30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (4498)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Hermann Jónasson:

Vegna þeirrar afstöðu, sem flokkur minn hefur tekið, — og vegna þess jafnframt, að það væri til þess fallið að túlka ranglega afstöðu mína til þess máls fyrr og nú, ef ég greiddi atkv. gegn þessum samningi — eða á sama hátt og þeir, sem engan samning vilja gera, hvernig sem hann væri, mun atkvæði mitt ekki falla á þann veg.

En með því að neita að taka þátt í atkvæðagreiðslu get ég neitað og neita að taka ábyrgð á samningi þessum, eins og frá honum verður gengið, og í annan stað mótmæli ég á þennan hátt meðferð þessa máls, þar sem auðsætt var frá upphafi, að engu yrði þokað og neitað með öllu að þoka nokkru um til þess að nálgast það sjónarmið okkar, sem óánægðir erum með samninginn eins og hann er og teljum rasað í málinu.