef hún væri að því spurð. Hún mundi varla samþ. þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh., ef hún yrði um það spurð. Ég hefði talið það mikils virði, ef hægt hefði verið að finna leiðir til úrbóta og lausnar á þessum vanda. Ég hef áður bent á, að eðlilegt hefði verið að semja um niðurfellingu Keflavíkursamningsins í sambandi við þetta mál, enda tæki ríkisstj. þá við rekstri hans, en þetta fæst ekki lagfært nú. Það ætti að vera þjóðinni keppikefli að koma öruggara fyrirkomulagi á utanríkismál sín, ,t. d. með endurskoðun Keflavíkursamningsins, sem ég og hv. 4. þm. Reykv. höfum lagt til í till. okkar. Að lokum vil ég skjóta því að hæstv. ríkisstj., hvort ekki hafi eitthvað mistekizt í þýðingu á fyrirsögn till. Fyrirsögnin hljóðar svo: „Till. til þál. um þátttöku Íslands í Norður-Atlantshafssamningi.“ Væri ekki betra: Till. til þál. um aðild Íslands að Norður-Atlantshafssamningi, eða Norður-Atlantshafsbandalagi. Ég bendi á þetta með tilliti til lögmála íslenzks máls.

Þær till., sem við hv. 4. þm. Reykv. berum fram, miða að því að skýra skjallega sérstöðu Íslendinga við undirritun samningsins. Ef þær ná ekki samþykki, mun ég ekki treysta mér til að taka ábyrgð á afleiðingum þessa máls, ef samþ. verður, og mun segja nei við þessari till.